18.02.1985
Neðri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. kaus að setja hér á almennar umr. um húsnæðismál og það sama var að segja um sérstakan talsmann ríkisstj. og Sjálfstfl. í húsnæðismálum, hv. þm. Halldór Blöndal. Þess vegna er óhjákvæmilegt að þessi umr. berist nokkuð víðar en nákvæmlega að þeirri fsp. sem hv. 5. þm. Reykv. bar fram og fékk ekkert svar við.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson bar fram fsp. út af tilteknu byggingarsamvinnufélagi. Hæstv. ráðh. svaraði þeirri spurningu að engu leyti en reyndi að skýla sér á bak við það að Byggingarsamvinnufélagið Byggung hefði ekki sótt um framkvæmdalán. Af hverju sótti Byggingarsamvinnufélagið Byggung ekki um framkvæmdalán? Það var vegna þess að forráðamenn þess, sem margir eru með vissum hætti, að ekki sé meira sagt, tengdir ríkisstj., treystu loforðum ríkisstj. Þeir treystu loforðum ríkisstj. í sambandi við húsnæðismál, þ.e. því loforði að þeir sem eru að byggja í fyrsta sinn fái tvískipt lán í mesta lagi með sex mánaða millibili. Þessu loforði treystu forustumenn Byggung og þeim er nú að verða hált á því. Það er þess vegna sem framkvæmdir þeirra eru að stöðvast.

En til að víkja að þessum málum nánar vil ég leyfa mér að vitna til eins þm. Sjálfstfl. í Reykjavík sem sagði, skv. fréttum í málgagni hans, Morgunblaðinu, að það væri brýnasta verkefnið í húsnæðismálum um þessar mundir að stöðva ruglið í hæstv. félmrh. Ég tek það fram að þetta eru ekki mín orð, heldur mælir einn af stuðningsmönnum hans þessi orð skv. blaðafréttum í Morgunblaðinu. Hv. 6. þm. Reykv. hefur líka haft sömu orð um þessi mál og ég ætla að lesa þau hér, með leyfi hæstv. forseta, og ég vil hvetja hv. þm. Halldór Blöndal til að lesa líka það sem fram kemur í þingtíðindum, síðasta hefti, dálki 2700, þar sem hv. þm. Sjálfstfl. Ellert Schram segir svo, með leyfi forseta:

„Það er ekkert nýtt af nálinni að húsnæðismál séu aðkallandi og brýn. Ég minnist þess úr síðustu kosningabaráttu. sem ég tók þátt í, að þá var þetta mál jafnvel efst á baugi að undanskilinni verðbólgunni sjálfri, og þá höfðu menn orð á því að það þyrfti að ná þegar á þessu kjörtímabili 80% í lánum af byggingarkostnaði staðalíbúðar. Ég hef tekið eftir því að á þinginu 1982 fluttu þm. Sjálfstfl., það var að vísu fyrir kosningarnar, en þá fluttu fjölmargir þm. Sjálfstfl. í þessari deild ágæta þáltill. sem gekk í þessa átt, sem gerði ráð fyrir því að samanlögð lán húsnæðisstjórnar og lífeyrissjóða næðu 80% af byggingarkostnaði, og það átti að ná fram á kjörtímabilinu og lánin áttu að hækka mjög verulega strax á árinu 1983. Nú er komið árið 1985 og ég hef ekki orðið var við“, segir hv. þm. Ellert Schram, „neina stefnumótun í þessum efnum. Hún er öll á reiki, hún er þá öll í huganum á hæstv. félmrh. sem talar út og suður, því miður, í þessu máli svo að ekkert mark er á takandi og enginn skilur upp né niður í.“

Síðan sagði hv. þm. Ellert B. Schram að núv. ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. væri að gera alla að leiguliðum. Gagnstætt þeirri stefnu, sem Sjálfstfl. vildi í orði kveðnu fylgja, að menn eignuðust sínar eigin íbúðir, þá væri ríkisstj. að gera alla að leiguliðum. Það er sjálfsagt þetta sem hv. þm. Halldór Blöndal á við þegar hann segir hér í ræðustól áðan: Ríkisstj. hefur staðið sig þannig í húsnæðismálum að undrun sætir. Það má auðvitað taka þannig til orða þegar þess er gætt hvaða loforð stjórnarflokkarnir gáfu fyrir kosningarnar.

