18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2981 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað á undan mér og fagna því að það sé verið að hreyfa þessu máli og breyta þessu í réttlætisátt. En mig langar samt að spyrja hæstv. ráðh. hvað þetta segi okkur í krónum talið.

Nú vitum við að hluti af launum í fiskvinnslunni er greiddur í bónus. Ég þekki mörg dæmi þess, þar sem tímabundið atvinnuleysi er árlegur viðburður, að þetta fólk, sem fær atvinnuleysisbætur, fær varla krónu í vasann vegna þess að það er um eftirásköttun að ræða hér á landi. Stundum eru því 500 kr. eða 1000 kr. í umslaginu sem dugar skammt í dag. Þess vegna langar mig til að vita hvað þetta segir okkur mikið í kr. Eru þetta kannske um 80 kr. á tímann sem gera þá um 12 800 kr. yfir mánuðinn?

Eins er það mjög bagalegt þegar atvinnuleysi er svona langvarandi eins og á Suðurnesjum að eftir 180 daga standi fólk uppi allslaust, sem sagt ekki með neinar bætur og enga vinnu að fá. Það er ekki hægt að hlaupa í burtu frá heimilum, alla vega ekki fyrir konur sem eru stærsti hlutinn af þessu vinnuafli, þær komast ekki langt í burtu til að afla sér atvinnu. Það kemst ekkert heimili af í dag nema hafa tvo til að vinna fyrir heimilinu, alla vega ekki meðal almennra launþega.

Mér er mjög minnisstætt að fyrir rúmu ári síðan var ég að spyrjast fyrir um það úti á landi í sjávarplássi hvernig væri með atvinnuna. Svarið var: Ja, það er nú svo sem í lagi en það eru bara 10 tímarnir núna, það er frí bæði á laugardögum og sunnudögum. Þetta er nefnilega viðhorfið víða, það þarf að vinna myrkranna milli og helst annaðhvort laugardag eða sunnudag til að hafa ofan í sig og á, vegna þess að skattarnir eru greiddir árið eftir af þeim launum sem aflað var árið á undan. Og enginn leggur fyrir, vegna þess að þeir, sem eru að reyna að koma þaki yfir höfuðið eða standa í einhverjum framkvæmdum, mega ekki sjá af neinni krónu til þess að geyma og verður þetta oft mjög bagalegt í eftirá-sköttun. Ég vil undirstrika það í þessu samhengi vegna þess að það hefur mest verið rætt um það á þeim tímum þar sem atvinnuleysi hefur verið hvað fáar krónur hafa fengist útborgaðar.