19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

163. mál, raforka til vatnsdælingar hitaveitna

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Í fjarveru Sverris Sveinssonar, sem sat hér sem varaþm., mæli ég fyrir till. til þál. á þskj. 168 um niðurfellingu söluskatts af raforku til vatnsdælingar hitaveitna. Flm. auk mín og Sverris eru hv. þm. Ingvar Gíslason og Þórarinn Sigurjónsson. Tillgr. er orðuð þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að söluskattur verði ekki innheimtur af raforku til vatnsdælingar hitaveitna.“

Þetta mál er í sjálfu sér afskaplega einfalt að allri gerð. Fyrir því eru að okkar dómi flm. nokkuð skýr rök. Ég vil leyfa mér að hafa yfir þá grg. sem fylgir með þessari litlu till., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Mikill hluti af rekstrarkostnaði hitaveitna er fólginn í kaupum á raforku til dælingar á vatni. Söluskattur hefur verið innheimtur af raforku til dælingar þrátt fyrir þá almennu stefnu, sem mörkuð er í reglugerð um söluskatt nr. 468/1982, að dregið sé úr húshitunarkostnaði, sbr. 19. og 20. tölul. 13. gr. og 12., 13. og 22. tölul. 14. gr. þeirrar reglugerðar, sbr. og 7. gr. laga nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, og 1. gr. reglugerðar nr. 317/1974.

Samband íslenskra hitaveitna og orkusparnaðarnefnd hafa fengið því framgengt að söluskattur verði ekki innheimtur af raforku til varmadælna, en slík tæki er verið að setja upp um þessar mundir og gert ráð fyrir að þau verði tekin til enn frekari nota á næstu árum“ eins og stendur hér. — „Tilgangur þeirra er að vinna úr volgu vatni, t.d. lághitavatni og bakrennslisvatni hitaveitna, með raforku. Án niðurfellingar söluskatts af raforku til þessara nota væri þessi tækni óarðbær.

Sú er skoðun flm., og það er einnig álit Sambands ísl. hitaveitna, að raforka til vatnsdælingar hitaveitna skuli með sömu rökum og rn. féllst á gagnvart varmadælum undanþegin söluskatti. Í bréfi til Sambands ísl. hitaveitna frá 6. des. 1983 lýsti fjmrn. þeirri skoðun sinni að flutningur orku verði ekki lagður að jöfnu við framleiðslu hennar. Þessi skýring rn. telur Samband ísl. hitaveitna að byggist á misskilningi þar sem í báðum tilvikum er um öflun orku, þ.e. framleiðslu, að ræða. Í öðru tilvikinu er framleitt nothæft hitaveituvatn úr afrennslisvatni með raforku. Í hinu tilvikinu er öflun orkunnar, þ.e. framleiðsla, fólgin í því að dæla laugarvatni upp úr borholum og koma til notenda með raforku. báðum tilvikum er raforka á viðunandi verði forsenda orkuöflunar eða framleiðslu á nothæfu hitaveituvatni á samkeppnisfæru verði.“

Eins og hv. alþm. er kunnugt og þeir hafa eflaust veitt athygli fylgir þessari till. grg. um kostnað vegna dælingar á heitu vatni vegna nokkuð margra hitaveita, kostnaður frá árinu 1982 og áætlun fyrir árið 1983. Það skal viðurkennt að það hefði verið eðlilegra að hafa nýjar tölur í þessu sambandi, uppreiknaðar til núvirðis og á grundvelli hugsanlegra breytinga sem hefðu orðið á eða hafa orðið á þörf hinna ýmsu hitaveitna til þess að dæla vatni, en það getur verið breytilegt á milli ára. Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að tíunda þetta mál frekar. Meginrökin fyrir flutningi þessarar till. eru þau, sem komið hafa fram að raforka á eðlilegu verði til dælingar á heitu vatni sé í mörgum tilvikum forsenda þess að hægt sé að afhenda vatn við sanngjörnu verði. Raforkan er óumdeilanlega í mörgum tilvikum, eins og getið hefur verið um, forsenda þess að ná og nýta heitt vatn, þ.e. venjuleg dæling er óumflýjanleg. Söluskattur á raforku til þeirrar dælingar á að falla niður.

Herra forseti. Ég legg til að þessari till. verði vísað til atvmn. að loknum þessum hluta umr.