19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3018 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það var skrýtin þula sem hv. 3. þm. Reykv. hafði yfir hér í ræðustól því að ég var á mælendaskrá hjá hæstv. forseta og ætlaði auðvitað að fjalla um þær athugasemdir sem beint hefði verið til mín. (SvG: Forseti var að slíta umr., hæstv. ráðh.) Forseti hafði bent mér að koma í ræðustól þegar hann snéri sér að hv. 3. þm. Reykv. (SvG: Forseti sagði annað.) Ég held að ekki sé ástæða til að ræða um þetta, en auðvitað svara ég ekki fsp. úr sæti mínu í salnum.

Þó að þær fsp. sem nú seinast hafa verið fram bornar hafi ekki verið fram bornar með þinglegum hætti eins og sú sem er hér á dagskrá mun ég að sjálfsögðu svara þeim. Það sem um er verið að ræða er að í menntmrn. hefur verið unnið mjög mikið starf að þessum hagsmunamálum kennara sem annars vegar er málið um löggildingu starfsheitis og hins vegar um endurmat á störfum. — Og þar sem nú er lokið aukafundum í salnum held ég áfram.

Það er náttúrlega að vonum að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson telji það kannske ekki heppilegan afgreiðslumáta að láta vinna mál í nefndum. Það er einhvern veginn eins og mig reki minni til að hér hafi verið talað um foringja 40 starfshópa á árum áður þegar hv. þm. var ráðh. og var enginn maður ötulli í að skipa fjölmenna starfshópa. Hér er um að ræða samstarfsnefndir beggja þeirra aðila sem hlut eiga að máli, annars vegar ríkisvaldsins og hins vegar kennaranna sjálfra. Og það sem verið er að gera er að það er verið að vanda verkin. Það er unnið í mjög góðu samkomulagi og á málefnalegum grundvelli að þeirri lausn þessara mála sem viðunandi er. Ég vona að það takist. Starfslok eru nú mjög skammt undan í þessu, t.d. fyrir nokkrum dögum heils dags fundur í endurmatsnefndinni og tveim, þrem dögum áður annar mjög langur fundur. Þannig er unnið mjög ötullega að þessum málum. Hygg ég þá að þeim hluta fsp. hv. þm. sé svarað.

Hv. þm. spyr með hvaða hætti ríkisstj. hyggist bæta kjör kennara. Hv. þm. veit fullvel sjálfur að það gilda tiltekin lög í landinu um það hvernig standa beri að þessum málum en hv. þm. veit það kannske ekki, sem margir vita, að það eru í gangi núna sérkjaraviðræður til að ákvarða hvar í launaröðuninni kennarar verði. Ég skal ekkert um það segja hvort kennarar álíti að það sé betra að láta hina endanlegu ákvörðun um það koma þegar þeir sjá allt munstrið, ef svo má segja, í heild. Allt launakerfið verður stokkað upp á nýtt. Það verður raðað í alla launaflokka að nýju. Ég veit ekki betur en að einmitt þetta atriði gefi þeirri stétt manna sem hér er um fjallað og raunar fleirum nýtt svigrúm til þess að fá viðunandi lausn á þeim vanda sem hér er við að etja. Það er algjörlega ljóst.

Allt það sem ég hef fylgst með af stjórnvalda hálfu hefur verið á þann veg að verið er að vinna að því að leysa þessi mál í samstarfi. Ég hvet til þess að þm. stuðli að því að unnið sé að lausn kjaradeilunnar í samstarfi og samvinnu en ekki á þann veg að menn sitji sem andstæðingar í einhverju stríði. Við erum að vinna að sameiginlegu hagsmunamáli, sem er mikilvægur þáttur í skóla- og menntakerfi landsins, og ég veit ekki betur en við séum öll sammála um að það sé þáttur sem varðar miklu fyrir framtíð okkar þjóðar, fyrir framtíð þess unga fólks sem í skólunum situr og fyrir allt líf þeirra sem í þeim stofnunum starfa. Ég vonast til þess að allir sem að þessu máli standa geri það með þeim hætti að menn hafi fullan sóma af og grípi ekki til neinna örþrifaráða sem ég hygg að ljóst sé að séu óþörf.

Það er allur vilji fyrir því að leysa þessi mál.