18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2993 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

314. mál, umferðarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim sem tekið hafa undir frv. þetta þó að eðlilegt sé að menn komi með ýmsar athugasemdir þar sem um svo viðamikið mál er að ræða. Margt er matsatriði í þessu sambandi og því hljóta að vera uppi skiptar skoðanir um þetta mál. En ég valdi þann kost, eins og ég skýrði frá, að leggja þetta frv. sem fyrst fram, þegar það kom í mínar hendur, án þess að fara að leggja neina vinnu í að endurskoða það, hvorki að efni til eða orðfæri. En vafalaust mun hv. allshn. taka slíkt til athugunar.

En vegna spurningar, sem hv. 6. landsk. þm. bar hér fram um hvort ég hefði á reiðum höndum skýrslu um breytingu nú á síðasta ári við tilkomu svonefndra ölkráa á brotum vegna áfengisaksturs, þá er ég ekki með hana í höndunum. Hins vegar hafa til mín komið einstaklingar sem sagst hafa drukkið eina eða tvær ölkrúsir og alveg í öngum sínum yfir því hvernig fyrir þeim hefur farið vegna þess að það hefur valdið ökuleyfismissi. Þarna var um að ræða einstæðar mæður og aðra. Það er því tvímælalaust óhætt að fullyrða að þar er um bölvald mikinn að ræða sem vissulega væri ástæða til að vekja meiri skilning á. Einnig mun það hafa gerst að skólaunglingar hafi farið inn á þessar krár og af þeim sökum misst sitt ökuleyfi.

Það styður það sem ég var að leggjá áherslu á áðan í máli mínu, að áfengisneysla er og verður sífellt ósamrýmanlegri okkar nútímaþjóðfélagi vegna allrar þeirrar tækni og þess hraða sem hér er. Það veitir ekki af að menn haldi alltaf fullu ráði og rænu við þær aðstæður.

(KSG: Hvenær hóf nefndin störf?) Mér er ekki kunnugt um það hvenær hún hóf störf, en undir eins og ég kom í dómsmrn. fyrir rúmu 11/2 ári síðan fór ég að spyrjast fyrir um það hvernig starfinu liði og þá var það því miður miklu skemmra á veg komið,en ég hafði þá vonast eftir og því miður mikill hluti af verkinu þá óunninn.