19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3046 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

268. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum sem ég flyt ásamt Helga Seljan, hv. 2. þm. Austurl., en till. er efnislega svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera átak á árinu 1985 til að ráða bót á mengun frá fiskimjölsverksmiðjum og útvega lánsfé til framkvæmda.

Jafnframt verði gerð áætlun um varanlegar úrbætur í mengunarmálum fiskimjölsverksmiðja í samvinnu við hlutaðeigandi eigendur og samtök þeirra, svo og heilbrigðis- og náttúruverndaryfirvöld.

Áætlunin miðist við að lágmarkskröfum um mengunarvarnir allra starfandi fiskimjölsverksmiðja verði fullnægt innan tveggja ára og fjármagn tryggt til þeirra aðgerða. Verði í senn haft í huga ytra og innra umhverfi verksmiðjanna og lögð áhersla á bætta nýtingu hráefnis og orkusparnað ásamt viðhlítandi mengunarvörnum.“

Þessi till., sem hér liggur fyrir, var flutt efnislega svipuð á þingum 1978 og 1979, raunar þrívegis en hlaut þá ekki afgreiðslu. Hins vegar má telja að sá tillöguflutningur og umræður sem tengdust honum hafi ýtt á eftir stjórnvöldum að leita úrbóta varðandi mengun frá fiskimjölsverksmiðjum á árunum þar á eftir, frá 1980–1983, og er gerð grein fyrir þeim aðgerðum og undirbúningi í fskj. með þáltill.

Það fór hins vegar svo, að hinn mikli samdráttur í loðnuveiðum og bann við þeim veiðum á árunum 1981–1982 leiddi til mikilla rekstrarerfiðleika hjá þeim verksmiðjum sem byggt höfðu afkomu sína á loðnuvinnslu og það dró úr viðleitni og getu til að fjárfesta í verksmiðjunum, þar á meðal til mengunarvarna.

Frá árinu 1983 að telja hafa loðnuveiðar til bræðslu hins vegar farið vaxandi á ný og eru nú stórtækar orðnar sem betur fer og er ástæðulaust annað en gera ráð fyrir að þar verði framhald á þótt sveiflur verði í aflamagni. Auk þeirra loðnuverksmiðja sem nú eru starfræktar eru um 20 verksmiðjur sem einungis vinna úr fiskúrgangi. Frá sumum þeirra stafar vissulega veruleg mengun.

Þó að úrbætur hafi verið gerðar á mengunarmálum ýmissa fiskimjölsverksmiðja að undanförnu, eins og t.d. á Krossanesi við Eyjafjörð, er ástandið víða með öllu óviðunandi og á það ekki síst við um loðnubræðslur á Austfjörðum. Því er enn brýnt að knýja á um aðgerðir þar sem stjórnvöld verða að hafa forustu í samvinnu við forráðamenn viðkomandi fyrirtækja og sveitarstjórnir. Hér er bæði um að ræða sjávarmengun og loftmengun frá verksmiðjunum fyrir utan bágborið innra starfsumhverfi hjá mörgum þeirra. Sjávarmengunin kemur einnig til við löndun úr veiðiskipum, þar sem ekki er fyrir hendi viðhlítandi löndunarbúnaður eða brotið gegn reglum, m.a. varðandi skolun lesta og dælingu á hráefni í höfnum við bræðslurnar. Ófullkomin geymsla á hráefni og vinnsla úr skemmdu hráefni bætir svo vitanlega ekki úr skák þegar þannig háttar til.

Ástandið í þessum efnum, vegna loftmengunar, er með fádæmum slæmt þar sem aðstæður eru verstar, ekki síst í þröngum fjörðum, og tilfinnanlegast á góðviðrisdögum sem hafa verið margir á þessum vetri. Engin mengun hérlendis veldur jafnmiklum óþægindum fyrir marga og „peningalyktin“ svokallaða og ég tel að hún sé tvímælalaust heilsuspillandi, ekki síst fyrir þá sem veilir eru fyrir í öndunarfærum.

Raunar hafa verið leiddar líkur að því að þessi mengun geti valdið mun alvarlegra heilsutjóni en hér er látið að liggja, en um það vil ég ekkert staðhæfa þar sem einhlítar niðurstöður liggja ekki fyrir eða rannsóknir sem unnt sé að byggja á fullyrðingar um þau efni. En flm. þessarar till. telja að ekki megi dragast lengur að á þessum vanda sé tekið með þeim hætti sem lagt er til í þessari þáltill.

