18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2992 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

314. mál, umferðarlög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Gerð þessa frv. hefur tekið alllangan tíma. Það kemur fram hér að nefndin, sem átti að semja þetta frv., hefur verið skipuð 1980 svo að það eru tæp fimm ár sem nefndin hefur haft til að semja þetta frv.

Síðan er þessu frv. dreift á borðin hér og mönnum gefinn afskaplega lítill kostur á að kynna sér það þegar farið er að mæla fyrir því. Hins vegar segir að lögin eigi ekki að taka gildi, ef þetta frv. verður samþykkt, fyrr en 1. júní 1986. Það verða þá um sex ár sem þetta hefur tekið.

Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það frá dómsmrh. hvenær þessi nefnd hóf í raun störf. Það er ýmislegt í frv. sem vekur undrun. Ég fletti t.d. upp á bls. 11 og þar segir varðandi ljósanotkun: „Ljós má eigi nota þannig að valdið geti öðrum vegfarendum glýju.“ Ég þarf skýringu á þessu. Sjálfsagt gerist það á seinni stigum málsins, en margt er undarlegt í þessu frv.

Ég fagna því samt að það er komið fram og vonum seinna og tel að það mætti gjarnan stefna að því að það taki gildi fyrr en frv. gerir ráð fyrir, því vá umferðarslysa er svo mikil að ekki má bíða með að bæta úr þar sem úrbóta er þörf. Dauðaslysin, sem við fáum fréttir af í hverri viku, og limlestingar á fólki krefjast þess að gert verði allt það sem hugsast getur til þess að bæta úr.

Hv. 2. þm. Austurl. ræddi einmitt um nauðsyn þess að sýna varkárni og að hafður væri uppi harður áróður fyrir bættri umferðarmenningu. En hann minntist líka á svokallaðar ölkrár sem nú eru á hverju götuhorni hér. Heyrt hef ég að brotum vegna ölvunaraksturs hafi fjölgað mjög með tilkomu þeirra. Ég spyr dómsmrh. hvort til eru tiltækar tölur um það hvort samhengi er á milli þess eða ekki, hvort það hafi verið athugað. Væri fróðlegt að fá þær upplýsingar ef þær liggja fyrir. En ég hef það einmitt eftir lögreglumönnum að þeir telji að svo sé.