23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þau verkföll sem í gangi eru í þjóðfélaginu hafa staðið æðilengi og menn hafa horft upp á að það hefur hvorki gengið né rekið. Annað veifið hafa kannske vaknað einhverjar vonir um að samningar væru að nást, en þær vonir hafa brostið jafnharðan. Hver uppákoman virðist hafa rekið aðra. Mér virðist augljóst að ríkisstj. hafi síður en svo tekist að greiða fyrir samningum. Öllu frekar lítur út fyrir að henni hafi tekist að torvelda samninga.

Eitt mál, sem mjög hefur verið til umfjöllunar í sambandi við þessa samninga og miklar umr. hafa farið fram um annað veifið, eru svokallaðar skattalækkanir. Menn hafa jafnvel nefnt þetta „skattalækkunarleið“. Ríkisstj. hefur, a.m.k. annað veifið, gefið undir fótinn um að þessi leið yrði farin og vissulega getur það haft ýmsa kosti að fara þá leiðina í meira eða minna mæli. En gallinn er bara sá að menn hafa í rauninni aldrei fengið að vita í hvaða mæli. Hver er hugmynd ríkisstj. í þessu efni? Þetta hefur verið rætt milli Verkamannasambandsins, samtaka iðnverkafólks og Vinnuveitendasambandsins, en ákvörðunin hlýtur að sjálfsögðu að liggja hjá ríkisstj. og síðan endanlega hjá Alþingi.

Ég held að það sé afleit staða og hafi í rauninni torveldað samninga að aldrei hafi komið fram hvert sé raunverulegt tilboð ríkisstj. í þessum efnum, að þessi óvissa sé mjög slæm og standi í vegi fyrir því að menn geti metið stöðuna og gengið út frá ákveðnum forsendum.

Það er ljóst að annað veifið er verið að tala um 600 millj. sem skattalækkun, en við höfum líka séð tölur eins og 1100 eða 1400 millj. Ég held að nauðsynlegt sé að forsrh. geri hér hreint borð og láti koma fram hver sé hugmynd ríkisstj. í þessum efnum því ef þetta er ekki skýrt, hver er hugmynd ríkisstj., hvernig eiga þá aðilar þeir sem í samningum standa nú og eru af ýmsu tagi, annars vegar verkafólk sem tilheyrir Alþýðusambandinu og hins vegar opinberir starfsmenn, að meta stöðu sína?

Við Alþfl.-menn teljum að nauðsynlegt sé, og þá ekki síst til þess að greiða fyrir samningum, að það komi skýr og afdráttarlaus yfirlýsing frá ríkisstj. um hvað hún hyggist gera og hvert hennar raunverulega tilboð sé og þess vegna hef ég kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár, til þess að þessi þáttur kjaramálanna væri gerður að umræðuefni og forsrh. gerði grein fyrir stefnu ríkisstj. í þessum efnum. Fyrst þegar slík yfirlýsing liggur fyrir geta menn metið hvers virði hún er. Ég held að nauðsynlegt sé að eyða þeirri óvissu og tortryggni sem ríkir um þessa hluti og að forsrh. komi í dag fram með hreint borð og slegið sé þannig á þá óvissu og reyndar tortryggni sem ríkir í þessum efnum. Það er þess vegna sem ég vil spyrja forsrh. nokkurra spurninga. Svör hans við þeim gætu eytt þeirri óvissu sem nú ríkir í þessum efnum.

Ég spyr þá hæstv. forsrh. í fyrsta lagi: Hvað býður ríkisstj. í sambandi við þessar samningaumleitanir miklar skattalækkanir í fjárhæðum talið? Ég minntist á það áðan að ýmsar tölur hefðu verið nefndar, en það lægi ekki fyrir hver væri raunveruleg ákvörðun ríkisstj. í þessum efnum. Hvernig skiptist það í fjárhæðum talið á tekjuskatt og útsvar eða hugsanlega einhverja aðra skatta ef þær hugmyndir skyldu vera uppi í ríkisstj.?

Í annan stað leikur mér hugur á að vita hvort ekki sé samstaða um stefnumörkun að því er þetta varðar í ríkisstj. Ég spyr vegna þess að við höfum orðið þess vör að það eru allt aðrar tölur nefndar á einum samningavettvangi, hjá opinberum starfsmönnum, en þær sem hafa verið til umræðu á öðrum samningsvettvangi, nefnilega í þeim viðræðum sem hafa staðið milli vinnuveitenda, Verkamannasambandsins og samtaka iðnverkafólks.

Í þriðja lagi spyr ég, ef eitthvað er í rauninni boðið, sem ég verð að ætla að sé, hvernig framkvæmdinni verði háttað. Og að því er framkvæmdina varðar spyr ég í fyrsta lagi: Að hve miklu leyti er hugmynd ríkisstj. að mæta þessari skattalækkun með því að auka við tekjur með öðrum hætti, þ.e. að auka við aðra skatta, eða er ekki hugmyndin að gera það að neinu leyti? Það mætti líka orða þetta þannig: Er í einhverjum mæli um að ræða hugmyndir um tilfærslu á sköttum frekar en heildarskattalækkun? Ég tel að nauðsynlegt sé að forsrh. upplýsi þetta og þetta verði að vera skýrt þannig að menn geti metið hvers kyns hugmyndir eru á ferðinni. Ég þykist þess fullviss að menn muni gera mjög mikinn greinarmun á því hvort um heildarskattalækkun sé að ræða eða að einhverju leyti tilfærslu á sköttum milli tekjustofna sem til ríkisins koma.

