19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

257. mál, starfsemi banka og sparisjóða

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans. Ég skil hann svo að hann telji nauðsynlegt að menn geti verið öruggir með innstæður sínar í bönkum og sparisjóðum, hverju nafni sem þeir nefnast, hvort heldur þeir flokkast sem ríkisbankar, einkabankar eða sparisjóðir af einu eða öðru tagi, og hann muni íhuga mjög gaumgæfilega og hyggja að því að koma á þeim tryggingum, sem nauðsynlegar og eðlilegar geti talist þannig að menn geti verið bærilega öruggir með innstæður sínar, hvað menn eru ekki eins og stendur og við ríkjandi skipulag, enda þótt, eins og hann tók fram, ekki hafi til þess komið að menn hafi tapað innstæðum í peningastofnunum sem betur fer. Ég vænti þess því að þegar bankamálin ,koma hér frekar til umfjöllunar verði þetta eitt af því sem viðskrh. leggi fram till. um.

Maður vaknar svona til umhugsunar um þetta sterkar annað veifið, ef ég má orða það svo. Og þó manni þyki það afleitt skipulag sem hefur verið, þá er það nú þannig að þegar manni berast einhver tíðindi um að ekki gangi allt of vel í bankakerfinu vaknar maður enn til vitundar um hvað þetta getur verið nauðsynlegt. Það ganga nú reyndar sögur af því einmitt núna að afkoma bankanna yfirleitt sé ekki mjög góð. Afkoma sumra banka sé afleit og sumra sparisjóða mjög slæm. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. getur staðfest það að þannig sé í pottinn búið. En ef hann hefði einhver tíðindi af því eða gæti eitthvað um það sagt þá væri það vel þegið. Að öðru leyti þakka ég honum svörin.