19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

268. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta þessa umr. líða hjá án þess að taka efnislega undir till. Hér er um þarft mál að ræða og ég mun fyrir mitt leyti styðja það að till. fái gaumgæfilega umfjöllun hér og athugun. Vissulega er um stórt mál að ræða og framkvæmdir kosta mikið fé.

Það er rétt, sem fram hefur komið, að þetta mál er alvarlegt í Austurlandskjördæmi og brennur víða á mönnum þar. Peningalyktin þótti góð áður fyrr. Hún þótti bera vott um góða tíma og var yfirleitt um hábjargræðistímann. Nú er úthaldstími verksmiðjanna miklu lengri og peningalyktin liggur í loftinu miklu lengur en áður var og yfir veturna líka. Í fjörðum fyrir austan sér víða ekki handa skil þegar verksmiðjurnar eru í fullum gangi, ekki síst þegar veðurblíða er einstök eins og í vetur.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að viss hagkvæmni er því samfara ef það tekst að ráða hér bót á. Maður hefur séð verksmiðjur sem þannig er ástatt um að sópa má á þeim þakið þegar þær eru í fullum gangi vegna þess að það fer svo mikið mjöl út með reyknum og einnig er frá þeim grútarmengun um allar fjörur.

Ég ætla ekki að lengja þessa umr. eða fara út í önnur atriði. Það hafa talað við þessa umr. menn sem eru gagnkunnugir þessum málum og ég hef í rauninni engu við þeirra orð að bæta, en vildi ekki láta hjá líða að taka undir þetta mál því að það er þarft.