18.02.1985
Neðri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2994 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í samráði við forseta og hæstv. félmrh. hef ég sérstaklega óskað eftir því að mega hreyfa hér máli utan dagskrár og þó einkum til þess að beina ákveðnu erindi til hæstv. félmrh.

Forsaga þessa máls er að s.l. föstudag boðaði framkvæmdastjóri Byggingarsamvinnufélagsins Byggung, Þorvaldur Mawby, fulltrúa þingflokka til viðræðu í vinnuskúr á vinnustað um neyðarástand sem við blasir vegna vanhæfni Húsnæðisstofnunar ríkisins til að standa við fjárhagslegar skyldur og loforð ríkisstj. um lánamál að lögum og með vísan til samþykktar ríkisstj. Tilgangur framkvæmdastjóra Byggung var að koma á framfæri neyðarkalli til Alþingis með beiðni um íhlutan þess til þess að greiða úr því öngþveiti sem núv. ríkisstj. hefur komið húsbyggjendum í.

Það er ekkert launungarmál að þessi félagsskapur, Byggung, hefur á undanförnum árum talið sig vera að gera sérstakt átak í byggingu íbúða af hóflegri stærð, einkum og sér í lagi fyrir ungt fólk sem er að byggja í fyrsta sinn. Framkvæmdastjóri Byggung, Þorvaldur Mawby, hefur gefið ákveðnar upplýsingar í því efni á undanförnum árum. Það er þó ekki kjarni þessa máls. Það er einnig ekkert launungarmál að framkvæmdastjórinn er mjög virkur og aðsópsmikill stuðningsmaður annars stjórnarflokkanna. Framkvæmdastjórinn afhenti ljósrit af bréfi frá Byggung til ríkisstjórnar Íslands, dags. 14. febr. 1985, en í því segir m.a.:

„Með bréfi þessu og hjálagðri greinargerð viljum við vekja athygli ríkisstj. á stórkostlegum vandræðum sem eru í þann veginn að hljótast af vanefndum á samþykkt ríkisstj. um húsnæðismál. Samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 21. maí 1984 og samþykkt ríkisstj. um húsnæðismál frá 22. sept. 1983 ættu 44 millj. kr. að hafa komið til útborgunar til félagsins umfram þá upphæð sem borist hefur.“

Um þá samþykkt ríkisstj. frá 22. sept. 1983, sem hér er vitnað í, sagði hv. þm. Halldór Blöndal, er hann mælti fyrir áliti meiri hluta um frv. að lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, skv. þingtíðindum 2. maí 1984 orðrétt, með leyfi forseta:

„Það sem hér var gefið fyrirheit um hefur ræst í þeirri útlánaáætlun sem húsnæðismálastjórn hefur gert fyrir þetta ár. Er gert ráð fyrir að það standi að þeir sem eru að kaupa eða byggja íbúðir í fyrsta sinn fái sinn hluta greiddan eins og hér segir: Á fyrsta mánuði eftir fokheldisstig helming lánsfjárins og hinn helminginn sex mánuðum síðar.“

Einnig sagði hv. þm. í sömu ræðu orðrétt, með leyfi forseta:

„Ef við miðum við verðgildi lánsfjárins er vafalaust að þeir sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti fá nú fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins sem er meira en 100% betri en gerðist fram að myndun þessarar ríkisstj. Ég held að það sé alveg vafalaust,“ sagði hv. þm. orðrétt.

Það er rétt að geta þess hér að miðað við tölur frá því fyrir áramót er hér um að ræða lán sem ætti að vera miðað við 2–4 manna fjölskyldu 685 þús. kr. og skiptist greiðslan í tvennt, mánuði eftir fokheldisstig og svo sex mánuðum síðar. Til einstaklinga verður upphæðin 40 þús. en vegna 5–6 manna fjölskyldu 802 þús. kr. Það ákvæði sem hv. þm. Halldór Blöndal vitnaði hér í, að heimilt sé að greiða síðari hluta nýbyggingarlána 6 mánuðum eftir fokheldisstig, er bundið í 29. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 21. maí 1984. Hv. þm. vitnaði hér í fyrirheit um 100% betri fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði en áður hafði þekkst. Hér gumaði hv. þm. af því að núverandi ríkisstj. mundi setja met í samskiptum við húsbyggjendur. Og vissulega eygðu þeir, eins og hann, vinningsmöguleika í þeirri stöðu. En því miður virðist klukkan nú fallin í þeirri skák og að sett hafi verið Íslandsmet í vanefndum sem vonandi verður aldrei slegið. Fyrirheitin fögru hafa nú breyst í neyðarkall 500 fjölskyldna undir taktsprota hv. framkvæmdastjóra, Þorvaldar Mawby. Undir þennan harmasöng tekur svo allur sá fjöldi einstaklinga sem yfirgefnir og einir síga neðar og neðar í kviksyndi skuldanna og eygja ekkert hálmstrá að grípa í.

