18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2973 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

226. mál, vélstjórnarnám

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Rétt fyrir jólafrí hv. þm. í vetur, þ.e. 19. des., voru samþykki lög hér frá deildinni um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Frv. að þeim lögum var til umfjöllunar í samgn. og fékk þar ítarlega umfjöllun.

Það frv., sem hér er til umr., er beint framhald af þeirri lagasetningu sem ég hef hér nefnt. Í þessu frv. er meira að segja ákvæði til bráðabirgða sem er samhljóða ákvæði til bráðabirgða í lögunum um atvinnuréttindi vélstjóra. Það ákvæði er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Þeim vélstjórnarmönnum, er starfað hafa á undanþágu í a.m.k. 24 mánuði hinn 1. jan. 1985, skal boðið upp á vélstjórnarnámskeið sem haldin verða í öllum landshlutum skólaárið 1984–85 og 1985–86 til öflunar takmarkaðra vélstjórnarréttinda. Námskeið þessi veiti réttindi til yfirvélstjórastarfa á skipum með vélarstærð allt að 750 hestöfl. Menntmrn. skal sjá um framkvæmd námskeiðanna og ákveða námsefni í samvinnu við Vélskóla Íslands.“

Ákvæði þetta segir okkur í báðum tilfellum nokkra sögu og hana dálítið alvarlega. Sagan er þessi:

Á undanförnum árum hefur ekki tekist að fá til starfa á fiskiskipaflota okkar Íslendinga menn með full vélstjóraréttindi og svo er enn. Til þess að hægt væri að lögskrá á skipin skv. samningum og lögum hefur samgrn. gefið út svokallaðar undanþágur frá námsskyldunni og réttindunum. Fleiri og fleiri vélstjórastöður hafa verið skipaðar undanþágumönnum. Ýmissa orsaka vegna hefur ungt fólk ekki lagt fyrir sig vélstjóranám á undanförnum árum með það sem markmið með náminu að starfa að námi loknu á íslenska fiskiskipaflotanum. Með ákvæðinu til bráðabirgða í lögum um atvinnuréttindi og hér í frv. er boðið upp á leið til réttindanáms fyrir þá sem fengið hafa undanþágur á liðnum árum. Um þessa leið má ýmislegt segja, en þetta er samkomulagsleið sem er hugsuð sem aðferð til að stytta leiðina að því marki að hætta með öllu undanþáguveitingum til vélstjórnar og vélgæslu.

Ég stóð að þessari samþykkt réttindalaganna 19. des. og ég mun einnig greiða því frv. sem hér er atkvæði mitt. Þetta frv. og lögin eru bæði góð og gild, en þau eru þó í eðli sínu eins og glæsileg fiskiskip án veiðarfæra gagnvart því að fá réttindafólk til starfa á fiskiskipaflotanum. Góð lög um atvinnuréttindi, sem menn fá eftir að hafa lokið ákveðnu námi og staðist tilheyrandi próf, og lög um vélstjóranám á þetta mörgu stigum gera lítið í þessu tilfelli ef ungt fólk aflar sér ekki þessara réttinda eða allir þeir sem afla sér þessara réttinda fara til allt annarra starfa en til vélstjórnar á fiskiskipaflotanum.

Það er eflaust margt sem veldur því að þessi störf eru ekki það áhugaverð að fólk leggi á sig nám til að öðlast réttindi til að sinna þeim. Þar má til nefna: Undanþágur hafa verið of auðfengnar. Launakjörin hafa verið umdeilanleg. Fjarvistir eru yfirleitt frá heimilum hjá þeim mönnum sem sinna þessum störfum. Ýmislegt fleira mætti upp telja. Þó eru þessir þættir flestir svipaðir annmarkar og tilheyra ýmsum öðrum störfum í íslenskum atvinnuvegum.

Þegar verið er að ræða um frv. til vélstjóranáms hvarflar að manni sú hugsun að verið geti að skipulag námsins eigi hér nokkra sök. Skoðum það svolítið nánar.

Stór hluti fiskiskipastólsins er gerður út frá stöðum sem eru nokkuð fjarri þeim stað þar sem aðalnám til vélstjóranáms fer fram, þ.e. Vélskóla Íslands sem er staðsettur í Reykjavík.

