18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

226. mál, vélstjórnarnám

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki eins svartsýnn á þetta frv. eins og hv. 4. þm. Vesturl. sem var að ljúka hér máli sínu. Ég teldi að það væri mjög til bóta, en auðvitað má finna á öllu ýmsa vankanta og svo er áreiðanlega hér þó að það sé í smærri stíl. Vélskólanámið sjálft er búið að vera ansi innviklað og erfitt nám vegna þess skipulags sem þar hefur ríkt. Það var komið þannig að mjög lítil aðsókn var að skólanum þeirra manna sem ætluðu sér að stunda sjómennsku og þaðan komu eiginlega engir orðið nema þeir sem fóru þá á millilandaskipin og okkar gömlu stærri togara sem voru yfir 500 brúttótonn. Áður fyrr var þetta nám í tveim deildum hjá Fiskifélaginu, svokallað 1. stig sem gaf 500 hestöfl og 2. stigið sem gaf 1000 hestöfl. Menn sóttu Fiskifélagsnámskeiðin að langstærstum hluta, meðan þeirra naut við, til þess að fá réttindi á bátaflotanum.

Eins og flestum er kunnugt er almenn vélastærð á bátaflotanum upp að 1000 hestöflum og rúmlega það. Þess vegna var það að hið svokallaða undanþágufargan var orðið svo algert eins og þm. er kunnugt frá þeim yfirlýsingum sem hér komu í fyrra vegna fsp. og rætt hefur verið mikið um hvernig hægt væri að laga. Vélskólinn var til skamms tíma þannig að þar fengu menn ekki inngöngu nema hafa lokið vélvirkjanámi eða námi í smiðju, fjögurra ára námi. Fyrir nokkrum árum var þessu breytt þannig að nokkurn veginn samhliða fjölbrautaskólunum fengu menn að taka iðnbrautina innan skólanna og gátu farið og tekið 1. og 2. stigið í Vélskólanum án þess að taka sveinspróf í vélvirkjun.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því að léttari stigin, 1. og 2. stigið sem gefa almennt réttindi á bátaflotann og til vélavarðarvörslu á stærri vélum verði við fjölbrautaskólana.

Hérna er lagt til að höfuðskólinn sé í Reykjavík eins og verið hefur. Þessu get ég ekki mótmælt, einhvers staðar verða þessar höfuðstöðvar að vera. En aftur gerir frv. ráð fyrir því að þeir, sem ætla að fara lengra, taka 4. stigið, taka mestu réttindi eftir tilskilinn siglingartíma og reynslutíma, verði í Vélskólanum. Reynslan í dag sýnir okkur að stærri hlutinn af þeim, sem koma út úr 4. stiginu, fara í tækninám.

Þetta er undirbúningur undir það að komast í vélfræðinám og framhaldsnám í tækniskólum. Þess vegna er verið að fara út í það með þessu frv. að gera þetta léttara og auðveldara fyrir menn til þess að geta losnað við undanþágufarganið sem kallað er og komið þessu niður í það að gefa þeim mönnum, sem fengjust til að stunda sjó og vélstjórn á minni vélum, sem 2. stigið, eins og ég sagði, gefur upp í 1000 hestöfl, tækifæri til að taka þetta meira heima við. Þar sem fjölbrautaskólarnir eru hefur þetta verið reynt, a.m.k., eins og kom fram hjá hv. þm., á Akranesi og í Keflavík þar sem aðsókn hefur ekki verið nógu góð. En þar held ég að verði að leita annarra orsaka en þess að þarna sé ekki boðið upp á námsefnið eins og það getur best verið fyrir þessi stig.

Ég veit að t.d. á Akranesi er mjög vel búin deild bæði að vélum og áhöldum til að kenna slíka hluti. En það skortir á að fá áhuga ungra manna til að fara inn í þetta starf. Það er aftur annað mál að fá menn til þess. Af því að þeir hafa fengið undanþágurnar svo auðveldlega á annan hátt er ekki nema von að það taki smátíma að koma þeim til þess að fara að læra þetta. En ég held að það komi.

En ég er algerlega sammála því að það verði kannað mjög rækilega, þó að það geti auðvitað komið í reglugerð, ekki í frv. sjálfu, að hin stærri sjávarpláss — en þau eru í flestum tilvikum tengd fjölbrautaskóla á viðkomandi svæði — geti fengið að taka þennan hluta alveg eins og er með framhaldsdeildirnar við grunnskólann í bóklegu fögunum, að þau geti einnig fengið aðstöðu til að taka slík námskeið heima fyrir — t.d. í Ólafsvík, á Hellissandi og víðar og einnig hérna suður með sjó og á Norðurlandinu — þannig að þeir geti lokið prófinu við viðkomandi aðalskóla en fengið að taka námsefnið heima fyrir. Það er það, held ég, sem hv. þm. vill leggja til og ég er sammála honum í því að það verði leitast við að koma þessu fyrir í kennslu í framhaldsdeildum heima í viðkomandi byggðarlögum, en það verði samt í gegnum höfuðskólann, þ.e. viðkomandi fjölbrautaskóla, sem menn ljúka prófi.

Án þess að orðlengja meira um þetta er ég sammála þessu frv. Ég tel það mjög til bóta að vélstjóramenntuninni er hér mörkuð ákveðin staða sem var orðin full þörf á. Þetta er einn stærsti þáttur okkar í iðnfræðslunni. Vélskólastigið er þarna með alhliða málmiðnaðarbrautum sem menn eiga kost á að ljúka með 4. stigi Vélskólans og halda svo áfram í tækniskóla. En það eru lægri stigin, 1. og 2. stigið, sem geta orðið svolítið erfið í minni byggðarlögum og sjávarplássunum. Æskilegt væri að geta komið þeim þangað heim til að hægt sé að örva menn til að fara út í þessa atvinnugrein.