18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir með þeim sem hér hafa talað og lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að í þessu frv. felist þó nokkur réttarbót fyrir þá sem atvinnuleysi þurfa að þola. Eins og menn hafa minnst á eru konur fjölmennar í þeim hópi og vísast er fjárhagsstaða þeirra einna bágbornust allra, einkum þeirra sem einar þurfa að sjá fyrir heimili.

Úf af áskorun hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar hér áðan varðandi það frv., sem nú er til meðferðar í Nd. Alþingis og miðar að því að bæta atvinnuöryggi fiskvinnslufólks, vil ég lýsa því yfir að því frv. mun ég veita stuðning minn þegar og ef það kemur hingað til þessarar deildar.

Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur að það væri gaman að fá að vita hvað þetta þýðir í krónum, en fagna því ella að þetta frv., sem við erum hér nú að ræða, er fram komið.