19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3028 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

225. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur greint frá efni fsp. og sömuleiðis rakið þál. þá um staðfestingu Flórens-sáttmála sem fsp. fjallar um, þannig að ég tel ekki þörf á því.

Flórens-sáttmáli um innflutning vara til mennta-, vísinda- og menningarmála var samþykktur 22. nóvember 1950. Skv. 1. gr. sáttmálans skuldbinda aðildarríkin sig til að leggja ekki aðflutningsgjöld á eftirfarandi vörur sem taldar eru upp í viðaukum sáttmálans og upprunnar eru í öðru aðildarríki:

Viðauki A): Bækur, ýmis rit og önnur skjöl.

Viðauki B): Listaverk og safnmunir menntunarlegs, vísindalegs eða menningarlegs eðlis.

Viðauki C): Sýningarefni og hljóðritað efni menntunarlegs, vísindalegs eða menningarlegs eðlis.

Viðauki D): Vísindatæki og búnaður til notkunar við kennslu eða vísindarannsóknir.

Viðauki E): Vörur til afnota fyrir blinda.

Í viðaukum eru nánari skilgreiningar á ofangreindum vörum auk skilmála. Skv. lögum nr. 120/1976, um tollskrá, eru aðflutningsgjöld ekki lögð á vörur sem taldar eru upp í viðaukum A) og B) nema á bækur með íslensku efni sem fluttar eru inn frá löndum utan EBE og EFTA, en á þær er lagður 7% tollur. Til þess að geta framfylgt Flórens-sáttmálanum þarf að leggja niður þennan toll, annaðhvort með því að breyta tollskrárlögum eða beita 6. tölul. 3. gr. laganna sem heimilar fjmrn. að láta koma til framkvæmda tollfrelsisákvæði í milliríkjasamningum. Þessi þáttur er til athugunar og meðferðar í fjmrn.

Skv. 37. tölul. 3. gr. tollskrárlaga er heimilt að fella niður eða endurgreiða gjöld af hjálpartækjum sem sérstaklega eru gerð með tilliti til þarfa sjónskertra, sbr. viðauka E). Með bréfi fjmrn. 15. okt. 1982 er ákveðið að beita þessari heimild og sett nánari skilyrði um þennan innflutning.

Til þess að geta framfylgt viðauka D) var 39. tölul. 3. gr. tollskrárlaga breytt með lögum nr. 29/1984 og fjmrn. veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða gjöld af vísindatækjum og búnaði sem ætlaður er til notkunar hjá viðurkenndum rannsóknaraðilum.

Frá og með 1. janúar s.l. hefur heimild þessari verið beitt og aðflutningsgjöld felld niður í einstökum tilfellum. Unnið er í fjmrn. að reglugerð um framkvæmd þessarar heimildar almennt.

Ekki hafa enn verið gerðar ráðstafanir til að geta fellt niður gjöld af vörum í viðauka C), en á sumar þeirra er nú lagður 75% tollur. Fjmrn. hefur eins og kunnugt er haft til endurskoðunar tollskrá og undirbúið vandlega till., en lausn vandamálanna, sem tengjast þessum þáttum, felst væntanlega í þeirri endurskoðun. Ljóst er af framansögðu að til þess að geta staðfest Flórens-sáttmálann þarf að gera ráðstafanir, annars vegar vegna tollsins á bækur með íslensku efni og hins vegar vegna vara í viðauka C). Að svo búnu er hins vegar ekkert til fyrirstöðu þess að unnt sé að staðfesta aðild Íslands að umræddum Flórens-sáttmála.