19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

268. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Þessi till., sem hér um ræðir, er vissulega nokkuð gamall kunningi, jafnvel eldri en hv. flm. gat um, a.m.k. í umr. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að líklega hefur loðnubresturinn komið að nokkru í veg fyrir að betur yrði að gert á þeim tíma er hann var iðnrh. og fór með þessi mál ásamt þáv. heilbrrh., hv. þm. Svavari Gestssyni. Vissulega komst þá nokkur hreyfing á þessi mál. Hitt er svo annað að á seinni hluta valdatíma þeirra var lítið gert í því að fylgja eftir þeim reglugerðum sem þá voru þegar komnar og hefur reyndar lítið gerst í þeim málum enn.

Ég er þeirrar skoðunar að það hafi jafnvel verið lán í óláni að við rukum ekki í það fyrir u.þ.b. tíu árum að framfylgja kröfum um mengunarbúnað með þeim búnaði sem þá var þekktur. Síðan þá hafa komið fram tæki og aðferðir, eins og síðasti ræðumaður hv. þm. Valdimar Indriðason gat um, búnaður sem gerir ekki aðeins mun auðveldra að þétta gufuna, heldur einnig að vinna úr henni nýtanlega orku til upphitunar á hráefni. Með þessu móti hefur sýnt sig, og óbeina eldþurrkunin sem á sér stað á Krossanesi og eimibúnaðurinn sem kominn er upp á Raufarhöfn, að hægt er að spara verulega orku með því einu að þétta gufuna, sem kallaður er reykur, úr verksmiðjunum, en sú gufa ber einmitt lyktarefnin og olíudropana vítt og breitt um nágrennið.

Það er sennilega alveg rétt að við séum nokkuð langt á eftir því sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Hins vegar eigum við nú til verksmiðjur sem eru sambærilegar. Á Krossanesi er, má segja, engan reyk að sjá. Að vísu eiga þeir eftir að gera átak innan verksmiðjunnar sjálfrar. Ástandið þar er ekki alveg nógu gott enn þá. Auðvitað er lykt af skemmdu hráefni enn þá til angurs þar í nágrenninu.

Eins og hv. þm. Valdimar Indriðason gat um kostar þetta fé. Því miður sýnist mér ekki horfa efnilega um það. Verksmiðjurnar eru núna reknar með miklu basli og afkoma þeirra er nánast mjög hæpin. Ég hef ekki séð áætlanir um að þar verði ráðin bót á.

Það er hins vegar til upplýsingar rétt að geta þess að Fiskveiðasjóður lánar út á aðgerðir eins og Síldarverksmiðjur ríkisins ætla sér að fara í á næstunni. Mér er kunnugt um að ný loðnubræðsla á Ólafsfirði hefur fengið fyrirgreiðslu. Hún er búin þvottaturni og gufuþurrkun og þess vegna nokkuð — hvað eigum við að segja — loftmengunarminni en aðrar verksmiðjur hér. Að sjálfsögðu má deila um hvort lánveiting Fiskveiðasjóðs er nægileg til þessara hluta og ég hef einhvern veginn grun um að lánveiting Fiskveiðasjóðs sé fyrst og fremst til orkusparandi aðgerða. Ég skal þó ekki fullyrða um að svo sé.

Mælingar á loftmengun eru nokkuð erfiðar. Því er ekki að leyna að þeir sem hafa átt fyrir þessum verksmiðjum að sjá, sem taldar hafa verið menga loft í bæjarfélögum, hafa gjarnan getað varið sig með því að ekki sé þægilegt að mæla hvað er vond lykt og hvað ekki. Það er gert með sérstöku tæki og sérþjálfuðum nefum sem látin eru lykta af lofti með mismunandi þynningum, en hvorki hefur slíkt fólk verið þjálfað upp hér né heldur eru tæki til. Ég hef þó von um að það séu betri tímar í vændum á þessum sviðum.

Ég get tekið undir að það eru sérstakir staðhættir í kjördæmi hv. flm. Ég þekki það vel frá minni tíð sem eftirlitsmaður með þessum verksmiðjum að aðstæður þar og ástand þar var hvað verst á landinu. Því er ekki að leyna. Það er gjörsamlega gagnslaust að byggja háa skorsteina á Seyðisfirði og Eskifirði. Þeir hjálpa ekki neitt þar þó að þeir mundu geta og geti hjálpað töluvert á öðrum stöðum.

Ég vil að efni til taka undir þessa till. og held að vissulega sé löngu tímabært að ráða bót á mengun frá fiskimjölsverksmiðjum.