Varðandi fjármögnun þessara fyrirheita ríkisstj. sagði hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson skv. Alþingistíðindum þann 16. maí 1984 orðrétt, með leyfi forseta:

„Húsnæðisstjórn er heimilað að veita lán til kaupenda íbúða innan tiltekins tíma frá því að húsin eru fokheld. Þetta kemur fram í 29. gr. Ég vil geta þess í þessu sambandi að í gangi eru núna viðræður við Seðlabanka og viðskiptabanka og sparisjóði um að reyna að fullnægja þessu ákvæði sem er gert ráð fyrir að sé af stærðargráðunni á þessu ári um 120 millj. kr.“

Á áðurnefndum fundi með fulltrúum þingflokkanna sagði framkvæmdastjóri Byggung í Reykjavík að ekkert, nákvæmlega ekkert hefði komið út úr þessum viðræðum við bankakerfið. Hæstv. félmrh. verður þó ekki með réttu sakaður um aðgerðarleysi í málinu því kunnugt er að hann hefur fengið áheyrn hjá bankastjóra Seðlabankans, án árangurs að vísu en viðleitnina ber að virða. Sem ósjálfráð taugaviðbrögð af hálfu Seðlabankans kann afstaðan að vera skýranleg, en Seðlabankinn er sem kunnugt er að byggja og skynjar því betur eigið skinn en annarra, en sé sú skýring rétt verður hér á hinu háa Alþingi að krefjast þess að hæstv. ríkisstj. taki ákvarðanir í þessu máli við eigið borð því að aðdróttanir um að þær ráðist af viðbrögðum manna, sem með þessi mál eiga ekki að fara, hvort heldur er í stjórn Seðlabanka eða annars staðar, er ekki hægt að líða.

Í bréfi því til ríkisstj. frá Byggung, sem hér hefur verið vitnað til, segir enn fremur, með leyfi forseta: „Laun hafa ekki verið greidd í þessum mánuði hjá fyrirtækinu og vanskilaskuldir upp á tugi milljóna myndast við viðskiptaaðila og banka. Ekki er með nokkru móti unnt að halda starfsemi félagsins gangandi lengur við þessar aðstæður, en sú upphæð, sem hér um ræðir, nemur nálægt þriðjungi af veltu félagsins á síðasta ári, þessar 44 milljónir. Stundarhlé á starfsemi af þessu tagi er mun alvarlegra en sýnast kann í fyrstu. Hér er ekki einungis um að ræða tímabundið atvinnuleysi 150 starfsmanna félagsins og undirverktaka, heldur mun stöðvun valda umfangsmikilli og margvíslegri röskun á öllum framkvæmdum og fjárreiðum félagsins og þeirra nær 500 fjölskyldna sem eiga í mörgum tilvikum aleigu sína hjá félaginu.“

Skv. upplýsingum frá framkvæmdastjóra Byggung hafa vanefndir stjórnarinnar tafið afhendingu 103 íbúða á Grandasvæði í sex mánuði og 43 íbúða á Seltjarnarnesi í þrjá mánuði. Samtals eru þetta 747 leigumánuðir. Þótt fjármagn fengist strax er samt eftir að framkvæma fyrir það í þessum íbúðum. Það mun því vart ofætlað að tala um 1000 leigumánaða töf nú þegar. Sé reiknað með 10 þús. kr. húsaleigu á mánuði verða þessar 146 fjölskyldur að greiða 10 millj. í leigugjöld sem bætast ofan á greiðslur af íbúðarkaupum. Í mörgum tilfellum er þetta fé fengið að láni og þegar haft er í huga hvernig ranglát lánskjaravísitala, sem m.a. hækkar við hækkun áfengis og kaffibauna, hefur ætt upp síðustu mánuði er víst að fjárhagslegu hruni fjölda heimila verður ekki forðað þrátt fyrir nýboðaðar neyðarráðstafanir. Það er aðkallandi og nauðsynlegt að hv. alþm. skilji þá ógn sem að þessum fjölskyldum steðjar sem verður verri með hverjum degi sem við ræðum frekar um vanda þeirra án þess að aðhafast nokkuð.

Herra forseti. Hvað er það svo sem Byggung fer fram á í bréfi sínu til ríkisstj. til þess að leysa þessa nauð? Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Félagið hefur ekki í hyggju að óska eftir neinni nýrri ,eða sérstakri fyrirgreiðslu stjórnvalda. Það er einvörðungu farið fram á að til þess verði séð að gildandi lög og samþykktir ríkisstj. komi til framkvæmda hvað félagið varðar.“

Hér er eingöngu farið fram á að ríkisstj. sýni þann manndóm að standa við lög og eigin samþykktir.

Á þessum fundi með fulltrúum þingflokkanna afhenti framkvæmdastjóri Byggung einnig ljósrit af bréfi til hæstv. félmrh. dags. 21. jan. 1985. Í því bréfi segir:

„Félagið hefur nú undanfarna daga haft samband við Húsnæðisstofnun ríkisins og fengið þau svör að ekkert sé vitað hvernig greiðslum verði háttað frá stofnuninni næstu mánuði.“ Ég endurtek: „Ekkert vitað hvernig greiðslum verði háttað næstu mánuði.“

Framkvæmdastjóri upplýsti að enn væri svarið það sama, að ekkert væri vitað um greiðslur næstu mánuði. Í þessu sama bréfi óskaði Byggung eftir viðræðum við hæstv. félmrh og fjmrh. sem allra fyrst um þessi mál. Hvorugur hæstv. ráðh. hefur enn virt félagið svars.

Nú er spurningin, herra forseti, sem ég vil beina til hæstv. félmrh.: Ætlar hæstv. ráðh. að standa við ákvæði 29. gr. laga og samþykkt ríkisstj. frá 22. sept. s.l. sem og yfirlýsingu sína á Alþingi frá 16. maí s.l.? Um það snýst málið. Það eru um tvö þúsund manns sem eiga aleigu sína undir svari hæstv. ráðh. og það svar búumst við við að mega heyra hér.

Hér er bara spurt fyrir hönd Byggung, 150 fjölskyldna eða svo, en ég spyr í öðru lagi: Hversu margir aðrir bíða úrlausnar með nákvæmlega sama hætti?

Í þriðja lagi: Hvað er hér um að ræða mikla fjárþörf til þess að fullnægja ákvæðum laga, þ.e. 29. gr., og samþykkt ríkisstj.?

Og í fjórða lagi: Getur hæstv. ráðh. upplýst Alþingi um hvert hann hyggst sækja þetta fé?