19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Þá er komið að lokum umr. sem hófst á þriðjudaginn var í tilefni af fsp. minni um kjör og starfsaðstöðu framhaldsskólakennara. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka menntmrh. fyrir svör hennar við fsp. sem lutu að þeim atriðum sem undir menntmrn. heyra. Umr. í dag hefur raunar farið nokkuð út um víðan völl og snúist meira upp í karp milli stjórnar og stjórnarandstöðu en fsp. í sjálfu sér gaf tilefni til.

En við megum ekki gleyma því hver er kjarni málsins. Hann er einfaldlega sá að kennarar hafa sagt upp störfum frá og með 1. mars og hafa margir hverjir lýst því yfir að þeir muni halda fast við þá uppsögn þó svo að menntmrh. hafi framlengt starfstíma þeirra um þrjá mánuði. Það líður sem sagt að því að vandræðaástand skapast, svo að vægilega sé tekið til orða, í þessum efnum.

Frá því að umr. fór fram í Sþ. s.l. þriðjudag hafa þau tíðindi gerst að Kjaradómur hefur á laugardag kveðið upp úrskurð sinn í máli BHM gegn fjmrh. Viðhorfin eru þess vegna að mörgu leyti breytt. Um er að ræða algerlega nýtt launakerfi, nýja launat6flu. Er þá einfaldlega eftir að raða hinum ýmsu flokkum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna inn í þá töflu. Það er ekki langur tími til þess nú að vinna að sérkjarasamningum að því er framhaldsskólakennara varðar og raunar aðra hópa háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Það þarf að gerast fyrir 1. mars. Ég vil lýsa þeirri von minni að það verk takist að vinna fyrir þann dag, a.m.k. að því er tekur til framhaldsskólakennara þannig að þeim verði þá skipað í launaflokka sem samræmist ábyrgð þeirri og menntun sem þeir hafa aflað sér.

Sérkjarasamningur er gerður milli fjmrn. og hinna einstöku félaga innan BHM. Mér er ljóst að tíminn er ekki langur, en þegar hafa verið boðaðir samningafundir. Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á fjmrh., sem fer með samningsumboðið fyrir hönd ríkissjóðs. og einnig á menntmrh., sem þetta mál heyrir að mjög miklu leyti undir, að beita sem slíkir áhrifum sínum í þeim samningaviðræðum um sérkjarasamninga. sem nú eru að hefjast, til þess að samkomulag megi nást fyrir 1. mars eða þá mjög skömmu eftir þá dagsetningu þannig að frá verði bægt þeim vanda sem hefur skapast í þjóðfélaginu við uppsögn 440 framhaldsskólakennara sem eru 70% allra kennara í þeim skólum landsins. Hér er miklu alvarlegra mál á ferðinni en við gætum hafa haldið eftir að hafa hlýtt hér á umr. Þess vegna endurtek ég og ítreka þau tilmæli. þá von og ósk til þessara tveggja ráðh. sem að verulegu leyti hafa málið í hendi sér.