Í sjálfu sér skiptir mestu máli í þessu efni að núverandi stjórnarflokkar gáfu fyrirheit um að laga húsnæðislánakerfið stórkostlega. Framsfl. hafði tregðast við að afla tekna í húsnæðislánakerfið á síðasta kjörtímabili. Sjálfstfl. hafði stöðvað allar tilraunir í þá átt. Í kosningabaráttunni gáfu þessir flokkar engu að síður yfirlýsingu um að þeir ætluðu að laga stórkostlega húsnæðislánakerfið. Það sem liggur fyrir í þeim efnum er það, að í fyrsta lagi hafa þeir skorið svo niður kaup fólksins í landinu, sem skiptir auðvitað mestu í þessu, að fólk getur ekki byggt, getur ekki staðið í skilum, og þau fyrirheit, sem gefin hafa verið, hafa verið svikin eitt af öðru. Hafi ríkisstj. náð því að setja met í húsnæðismálum að einhverju leyti er það í sviknum kosningaloforðum. Það er alveg sama hvernig þau mál eru skoðuð. Svo er auðvitað sú nýlunda hæstv. ríkisstj. að taka erlend lán til að reka Byggingarsjóð ríkisins. Það er brautryðjendastarf, það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, og sætir undrun út af fyrir sig.

Síðan kemur hæstv. ríkisstj. núna og stofnar til ráðgjafarþjónustu fyrir húsbyggjendur. Það er gott að stofnað skuli til ráðgjafarþjónustu fyrir húsbyggjendur. En staðan þar er þannig að náðarsamlegast fá menn að hringja í Húsnæðisstofnunina í tvo tíma á hverjum morgni til að fá um það upplýsingar hvenær þeir eiga að koma í viðtöl. Þetta er sérstaklega þægilegt fyrir þá sem eru í Ólafsvík, Ísafirði og Vopnafirði, að fá um það upplýsingar hvenær þeir mega koma í viðtöl í Húsnæðisstofnuninni því að þetta verður ekki afgreitt annars staðar en í stofnuninni. Setjum svo að viðkomandi sé með vanskil upp á 70–80 þús. kr. Það er ekki nóg. „Skortur á vanskilum“ getur orðið til þess að menn fái ekki húsnæðislán eins og kerfið er hjá hæstv. félmrh. Það er brýn nauðsyn að menn skuldi minnst 150 þús. og séu með það í vanskilum. Sá maður sem hefur lagt það á sig að standa í skilum, er ekki með vanskil upp á 150 þús., fær ekki neitt. „Skortur á vanskilum“ mun líklega valda því að fjöldi fólks fær ekki þá þjónustu sem hæstv. ríkisstj. er hér að bjóða upp á. Svona er að málum staðið þar.

Hvernig á svo að fjármagna þessa vanskilaþjónustu? Talaði hæstv. félmrh. um það hér áðan? Hvernig á að fjármagna hana? Það á að fjármagna hana með því að skera niður nýbyggingarlán um 150–200 millj. kr. Það sætir undrun, svo að ég vitni aftur í hv. þm. Halldór Blöndal, að lögð skuli vera fram lánsfjáráætlun í Ed. þessa daga um 708 millj. kr. til nýbygginga í húsnæðismálum, en sömu dagana lýsir ríkisstj. því yfir að þessa tölu eigi að lækka niður í 500–550 millj. Þetta er yfirgengilegt. Hæstv. forsrh., formaður Framsfl., hefur lýst þessu sama yfir aftur og aftur, m.a. í fjölmiðlum. Hann hefur að vísu bætt við því hollræði og heilræði til húsbyggjenda að þeir sem ekki ráði við þetta og þeir sem ekki nái vanskilaþjónustunni hjá Alexander eigi bara að selja, þeir hafi reist sér hurðarás um öxl. Það er afskaplega gott að segja þetta við húsbyggjendur á Ísafirði eða í Hnífsdal eða Bolungarvík eða Súðavík, þessum stöðum þar sem íbúðarhúsnæði er gersamlega óseljanlegt um þessar mundir og dæmi eru þess að ágætar íbúðir hafi staðið á annað ár vegna þess að það getur enginn keypt þær eins og búið er að búa að landsbyggðinni í tíð núv. ríkisstj.