Sem kunnugt er eiga allar fiskimjölsverksmiðjur að hafa starfsleyfi frá heilbr.- og trmrn., en einungis fáar þeirra hafa fullt starfsleyfi, eins og kemur fram á fskj. I með till., og sumar eru reknar án nokkurs leyfis heilbrigðisyfirvalda. Á árunum 1980–1983 var unnið að ýmsum aðgerðum af hálfu stjórnvalda til þess að ráða hér bót á. Þannig er að finna í fskj. með þessari till., fskj. II, álit nefndar sem þáv. heilbrrh., Svavar Gestsson skipaði á árinu 1980 til að semja drög að reglugerð til varnar mengun frá fiskimjölsverksmiðjum. Þessi drög að reglugerð, sem ekki hefur verið útgefin eða staðfest, munu vera notuð af Hollustuvernd ríkisins að verulegu leyti þegar fjallað er um málefni þessara fyrirtækja.

Þá skipaði ég sem iðnrh. á árinu 1981 starfshóp með fulltrúum frá fjórum ráðuneytum til að fjalla um aðgerðir til að hraða mengunarvörnum og orkusparnaði í fiskimjölsverksmiðjum á grundvelli sérstakrar ríkisstjórnarsamþykktar frá 13. júlí 1981. Sá starfshópur skilaði áliti ári seinna eða 29. júní 1982 og fjallaði um lánsfjármögnun og styrkveitingar úr ríkissjóði til að hvetja til að dregið yrði úr mengun frá fiskimjölsverksmiðjum. Einnig er í þessum ábendingum að finna tillögur um hvernig innlendur iðnaður gæti orðið betur hlutgengur en áður í verkefnum á þessu sviði. Álit þessa starfshóps er birt á fskj. III með þessari till.

Á grundvelli þessara tillagna var veitt framlag á fjárlögum áranna 1981–1984 til að styrkja fiskimjölsverksmiðjur til að koma á úrbótum í mengunarvörnum og fengu níu verksmiðjur slíka styrki, sumar þrjú ár í röð, eins og nánar kemur fram á fskj. I með till. Á fjárl. yfirstandandi árs er, því miður, hins vegar ekki gert ráð fyrir neinu framlagi í þessu skyni og er það tilfinnanleg afturför og mér er ekki fullljóst hvað hafi valdið þeirri niðurstöðu. Þeim mun brýnna er að tryggt verði nú lánsfé til aðgerða í mengunarmálum fiskimjölsverksmiðja skv. lánsfjáráætlun ársins 1985. Ég vænti þess að till. þar að lútandi fái stuðning, svo stórkostlega brýnt málefni sem hér er um að ræða. Að mati okkar flm. er eðlilegt að því fjármagni verði ráðstafað í gegnum Fiskveiðasjóð sem lánað hefur til fiskimjölsverksmiðja. Vissulega þarf þess að gæta að slíkt fjármagn fari til brýnustu úrbóta í mengunarvörnum, en á næstu árum verði svo tryggt fjármagn skv. þeirri áætlun sem tillagan gerir ráð fyrir.

Í fskj. með till. er að finna yfirlit yfir stöðu þessara mála og sum þeirra gagna eru komin frá Hollustuvernd ríkisins sem veitti flm. góðfúslega upplýsingar og aðstoð við undirbúning að þessari tillögugerð.

Ég vil að lokum, herra forseti, vænta þess að á þessu stóra vandamáli verði tekið með jákvæðum hætti nú af hálfu Alþingis og legg til að eftir að umr. um þetta mál verður frestað verði till. vísað til hv. atvmn. sem fékk á sínum tíma hliðstæðar tillögur á árunum 1978–1979. Því er það till. mín að þessi nefnd fái þessa till. einnig þó að hugsanlegt væri að allshn. hefði áhuga á að fjalla um þetta mál. En ég hygg að hún hafi býsna mörgum málum að sinna og ekki óeðlilegt að atvmn. taki á þessari till. þar sem hún varðar vissulega heilbrigðismál, kannske í fyrsta lagi, en einnig þróun þessara fyrirtækja bæði varðandi nýtingu hráefnis og einnig orkusparnað.