Í öðru lagi spyr ég að því varðandi framkvæmdina hvort ríkisstj. hyggist þá skera niður af útgjöldum ríkisins til þess að mæta tekjutapi vegna skattalækkana sé ekki hugmyndin að afla tekna á móti. Og þegar ég spyr hvað hún hyggst skera niður held ég að það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. forsrh. geri fyrir hönd ríkisstj. grein fyrir því allítarlega.

Þessar spurningar eru bornar hér fram og óskað svara við þeim vegna þess að ég held að í svörunum við þeim, ef skýr eru, sé möguleikinn til að eyða þeirri tortryggni sem orðið hefur vart við varðandi þessa leið hjá ýmsum þeim sem um þetta hafa hugsað.

Forsrh. verður með svörum sínum, ef það er alvara ríkisstj. að fara þessa leið í einhverjum mæli, að sannfæra okkur, sannfæra fólkið í landinu um að þetta sé trúverðugt og hér sé um raunverulega kjarabót að ræða. Forsrh. verður með öðrum orðum, og hefur til þess tækifæri nú, að sanna gildi þessa tilboðs. Það verður hann að gera til þess að það sé tekið alvarlega. Ég held að það sé eitt af því sem hafi torveldað samninga að ríkisstj. hafi verið að veifa hér skattalækkunum án þess að tala hreint út um hvers kyns þær væru og koma fram með skýringar á því hvernig þetta ætti að framkvæmast þannig að enginn þyrfti að velkjast í neinum vafa um hvert tilboðið er og hvernig það væri grundað og að það stæði þá á traustum fótum. Menn spyrja sem sagt: Með hvaða hætti ætlar ríkisstj. að láta þetta dæmi ganga upp?

Að því er framkvæmdina varðar vil ég í þriðja lagi spyrja um útfærslu að því er tekjuskattinn varðar: Hver eru áform ríkisstj. að því er þessa útfærslu varðar? Er hugmyndin að lækka skattprósenturnar yfir línuna þannig að þetta komi öllum til góða hvort sem þeir eru tekjuháir eða tekjulágir, svo framarlega sem þeir greiða skatta á annað borð, eða er hugmyndin að hækka persónuafsláttinn sem vissulega kemur öðruvísi út og hefur m.a. þau áhrif að hækka skattfrelsismörkin.

Að því er framkvæmdina varðar vil ég í fjórða lagi spyrjast fyrir um útsvarið vegna þess að um það hefur verið rætt og komið fram í umr. að hluti af þeirri skattalækkun, sem hér kæmi til álita, fælist í útsvarinu. Hvernig er hugmyndin að framkvæma slíka lækkun? Á að gera það með því að hækka útsvarsfrelsismörk, ef ég má orða það svo, eða á að hækka hæstu leyfilega álagningarprósentu sem sveitarfélögum sé heimilt að leggja á eða á að setja sérlög um að útsvarsálagningarprósenta megi hvergi fara fram úr einhverju tilteknu prósentustigi eða er hugmyndin að setja sérlög um að útsvar skuli vera hinu eða þessu prósentustiginu lægra en það var síðast? Hvernig er hugmyndin að því er útsvarið varðar, að svo miklu leyti sem það kemur inn í þessa mynd, að framkvæma þá álagningarlækkun sem hefur verið þar til umr.? Og í þessu sambandi, úr því að við höfum snúið okkur að sveitarfélögunum, má spyrja: Er þá líka hugmyndin að setja þak á fasteignagjöldin eða telur ríkisstj. að engin hætta sé á því, ef dregið er úr tekjustofnum sveitarfélaganna af útsvari, að það komi þá niður á einhverjum öðrum þætti, sem sagt að fasteignagjöldin yrðu hækkuð, eða gerir það ekkert til? Um þetta allt saman hlýtur ríkisstj. að hafa hugsað.

Í þeim umr. sem hafa átt sér stað hefur líka verið rætt um ýmsa aðra þætti og ég held að nauðsynlegt væri að fá svör frá forsrh. varðandi þá líka.

Það hefur þá í fyrsta lagi verið rætt um vaxtalækkun. Vill forsrh. ekki upplýsa okkur um hvað sé í boði í þeim efnum og hvenær það muni gerast? En vel að merkja: Getur ríkisstj. boðið vaxtalækkun á meðan það er vaxtafrelsi? Við því vildi ég reyndar líka fá skýr svör.

Í annan stað hefur verið rætt um húsnæðismál og þann vanda sem þar er við að fást. Hvert er tilboð ríkisstj. í þeim efnum?

Ég veit, herra forseti, að þetta eru nokkuð fjölþættar spurningar og sundurliðaðar, en sannfæring okkar Alþfl.-manna er sú að einungis með því að gefa skýr svör varðandi þessi efni verði tilboð ríkisstj. raunverulega trúverðugt og allri tortryggni eytt, og í annan stað sé það leiðin, eins og hlutirnir eru núna, til þess að greiða fyrir samningum að afstaða ríkisstj. í þessum efnum liggi skýrt fyrir svo menn viti út frá hvaða grunni þeir eigi að semja, en þetta fljóti ekki allt fram og til baka eins og okkur hefur virst það gera hingað til. Það er af þessum sökum sem þessar spurningar eru hér bornar fram og óskað eftir því að forsrh. svari þeim og af þeim sökum einum.

Auðvitað hafa verið notuð stór orð um þessar hugmyndir ríkisstj. Ég las það einhvers staðar að hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson hefði orðað það svo að hér væri um eitthvert umfangsmesta tilboð að ræða af hálfu stjórnvalda sem um gæti. Við höfum að vísu heyrt um tímamótaákvarðanir, bæði í september og á miðju sumri, en ef nota má svo stór orð um þetta er enn þá frekar ástæða til þess fyrir hæstv. forsrh. að svara þeim spurningum, sem ég hef hér lagt fyrir hann, skýrt og skilmerkilega.