Ég vil minna á það, herra forseti, að þessi svik í húsnæðismálum hafa skapað mjög alvarlegan vanda hjá þúsundum einstaklinga um allt land. Þetta er fólk sem treysti því að ríkisstj. mundi standa við orð sín, fólk sem treysti því að lán yrðu greidd út eins og verið hafði í versta falli, en væntanlega aðeins fyrr en áður hafði verið. Ég frétti af manni á Akureyri núna á dögunum, sem sótti um G-lán hjá húsnæðismálastjórn í ágúst 1984. Mér var sagt í Húsnæðisstofnuninni að þessi aðili gæti verið nokkuð öruggur með að fá þetta lán í ágúst 1985. Síðan koma í þessum ræðustól upplýsingar frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að þeir sem gerðu fokhelt í október-desember 1983 bíða enn eftir niðurstöðu. Hversu langt ætlar ríkisstj. sér í rauninni að ganga með þennan svikaslóða á eftir sér? Er ekki rétt fyrir hæstv. félmrh. að fara að segja eins og er í þessum efnum, þ.e. að ríkisstj. ræður ekki við að standa við þau loforð sem ráðh. hefur gefið? Hæstv. félmrh. er afskaplega ötull í þeim efnum að tryggja útgjöldin. Það er hans sterka hlið. Hann hefur afskaplega mikið lag á því sem ráðh. með yfirlýsingum sínum að tryggja útgjöldin. En ráðherrar verða að tryggja tekjurnar líka. Til þess eru þeir. Og þeir eiga ekki að gefa stærri loforð í húsnæðismálum eða öðrum málum en þeir geta staðið við tekna megin.

Í þskj. sem hér liggur fyrir til umr. síðar á þessum fundi kemur það m.a. fram hvernig hæstv. ráðh. hefur orðið að fara í ríkisábyrgðasjóð aftur og aftur. Því var lofað af þessum mönnum fyrir kosningar og eftir kosningar, bæði íhaldinu og framsókn, að þessi mál yrðu öll leyst. Staðan er þannig að 15. des. 1983 tóku þeir, þrátt fyrir þessi loforð, lán hjá ríkisábyrgðasjóði, verðtryggt lán, upp á 30 millj. kr., það var fyrsta skrefið í þessum efnum, með 4.25% vöxtum ofan á verðtryggingu. Síðan tóku þeir lán 27. jan., aðeins rúmum mánuði seinna, hjá ríkisábyrgðasjóði Íslands upp á 13 millj. kr. með 4.25% vöxtum ofan á verðtryggingu. Þremur mánuðum seinna taka þeir enn lán hjá ríkisábyrgðasjóði Íslands, 23. mars 1984, upp á 40 millj. kr. með 5.25% vöxtum ofan á verðtryggingu. 28. júní, enn þremur mánuðum seinna, þetta er nokkurn veginn ársfjórðungslega, er enn tekið lán hjá ríkisábyrgðasjóði Íslands upp á 274 millj. kr. með 5.25% vöxtum. Og enn er farið sömu leið. 25. júlí 1984 er tekið lán í Seðlabanka Íslands upp á 195.6 millj. kr. með 8% breytilegum vöxtum ofan á verðtryggingu. Og svo bætist það við, það er síðasta afrekið á árinu 1984, að það er skrifað undir lán 21. nóv. 1984 upp á 250.6 millj. kr. Það er erlent lán í Bandaríkjadollurum með breytilegum vöxtum sem þróast eftir millibankavöxtum í London. Þessi slóði, sem hér er um að ræða, er auðvitað hrikalegur. En hann sýnir það fyrst og fremst að þau fyrirheit, sem gefin voru um lagfæringar á húsnæðislánakerfinu, höfðu ekki verið tryggð með tekjustofnum fyrir Byggingarsjóð ríkisins. Þessi slóði sýnir að ráðh. er ötull við að tryggja útgjöldin, en hann ræður ekki við að tryggja tekjurnar og þess vegna verður að slá og aftur slá og slá enn í ríkisábyrgðasjóði Íslands og Seðlabanka til að bjarga Byggingarsjóði ríkisins. Þetta sætir undrun, eins og hv. þm. Halldór Blöndal orðaði það hér áðan. Vissulega sætir þetta undrun.

