18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2991 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

314. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég, eins og aðrir hv. þm. sem hér hafa talað, fagna því að frv. þetta til umferðarlaga hefur nú loksins séð dagsins ljós. Það er auðvitað mikið verk að endurskoða umferðarlög, en því er ekki að neita að mönnum hefur þótt það taka nokkuð langan tíma eða á fimmta ár. Þetta frv. er stór lagabálkur, 122 greinar, og því er fyrir séð, eins og hér kom fram í máli hv. 5. landsk. þm., að það muni taka nokkurn tíma fyrir hv. allshn. að fara yfir það. En ég tel nauðsynlegt að jafnframt því að ítarlega verði unnið í þessu máli verði lögð áhersla á að sú vinna gangi eins greiðlega og unnt er.

Ég á sæti í allshn. sem fær frv. til umfjöllunar og því ætla ég ekki að eyða löngum tíma hér við 1. umr. Ég vil þó nefna örfá atriði. Ég fagna því t.d. að í frv. er gert ráð fyrir breytingu á ljósatíma bifreiða, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., þ.e. ljósatími verði frá 1. október til 1. apríl, sbr. 2. gr. frv. Það er vissulega í átt við frv. okkar þm. sem við höfum nú endurflutt frá fyrra ári og ég mælti hér fyrir s.l. miðvikudag. Í þessu frv. er þó gengið nokkru skemur en í hinu, þ.e. að í stað þess að ljósatíminn skuli vera frá 1. október til 1. apríl er gert ráð fyrir í hinu frv. að hann sé frá 1. september til 1. maí.

Ég fagna því einnig að tekið er upp í þessu frv. ákvæðið, sem er í okkar frv., um skyldu ökumanna gagnvart skólabifreiðum. Bæði þessi atriði ræddum við nokkuð ítarlega hér á fundi s.l. miðvikudag svo að ég ætla ekki að eyða tíma í að fara út í það hér á ný.

Ég fagna því vissulega að lögð er sérstök áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir svo sem varðandi vernd barna og fatlaðra í umferðinni, sérstaklega varðandi skólabörn eða umferð í kringum skóla. Ég get þó ekki séð að gert sé ráð fyrir lögbindingu hvíta stafsins, en blindir hafa lagt mikla áherslu á að fá hann lögbundinn, en það er nú þegar til reglugerðarákvæði um notkun hans. Ég má segja að sú reglugerð sé svo gömul að hún hafi verið sett af þáv. dómsmrh., Auði Auðuns, það sé það langt síðan.

Ég sakna þess einnig að ekki er gert ráð fyrir slysarannsóknanefnd sem kanni orsakir slysanna á svipuðum grundvelli og rannsóknarnefndir flug- og sjóslysa.

Ég sé að nokkrar breytingar eru gerðar á skipan í Umferðarráð sem ég held að séu til bóta. Það eru þrír nýir aðilar settir þar inn frá Bílgreinasambandinu, heilbr.- og trmrn. og Öryrkjabandalaginu. Einnig sýnist mér vera nokkurs konar leiðrétting að í staðinn fyrir ríkislögreglu er settur lögreglustjórinn í Reykjavík. Ég kann nú ekki skýringu á því. Við fáum hana væntanlega. Þá er ákvæði um að í stað fræðslumálastjórnar komi menntmrn. sem hlýtur að vera eðlileg breyting. Ég tel ákvæðið um þessa nýju aðila, sem þarna eiga að koma inn í Umferðarráð, vera til bóta. En mér þykir þó vanta þarna fulltrúa frá Umferðarlæknisfræðifélaginu, því að ég tel að það séu samtök sem þekkja best og láta sig umferðarslysin mjög miklu varða. Ég hefði talið mjög gagnlegt að hafa fulltrúa frá þeim í Umferðarráði.

Ég endurtek að ég fagna því að þetta frv. hefur séð dagsins ljós og ég tek undir þýðingu þess að það nái fram að ganga á þessu þingi þó að við verðum að sjálfsögðu að gefa okkur góðan tíma til að fara yfir það. Ég vil einnig taka undir orð hv. 2. þm. Austurl. um að gagnkvæm tillitsemi er það sem skiptir sköpum í umferðinni. Margt í þessu frv., eins og því sem áður er komið fram og mælt hefur verið fyrir, byggir einmitt á því að sýna tillitssemi í umferðinni.