19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3023 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er talað um að eldar séu kyntir og æsingur sé í mönnum. Eru menn búnir að gleyma því hvers vegna þetta mál er hér á dagskrá? Fyrirspyrjandinn er hv. 2. þm. Reykn. Gunnar G. Schram. Hann er sem sagt sá sem fyrstur kveikti eldana, eftir því að dæma sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan. En ég segi: Þökk sé hv. þm. fyrir að koma með þetta mál hér inn til þess að hægt sé að ræða það og fá þau svör, ef svör skyldi kalla, sem hér hafa fengist.

Ekki var ég hissa á því þótt hv. 5. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson sæi ástæðu til að skjóta skildi fyrir hæstv. ráðh. Sjálfstfl. svo illa sem þeir voru komnir. En það liggur önnur ástæða til þess að hv. þm. skýtur skildi fyrir þá. Þannig er nefnilega að NT liggur nú undir miklu ámæli frá Sjálfstfl. og Morgunblaðinu vegna þess að einstaka menn þar eru að gera uppreisn gegn íhaldinu og frjálshyggjunni, að vísu sjálfsagt í þykjustunni. En það er vissara að rétta af „kúrsinn“ og það gerði hv. þm. rækilega hér áðan. En erfiðara er að skilja það þegar hann er að tala um fyrrv. menntmrh. í þessu efni og gleymir þeim hæstv. menntmrh. sem á undan þeim sat sem nú er í stólnum, hv. þm. Ingvari Gíslasyni sem var í tæp fjögur ár. Var þetta dulbúin árás á hann einnig?

Auðvitað veit hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson að sú launatilfærsla, sem hefur orðið í þessu þjóðfélagi á tímum þessarar ríkisstj. til ýmissa annarra aðila í þjóðfélaginu en t.d. opinberra starfsmanna, ræður mestu um þessa ólgu, þessa ókyrrð í dag. Þetta veit hann. — Ég fagna því hins vegar að einhver framsóknarmaður skuli þó hafa djörfung í sér til að koma hér upp þó að ég hefði kosið að það væri á annan veg en þann að verja ráðherra íhaldsins í lif og blóð.