18.02.1985
Neðri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í tíð þessarar ríkisstj. hefur ýmislegt komið fram sem sýnir ljóslega að staða húsnæðismála hefur sjaldan eða aldrei verið verri en frá því að þessi ríkisstj. tók við. Við heyrðum það í fróðlegum sjónvarpsþætti ekki alls fyrir löngu að veðdeild Landsbanka Íslands sendi frá sér á árinu 1983 20 þús. beiðnir um nauðungaruppboð. Fyrir ekki löngu síðan var boðað til fjölmenns fundar í Sigtúni þar sem mættur var fjöldi húsbyggjenda og íbúðakaupenda sem voru með íbúðir sínar undir hamrinum og sendu neyðaróp hingað til Alþingis vegna stöðu þessara mála.

Nú í dag erum við að fjalla um neyðaróp frá Byggung þar sem 500 fjölskyldur eiga allt sitt undir því komið að ríkisstj. standi við gefin loforð. Undir þeim kringumstæðum sem ég hef hér lýst er það furðulegt að hv. þm. Halldór Blöndal skuli hreykja sér svo sem hann gerði hér úr þessum ræðustól og tala svo að aldrei hafi verið tekið svo föstum tökum á húsnæðismálum eins og nú, og eins og hann orðaði það, svo undrun má sæta. Þetta er furðulegur málflutningur. Og málflutningur hans að öðru leyti var líka eftir þessu.

Ég vil mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Halldóri Blöndal þegar hann gerði því skóna að í tíð Magnúsar H. Magnússonar fyrrv. félmrh. hafi húsnæðiskerfið verið brotið niður. Þetta er ómakleg árás sem ég hlýt að mótmæla og vil ég, með leyfi forseta, fá að rökstyðja það nokkru nánar.

Í tíð Magnúsar H. Magnússonar var lagt fram hér á Alþingi ítarlegt frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins sem var mjög vandlega unnið og byggði á því að hægt væri að ná 80% lánshlutfalli á tíu árum. Í því frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Lánshlutfall verði hið sama árlega fyrir alla húsbyggjendur. Skal það ákveðið af félmrh. fyrir eitt ár í senn í tengslum við afgreiðslu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar ríkisstj. en við það miðað að árið 1980 verði hluttallið 30% af byggingarkostnaði og hækki síðan um 5% á ári uns það hefur náð 80% af byggingarkostnaði árið 1990. Mun ríkisstj. ábyrgjast þá aukningu framlaga og lána til Byggingarsjóðs ríkisins sem nauðsynleg er til þess að þessu markmiði verði náð.“

Við það var miðað í frv. Magnúsar H. Magnússonar að húsnæðissjóðirnir héldu því óafturkræfa framlagi sem þeir hafa fengið af launaskatti og það var bókað í ríkisstj. 1979 að þessi tekjustofn yrði óskertur og að auki kæmi aukið framlag á fjárlögum á þessu tíu ára tímabili þar til 80% lánahluttallinu væri náð. Við það var þá miðað að hægt væri að veita 2200 nýbyggingarlán, þar af 700 íbúðir í félagslega kerfinu. Það var miðað við það að horfið yrði frá þeim lántökum sem byggingarsjóðirnir hafa undanfarin ár þurft að byggja á.

Á árinu 1978 fékk Byggingarsjóður ríkisins 2% af launaskatti. Árið 1979 hafði Byggingarsjóður ríkisins enn þá þessi 2% af launaskatti. Við fjárlagaafgreiðslu á árinu 1979 var það að vísu þannig að lagt var til að lækkað yrði framlag til fjárfestingarsjóðanna um 10%. En í des. 1979, þegar ríkisstj. Alþfl. sat að völdum, var þessu breytt með aukafjárveitingu þannig að framlagið var aftur hækkað. 1979 var það því enn þá 2% af launaskatti. Árið 1980 fær Byggingarsjóður ríkisins einungis 65% af sínum fasta tekjustofni, árið 1981 aðeins 25.4% af sínum fasta tekjustofni, árið 1982 21.4%, árið 1983 37.1%, árið 1984 37.9% og nú á árinu 1985 er það áætlað 89.4% af þessum fasta stofni sem það hafði í upphafi. Ég hef því ljóslega sýnt hér fram á að í tíð Magnúsar H. Magnússonar sem félmrh., 1978 og 1979, voru þessi framlög óskert sem runnu í Byggingarsjóð ríkisins.

Við sýndum fram á það, þm. Alþfl., þegar húsnæðisfrv. var afgreitt á síðasta ári hvert hefði stefnt af því að svo mikið hefur verið byggt á lántökum. Í því nál. sem við skiluðum kom í ljós að 1978 voru lántökur 23.06% af ráðstöfunarfé sjóðsins. Árið 1981 eru lántökurnar orðnar 52.3% af ráðstöfunarfé sjóðsins og áætlað var í því nál. að lántökurnar yrðu á árinu 1984 54.4% af ráðstöfunarfé sjóðsins. Það er töluvert mikill munur á því að byggja upp sjóðina þannig að það séu óafturkræf framlög sem veitt eru í því skyni eða að byggja á lántöku eins og Sjálfstfl. og Framsfl. hafa gert. Ef við tökum árið 1985 sem dæmi þá er af 1790 millj. kr. ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins skv. lánsfjáráætlun um 1200 millj. sem á að veita inn í sjóðinn með lántökum og þar af að hluta til erlendum lántökum. Ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins mun því á yfirstandandi ári verða að 65–70% hluta byggt á lántökum. Síðan leyfir hv. þm. Halldór Blöndal sér að standa hér í ræðustól og hreykja sér af framlagi þessarar ríkisstj. til húsnæðismála.

Á árunum 1976, 1977 og 1978 voru raunvextir líka 5–7%, en á árinu 1979 lækkuðu þeir og voru 2%. Síðan má á það benda - og vitna ég þá aftur í frv. Magnúsar H. Magnússonar — að þar var miðað við 2200 nýbyggingarlán. En í áætlun húsnæðisstjórnar, sem er dags. 7. nóv. 1984, var miðað við að á næsta ári væri hægt að veita 1100 nýbyggingarlán, en þá var gert ráð fyrir að sjóðurinn hefði til umráða 2.2 milljarða sem hann mun ekki hafa að óbreyttu. Ef við það er miðað er ekki staðið við það lagaákvæði sem er í húsnæðislöggjöfinni um að 40% af samþykktri útlánaáætlun eigi að koma af fjárlögum.

Ég tel mig hafa sýnt fram á það, herra forseti, að hv. þm. Halldór Blöndal viðhafði hér ómerkilegan og ómaklegan málflutning. En ég vil hér í lokin — og ég skal ekki eyða lengri tíma í þetta mál að sinni — taka undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að það er nauðsynlegt að áður en þessari umr. ljúki muni hæstv. fjmrh. skýra sín sjónarmið í þessu máli. Það eru 500 fjölskyldur sem hér hefur verið upplýst að neyðarástand ríkir hjá út af þessum vanefndum við Byggung. Þess vegna er nauðsynlegt að fá inn í þessa umr. sjónarmið hæstv. ráðh. í þessu máli.

Hæstv. félmrh. kom inn á það að í umr. væri núna milli fjmrn. og félmrn. að færa til fjármagn. Hann skýrði það ekki frekar og er auðvitað nauðsynlegt að fá um það vitneskju hvort færa eigi til fjármagn innan útlánaflokkanna í húsnæðiskerfinu eða hvaðan þetta fjármagn á að koma sem talað er um að færa til.