19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þannig er háttað verkaskiptingu ráðh. að fjmrh. fer með samninga við ríkisstarfsmenn, þ. á m. kennara. Ég minnti á menntmrh. og fjmrh. vegna þess að mér þótti nokkuð rökrétt að gera ráð fyrir því að sá maður sem fyrst var menntmrh. og síðan fjmrh. hefði til að bera þá grunnþekkingu og hefði viljað koma því á framfæri sem máli skipti í þessu sambandi. En það var athyglisvert að hv. 2. þm. Austurl. taldi ekki rétt að veita honum neina aðstoð þrátt fyrir ádeiluna sem hann hafði fengið. (Gripið fram í.) Hann var ekki búinn að biðja um orðið áðan. Það var alveg greinilegt hver afstaða hv. 2. þm. Austurl. var. Hann taldi að ráðh. hefði brugðist.

En það sem ég vildi undirstrika áðan var að launahlutfallið, hlutfallið á milli stéttanna, hefur verið kennarastéttinni mjög óhagstætt lengi. Þessi þróun byrjaði u.þ.b. 1956. Stór hluti af þessari þróun byggist á því að aðrar stéttir hafa fengið ákvæðisvinnutaxta eða álag á sína vinnu, en kennararnir hafa setið eftir hvað þetta snertir. Meðan uppmælingin tók við hjá sumum stéttum eða bónuskerfi sátu þeir eftir með það sama launakerfi og var. Þetta er grundvöllurinn fyrir þeirri mismunun sem orðið hefur. En það liggur ljóst fyrir að þegar Alþb.-menn hafa verið í aðstöðu til að breyta þessu kennurum í hag hafa þeir ekki gert það þó þeir séu núna ákaflega háværir þegar aðrir hafa tök á því að leiðrétta þetta.