Það má nokkurn veginn ganga út frá því sem vísu að flestir nemendur, sem kæmu til vélstjóranáms með það markmið að fara á fiskiskipaflotann, kæmu úr fiskibyggðunum umhverfis landið. Þetta fólk þarf því að taka sig upp frá sinni heimabyggð til að stunda það nám til að njóta réttinda við þessi störf.

Með þessu frv. er boðið upp á það að aðrir framhaldsskólar en Vélskóli Íslands geti veitt nemendum réttindi í sambandi við þetta nám. Í 3. gr. frv. segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Vélskóli Íslands skal veita menntun á öllum stigum vélskólanáms, en auk þess er öðrum framhaldsskólum heimilt að annast vélstjórnarmenntun eftir því sem henta þykir og menntmrn. heimilar.“

Þ.e., sumir fjölbrautaskólar hafa heimild og hafa reyndar haft heimild til að annast þessa menntun. Fjölbrautaskólinn á Akranesi og Fjölbrautaskóli Suðurnesja hafa báðir boðið upp á þessa kennslu á undanförnum árum. Nokkur áhugi var fyrir þessu námi í upphafi, en síðustu 2–3 árin mun enginn nemandi hafa verið við þetta nám í Fjölbrautaskólanum á Akranesi. Einhverja svipaða sögu mun vera að segja frá Keflavík, en þó ekki kannske alveg eins vonda.

Eitt af frægðarverkum hæstv. ríkisstj. Steingríms Hermannssonar var að leggja niður fjölbrautadeild í Ólafsvík. Það var reyndar gert víðar en í heimabyggð hæstv. félmrh., en þessi deild hafði starfað í nokkur ár að sumu leyti með góðum árangri. Námsvalið var þó nokkuð einhæft ef litið er á umhverfið. Það sem boðið var upp á fyrir nemendur úr fiskiþorpunum okkar á Hellissandi og Ólafsvík var fyrst og fremst viðskiptafræðibraut. Það var reyndar að einhverju leyti boðið upp á tungumálakennslu, en það svið, sem fyrst og fremst var boðið upp á, var viðskiptasvið.

Það má segja það að margt framfaraspor hafi verið stigið til að auðvelta menntun. Margt er þar vitaskuld ógert og slík mál eru í stöðugri þróun. En það grundvallaratriði hefur gleymst að menntakerfið verði þess ekki valdandi að fleiri hverfi frá því að sinna undirstöðuatvinnuvegum okkar, hverfi frá fiskimennsku til þjónustustarfa og hverfi frá landsbyggð til Reykjavíkur. Ég er nokkuð hræddur um að ef ekki verða gerðir aðrir hlutir í tengslum við það frv. sem við erum að samþykkja hér hnígi að þessari óheillaþróun. Ef við byggjum ekki upp úti um landið í auknum mæli við fjölbrautaskólana deildir eins og ég nefndi áðan sem hafa starfað við skóla eins og í Ólafsvík, ef við byggjum ekki upp menntakerfi sem hnígur að því að mennta það fólk sem þar er að alast upp og hefur áhuga fyrir því starfi sem þar er verið að vinna, ef við köllum á allt þetta fólk hingað til Reykjavíkur til að sækja það nám, þá erum við að fjarlægjast það markmið að byggja upp menntun sem á að þjóna okkar atvinnuvegum.

Ég tel að að mörgu leyti hefði verið æskilegt að byggja Vélskóla Íslands þannig upp að hann væri ekki með upphafsnám í vélfræðimenntun, að fyrstu 24 annirnar ættu sér stað úti í fjölbrautaskólunum og þá í mörgum tilfellum í deildum eins og áður voru starfandi í Ólafsvík og við vonum að slík starfsemi sjái aftur dagsins Ijós og við þurfum jafnvel ekki að skipta um ríkisstj. til þess, það væri ansi leitt ef það þyrfti að vera það stórt átak til að snúa aftur á þann veg að þessar deildir fái áfram að starfa við grunnskólana vítt um landið. En ég vil undirstrika það að ég tel að með þessu frv. sé að vísu stigið framfaraspor, en það þurfi um leið að huga að því að byggja þessa menntun upp þannig að hún geti farið fram í sem ríkustum mæli úfi um landið og á,þeim stöðum sem nemendurnir fyrst og fremst koma frá, sem eru ábyggilega sjávarþorpin í landinu.