19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3026 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

225. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Það er ekki ýkjalangur vegur frá því máli sem hér var rætt síðast til þess máls sem ég nú flyt.

Á síðasta þingi var flutt till. til þál. um staðfestingu Flórens-sáttmála. Hún var flutt af Gunnari G. Schram. Birni Dagbjartssyni, Guðrúnu Agnarsdóttur. Guðmundi Bjarnasyni, Hjörleifi Guttormssyni. Jóni Baldvini Hannibalssyni, Pálma Jónssyni og Valdimar Indriðasyni. En þessir þm. eiga allir sæti í Rannsóknaráði ríkisins. Þessi till. var endurflutningur á samhljóða till. sem flutt var á næsta þingi þar áður en hlaut ekki afgreiðslu. Þáltill. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að staðfesta aðild Íslands að alþjóðasáttmála um niðurfellingu aðflutningsgjalda af varningi til mennta-. vísinda- og menningarmála. svonefndum Flórens-sáttmála UNESCO, en án viðaukabókunar sáttmálans. Jafnframt þessu verði gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum um tollskrá.“

Eins og fram kemur í till. var enn fremur flutt á síðasta þingi frv. til l. um breytingu á lögum nr. 120 frá 1976, um tollskrá o.fl., þar sem gert er ráð fyrir að tollskrárákvæðum verði breytt til samræmis við efnisatriði Flórens-sáttmálans.

Á aðalfundi UNESCO, sem haldinn var í Flórens á Ítalíu árið 1950, var samþykktur sáttmáli um niðurfellingu gjalda af efni til mennta-. vísinda- og menningarmála og ákveðið að leggja samninginn fyrir aðildarríkin til staðfestingar. Þessi samningur miðar að því að efla mennta-, vísinda- og menningarmálastarfsemi aðildarlandanna og greiða fyrir streymi hvers kyns efnis. tækjabúnaðar og tækja á milli aðildarríkjanna í þeim tilgangi og að stuðla að menningarlegum og efnahagslegum framförum innan vébanda þeirra. Ísland er nú eitt af örfáum ríkjum í flokki svokallaðra þróaðra ríkja sem ekki hefur enn þá gerst aðili að þessum 34 ára gamla samningi.

Íslensk rannsóknarstarfsemi hefur lengi barist í bökkum. Andstæðingar hennar eru margir, t.d. sú faglega einangrun sem hlýst af fámenni Ég landfræðilegri legu Íslands, innbyrðis sundurlyndi en síðast en ekki síst fjármagnsskortur. Í því sambandi má nefna að aðflutningsgjöld af vísindatækjum eru umtalsverð fjárhagsleg byrði og oft stór hluti af naumu rekstrarfé rannsókna. Það hefur orðið stjórnmálamönnum sem og öðrum æ ljósara á síðustu árum að nýsköpun í atvinnuháttum byggist að verulegu og veigamiklu marki á rannsóknum. Íslendingar þurfa nú meira en áður að endurskipuleggja grundvallaratvinnuvegi sína og leita jafnframt fjölbreyttari atvinnukosta. Allt kallar þetta á undirstöðurannsóknir.

Í 1. gr. laga um Háskóla Íslands stendur, með leyfi forseta:

„Háskóli Íslands skal vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun er veitir nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og til þess að gegna ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu.“

Þeir eru æ fleiri sem gera sér grein fyrir því að til þess að Háskólinn geti staðið undir nafni og fylgt þeim lögum, sem um hann hafa verið sett, verða háskólakennarar að geta stundað rannsóknir í kennslugrein sinni. Mikið vantar á í þeim efnum nú og eru virkar rannsóknir háskólakennara næstum undantekning fremur en regla, en meginhluti vinnutíma háskólakennara er bundinn við kennslu eingöngu. Rannsóknir fara þó fram víðar en í Háskólanum, ekki síst vegna þess aðskilnaðar sem varð milli rannsóknastofnana atvinnuveganna annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar. Þær stofnanir og aðrar, sem vinna beinlínis að rannsóknum í þágu atvinnuveganna, þurfa einnig allan þann stuðning sem hægt er að veita. Sú framtíð sem við blasir gerir æ meiri kröfur til þekkingar og margar þær atvinnugreinar, sem nú virðast hafa hvað þróttmestan vaxtarbrodd, byggja fyrst og fremst á hugviti og aðstöðu til að beita því. Það er því grundvallaratriði, bæði til afkomu en ekki síður fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, að hún hafi frumkvæði og metnað til að stunda eigin rannsóknir. Okkur dugar því ekki lengur að skipa bekk með þeim þjóðum sem minnst leggja til rannsóknarstarfsemi eins og verið hefur. En skv. opinberum skýrslum rannsóknaráða Evrópu og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu hefur Ísland verið meðal þeirra þjóða sem minnst leggja af mörkum til rannsóknarstarfsemi, en það hefur verið talsvert innan við 1% af þjóðarframleiðslu.

Sem betur fer virðist nú vera vaxandi skilningur á þessu ófremdarástandi. Má í því sambandi vitna til fjölmenns og ágæts ársfundar Rannsóknaráðs ríkisins sem haldinn var fyrir rúmri viku. Hann var fjölsóttur af fulltrúum frá Háskóla Íslands, frá hinum ýmsu stofnunum atvinnuveganna og einnig af ýmsum fulltrúum fyrirtækja og annars staðar úr atvinnulífinu. Það var mjög greinilega ríkjandi viðurkenning á þeirri staðreynd að þekking og skilningur eru ekki bara lífsgæði heldur árangur rannsókna og jafnframt í vaxandi mæli markaðsvara nútímans og framtíðarinnar.

Það er því vel að bæði ofangreind þingmál voru samþykkt á síðasta þingi. Fjmrn. mun vera með reglugerð í smíðum um útfærslu á breyttum tollskrárákvæðum þeirra er áður var minnst á. Ég vil því, ásamt Gunnari G. Schram og Birni Dagbjartssyni hv. þm., bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. utanrrh. á þskj. 278:

„Hvað liður framkvæmd þál. frá 15. mars 1984 um staðfestingu á aðild Íslands að Flórens-sáttmálanum?“