19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

273. mál, skattaívilnun vegna ættleiðingar

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég hafði reyndar ekki reiknað með því að röðin kæmi að mér svo fljótlega en sannleikurinn er sá að ýmsir flm. till. hér virðast ekki fylgja þeim ýkja vel eftir svo ekki sé meira sagt. Þykir mér hart til þess að vita að hæstv. forseti, svo mjög sem hann gætir virðingar þingsins, skuli þurfa að standa í látlausri smölun fund eftir fund til þess að einhver vilji mæla fyrir till. sem hann hefur flutt fyrir vikum eða jafnvel mánuðum síðan. En þetta mál, sem ég mæli hér fyrir, er einfalt og í eðli sínu athugunarmál fyrst og fremst. Ég treysti mér því til þess að mæla fyrir því nokkur orð til viðbótar því sem í grg. stendur.

Þetta er till. til þál. um skattaívilnun vegna ættleiðingar barna. Ásamt mér flytur þessa till. hv. 3. þm. Vestf., Karvel Pálmason. Tillgr. ætla ég ekki að lesa en þar er í raun og veru um að ræða undirbúning sem falinn er ríkisstj. varðandi breytingar á lögum um tekjuskatt og könnun á leiðum til lækkunar útsvars og möguleikum til afturvirkni ívilnana til þeirra foreldra sem ættleiða börn erlendis frá með gífurlegum tilkostnaði. Í grg. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ættleiðingar barna erlendis frá fara stöðugt í vöxt. Ástæður eru öllum kunnar, augljósar og eiga sér fyllstu réttlætingu frá tilfinningalegu og mannlegu sjónarmiði. Til ýmissa fjarlægra þjóðlanda hefur verið leitað og er gert í ríkum mæli, enda ekki um aðra möguleika að ræða. Í sumum þessara landa hefur verið lokað fyrir þessa möguleika, en þá er annarra leitað. Auk þess að hafa ómetanlegt og varanlegt lífsgildi fyrir viðkomandi foreldra er einnig oft um að ræða björgun mannslífa. Hins vegar er hér um verulegar fjárupphæðir að tefla og mikinn aukakostnað, en óhjákvæmilegan, og full ástæða er til að kanna hvort ekki eigi að taka tillit til hans við álagningu tekjuskatts árið eftir og jafnframt veita lækkun á útsvari.

Aukin lífsgæfa, meiri lífsfylling, nýr lífstilgangur — þessir þættir verða að vísu aldrei metnir til fjár eða lagðir á skattavog. Engu að síður þykir flm. að það fólk, sem af ríkri nauðsyn, þar sem sjálf lífshamingjan er oft í veði, kostar svo miklu til í fyrirhöfn, ferðalögum og fjármunum, hljóti að eiga til þess nokkurn rétt að samfélagið taki tillit til þessa alls. Hér er hins vegar aðeins um ívilnun í eitt ár að ræða og skiptir því litlu fyrir samfélagið, en þeim mun meira fyrir viðkomandi, aðila.

Flm. þykir og sjálfsagt að jafnframt séu kannaðar leiðir til útsvarslækkunar hjá sveitarfélögunum. Afturvirkni er erfið og e.t.v. óframkvæmanleg, en flm. þykir samt rétt að láta kanna hvað unnt er að gera í því efni.“ — Og síðan segir hér og tekið nokkuð upp í sig: „Frekari rökstuðningur bíður framsögu.“

Ég ætla hins vegar ekki að hafa þann rökstuðning langan því að ég tel að þrátt fyrir allt hafi flest af því komið fram sem máli skiptir í þessari grg. Ég vil aðeins geta þess að þeir foreldrar, sem við mig hafa talað um þessi mál, nefna upphæðir á bilinu 300–500 þúsund í beinum kostnaði fyrir utan það vinnutap og ýmsa aðra fyrirhöfn sem þeir verða fyrir af þessum sökum. Hér er því ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Hitt er svo annað mál að kannske þykir mönnum allt sem lýtur að lækkun tekjuskatts eða breytingum á lögum um tekjuskatt vera heldur einkennilegt í dag þegar stefnt er að því að afnema þann skatt með öllu. Ég bendi þó á það að þrátt fyrir þær yfirlýsingar um að tekjuskatturinn skuli afnuminn er nýbúið, að manni skilst, að leysa kjarasamninga heillar stéttar með þeim hætti að ákveðinn skattfrádráttur varðandi tekjuskattinn er tekinn þar inn og bíður lögfestingar Alþingis. Menn virðast því enn þá meta það nokkuð mikils að fá skattaívilnun af svipuðu tagi og hér er verið að fara fram á.

Öll slík skattaívilnun orkar hins vegar tvímælis. Á okkar framtalsseðlum eru margir frádráttarliðir sem ég tel að séu ekki betur til þess fallnir en þessi hér að vera viðurkenndir. Ýmsir slíkir liðir eru sjálfsagðir, aðrir vafasamari. Ég hygg að þessi liður, sem við erum að fara hér fram á að tekinn verði inn og það aðeins einu sinni, mundi ekki leiða af sér stórfellda röskun og væri auk þess sanngjarnari en margir aðrir frádráttarliðir sem þar eru þó tíundaðir.

Hér er um að ræða mikið tilfinningamál og mál sem fólk vill í raun og veru ekki láta meta og vega á þeirri vog sem við erum að tala um hér í grg. Ég tek það fram að það eru ekki foreldrar þessara barna sem hafa verið að óska eftir því við flm. að þetta yrði gert, en þeir hafa greint okkur frá miklum kostnaði sínum, mikilli fyrirhöfn og miklu vinnutapi. Þar af leiðandi teljum við sjálfsagt að þetta sé athugað og til þess er þessi till. flutt. Ég vænti þess að hún fái góða afgreiðslu og sanngjarna í n., svo sanngjörn sem till. er í eðli sínu. Ég leyfi mér að vænta þess að henni verði vísað að loknum fyrri hluta umr. til hv. allshn.