Ég held að það sé alveg fráleitt og stórkostlega alvarlegt þegar hv. alþm. tala um húsnæðismálin eins og hv. þm. Halldór Blöndal gerði hér áðan. Hafa menn ekki tekið eftir því blaði sem oftast kemur út í þessu landi? Það er farið að tala um síðdegisútgáfu af Lögbirtingablaðinu til þess að birta skrárnar yfir nauðungaruppboðin sem hæstv: ríkisstj. ber ábyrgð á með stefnu sinni í kjaramálum vegna þess að fólkið getur ekki byggt eða borgað skuldir. Hafa menn ekki tekið eftir Lögbirtingablöðunum, síðu upp og síðu niður, dálkur við dálk á smáu letri, þar sem verið er að auglýsa eignir fólks á nauðungaruppboði? Og hafa menn ekki hugsað um það, fulltrúar stjórnarflokkanna hér á hv. Alþingi, hvernig ástandið er á heimilunum næstu daga áður en þessi nauðungaruppboð eru auglýst, næstu vikur og næstu mánuði, þegar fólk hefur verið að berjast við að losa sig við þessar skuldir með ýmsum ráðum hér og þar í bönkum og annars staðar þar sem menn hafa átt kost á? Og hafa menn ekki hugleitt hvaða áhrif þessi nauðungaruppboð, þessi slóði ríkisstj., hafa á líf þeirra fjölskyldna sem þúsundum saman standa núna frammi fyrir þessum alvarlega vanda? Hafa menn ekki hugsað um hvaða áhrif þetta hefur á samheldni fjölskyldnanna, hvaða áhrif þetta hefur á börnin, hvaða áhrif þetta hefur á möguleika þeirra til þess að lifa eðlilegu lífi? Þar er oft um að ræða hættur á miklu stærra tjóni en nokkur breyting á húsnæðislánum til eða frá getur haft í för með sér. Hér er það kaupránsstefnan sem fyrst og fremst bitnar á þessu fólki. Það er kauplækkunin sem veldur því að fólk getur ekki byggt og fólk getur ekki borgað skuldir sínar.

Ég vil að lokum, herra forseti, bera fram fyrir hæstv. félmrh. fsp. varðandi húsnæðislánin sérstaklega. Eftir að kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi, eftir að bannað var að greiða verðbætur á laun, er ljóst að munurinn á framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu hefur orðið allt annar en áður var. Byggingarvísitala hefur hækkað mikið meira en nemur lánskjaravísitölunni. Byggingarvísitalan hækkar þannig í raun að um verður að ræða raunávöxtun á því fjármagni sem inni er umfram það sem lánskjaravísitalan kveður á um. Það hefur verið sýnt fram á það í Þjóðviljanum að í rauninni sé hér um að ræða á mælikvarða byggingarvísitölunnar 6–7% raunávöxtun umfram það sem eðlilegt er, sem lánskjaravísitalan færir kröfuhöfum aukalega. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er hann tilbúinn að lýsa því hér yfir að lán úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna verði vegna þessa flutt yfir á byggingarvísitöluna?

Það liggur líka fyrir, eins og hér var gert að umtalsefni, m.a. af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að þegar áfengi og tóbak hækkar á s.l. ári, eins og menn hafa verið að rekja í blöðum að undanförnu, hefur það í för með sér aukahækkun á íbúð í verkamannabústöðum upp á 25–27 þús. kr., eins og fram kom í blaðinu NT sem stundum er sagt vera málgagn Framsfl. þó að blaðamenn þar vilji nú af eðlilegum ástæðum gjarnan sverja það af sér. Ljóst er að hækkanir á áfengi og tóbaki valda stórfelldri hækkun á skuldum. Þetta stafar af því að kaupgjaldsvísitalan hefur verið tekin úr sambandi. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er hann tilbúinn að lýsa því yfir hér og nú að hér verði gerðar breytingar á?

Herra forseti. Í þessari umr. leikur hæstv. félmrh. þann leik sem hann hefur aftur og aftur gert á undanförnum tæpum tveimur árum. Hann vísar vandanum á fjmrn. og fjmrh. Þess vegna held ég að óhjákvæmilegt sé, ef hæstv. fjmrh. getur ekki tekið þátt í umr. þessari, að umr. verði nú frestað fram á næsta fund Nd. þannig að unnt verði að spyrja hann að því hvernig hann ætlar að tryggja þessar 180–200 millj. sem að sögn félmrh. vantar upp á til þess að hægt sé að standa við þau loforð sem gefin hafa verið, en hafa verið svikin til þessa. Ég held að óhjákvæmilegt sé að fram komi alveg skýrt hvernig ríkisstj. í heild ætlar að leysa það. Útilokað er fyrir hv. Alþingi að láta hæstv. félmrh. aftur og aftur komast upp með að vísa vandanum á milli þingdeilda svo að segja, þegar hann kemst í kastþröng, og svara fyrir sig með því, eins og hann hefur leikið málefni húsbyggjenda í landinu.