19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

225. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki svarað án þess að endurtaka sumt af því sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. Eins og menn vita fjallar Flórens-sáttmálinn um innflutning vara til mennta-, vísinda- og menningarmála. Hér var rætt um viðaukana. Í viðauka A) eru bækur, ýmis ritföng og önnur skjöl, prentaðar bækur, bæklingar, blöð og tímarit og ýmiss konar kort og uppdrættir. Aðflutningsgjöld eru ekki lögð á þessar vörur. Ein undantekning er þó frá því, eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh., þ.e. innfluttar bækur á íslensku, en á þær er lagður 7% tollur. Í tollalagafrv., sem nú er í bígerð, er gert ráð fyrir að þessi tollur lækki í 5%. Tollur þessi er sennilega lagður á til verndar íslenskum bókaframleiðendum. En til að Ísland geti staðfest sáttmálann þarf að fella þennan toll niður og hlýtur þá að vera best að það sé gert í frv. því sem nú er í undirbúningi.

Hins vegar er hér um pólitískt mál að ræða og búast má við mótmælum frá prentiðnaðinum ef tollar á bókum prentuðum erlendis verða alfarið felldir niður. Hér er því um visst vandamál að ræða sem þarf að taka pólitíska ákvörðun um.

Í viðauka B) eru listaverk, safnmunir, menntunarlegs, vísindalegs og menningarlegs eðlis. Hér er að vísu um tolla að ræða, en þeir eru allir í 0-tollflokki.

Í viðauka C) er sýningarefni og hljóðritað efni menntunarlegs, vísindalegs eða menningarlegs eðlis. Undir þetta falla kvikmyndir, hljómplötur og hljóðbönd, kassettur og myndbönd o.fl., en það eru engin aðflutningsgjöld af kvikmyndum. Aðflutningsgjöld af hljómplötum, hljóðböndum og myndböndum með erlendu efni eru, eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh., með 75% tolli ásamt vörugjaldi sem er 30%. Af íslensku efni er það 20% , en með kennsluefni er það 0.

Í tollalagafrv., sem nú er unnið að, er gert ráð fyrir að ofangreindar vörur með erlendu efni beri 20% toll, en tollur af íslensku efni verði 0 og liðurinn kennsluefni falli alfarið út úr tollskránni. Sú spurning hefur vaknað hvort setja ætti ákvæði í lögin þar sem tollur af efni sem inniheldur efni menntunarlegs, vísindalegs eða menningarlegs eðlis yrði felldur niður. Sá liður yrði hins vegar afskaplega erfiður í framkvæmd ef ekki óframkvæmanlegur. Því hver á að skera úr því hvert gildi viðkomandi efni hefur? Rn. telur sér ekki fært að svo stöddu að verða eins konar hæstiréttur í þeim efnum.

Viðauki D) eru vísindatæki og búnaður til notkunar við kennslu eða vísindarannsóknir. Hæstv. utanrrh. vitnaði til laga nr. 29/1984. Hér vil ég segja það að fjmrh. hefur nú þegar gefið út auglýsingu varðandi framkvæmd þessa ákvæðis þannig að tollar hafa þegar verið felldir niður.

Í viðauka E) þar sem eru vörur fyrir blinda — ég þarf ekki að endurtaka það — hefur þegar verið notuð og er í gangi heimild sem gefin var út 15. okt. 1982 og voru settar nákvæmar reglur þar um.

En ég verð að segja að þrátt fyrir samþykkt Alþingis um að fela fjmrn. að setja ákveðnar reglur til að meta hvað tilheyrir menningu og hvað ekki menningu og hvað á að falla undir hvern lið fyrir sig. þá er þetta ákaflega erfitt og langvinnt verkefni. Eigi að síður er nú verið að kanna í fjmrn. með hvaða hætti hægt er að setja reglur sem gera okkur kleift að staðfesta umræddan sáttmála. Sem sagt, það er unnið að þessu þrátt fyrir þann vanda sem samþykki Alþingis setti fjmrn. í þegar á að meta hvað er hvað í þessum efnum.