19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3052 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 450 ásamt hv. 5. þm. Reykn. Geir Gunnarssyni að flytja svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir því að haldin verði námskeið fyrir fatlaða í meðferð og notkun á tölvum til að auðvelda fötluðum að fá störf á vinnumarkaðnum. Félmrn. standi fyrir þessum námskeiðum, viðkomandi að kostnaðarlausu.“ Í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnumál fatlaðra hafa oft verið til umræðu og ýmislegt hefur verið gert til að auðvelda atvinnuþátttöku þeirra, t.d. verndaðir vinnustaðir. Einskis má hins vegar láta ófreistað til að auka þátttöku fatlaðra sem mest í atvinnulífinu og þá alveg sér í lagi við þau störf sem mest eru við hæfi þeirra.

Tölvutækni og tölvunotkun ryðja sér æ meir til rúms í atvinnulífinu. Til að starfa við tölvur þarf ákveðna þekkingu byggða á námi, en augljóst er að tölva sem vinnutæki hentar sérstaklega vel fötluðum, m.a. hjólastólafólki. Fá störf munu þessu fólki þægilegri viðhorfs, auk þess sem þau gefa betri tekjumöguleika en mörg önnur. Störf sem lúta að tölvum og notkun þeirra ná til æ fleiri þátta og svo mun verða enn frekar í náinni framtíð.

Fatlaðir þurfa að eiga kost námskeiða til þess að geta orðið hlutgengir til þessara starfa. Upp á slík námskeið þarf að bjóða fötluðum þeim að kostnaðarlausu til örvunar og hvatningar til frekari atvinnuþátttöku, en fjárhagur fatlaðra almennt er slíkur að námskeið getur verið þeim ofviða fjárhagslega.

Félmrn. er yfirstjórnandi þessa málaflokks skv. lögum og hlýtur að vera sá aðili sem tekur þetta að sér. Námskeiðahald af þessu tagi mundi skjótlega skila sér á margan veg til samfélagsins auk þeirra áhrifa sem það gæti haft á hagi og líf fatlaðra.“

Ég sat fyrir skömmu — allt of skamman tíma þó — hluta af ráðstefnu um atvinnumál fatlaðra. Sú ráðstefna var mjög fjölsótt. Ótrúlegur áhugi kom þar fram á öllum möguleikum hinna fjölmörgu hópa fatlaðra sem þar voru saman komnir. Þar var m.a. rætt um vernduðu vinnustaðina og þeir taldir af hinu góða þar sem þeir væru óhjákvæmilegir, en hins vegar tekið skýrt fram af öllum þeim sem þar töluðu að þeir væru vitanlega það úrræði sem síðast ætti að grípa til, hin almenna atvinnuþátttaka ætti að sitja fyrir.

Það kom ljóst fram á þessari ráðstefnu hversu miklar vonir fatlaðir binda við tölvuna. Að vísu gera þeir það gagnvart ýmsum hjálpartækjum sem tengd eru við tölvur og stjórnað af þeim eða með þeim, með tölvubúnaði, ýmiss konar hugbúnaði einnig af því tagi, en alveg sérstaklega varð maður var við að þeir bundu vonir við að atvinna tengd tölvunni félli þeim í skaut.

Það var almennt álit á þessari ráðstefnu, dapurlegt að vísu, að einkaaðilar stæðu sig mun betur en hið opinbera í því að sjá fötluðum fyrir vinnu. Ég hygg að þetta sé rétt, hið opinbera hafi mjög lítið gert af því eða eins lítið og unnt er — að greiða fyrir atvinnuþátttöku fatlaðra. Ég man það frá því í umr. fyrr í vetur að þá komu þessar upplýsingar einnig fram þegar hv þm. Geir Gunnarsson spurði um það sérstaklega hér vort það yrði ekki gert, svo sem eru bein ákvæði um, að þegar störf væru auglýst á vegum hins opinbera þau sem fatlaðir gætu tekið að sér, þá væri þess getið sérstaklega í auglýsingunni að þeir ættu þar forgang.

Það var líka dapurlegt, sem kom fram á þessari ráðstefnu, hversu lítið er vitað um fjölda fatlaðra sem gætu unnið ýmis störf ef þau væru tiltæk og fyrir þeim séð. Um þetta vantaði upplýsingar frá öllum stöðum á öllum svæðum á landinu utan Reykjavíkur og í Reykjavík voru m.a.s. langt í frá tæmandi upplýsingar um þetta þó að þar hafi lengst og best verið unnið að þessum málum. Á Reykjanessvæðinu var um töluverðar upplýsingar að ræða, en á öllum hinum svæðunum var um bráðabirgðatölur að ræða sem voru handahófskenndar svo ekki sé meira sagt. Einna skást var þetta þó á Norðurlandi eystra, en átti þó alveg sérstaklega við Akureyri, enda hefur félagsskapur fatlaðra á Akureyri unnið sérstaklega gott starf í þessum efnum.

Atvinnuleit og vinnumiðlun á Reykjavíkursvæðinu er hvergi nærri í því fari sem vera skyldi. Það varð mér best ljóst, þegar ég átti tal við hinn nýja deildarstjóra svæðisstjórnar hér eða öryrkjadeildarinnar í Reykjavík, Ástu B. Schram, sem er gífurlega fær starfskraftur og vinnur af mikilli samviskusemi, hversu illa er búið að þessum þætti þar sem henni er í raun einni ætlað að sjá um atvinnuleit og vinnumiðlun á þessu stóra sviði — með að vísu kannske einhverri aðstoð annarra, en meginþunginn hvílir á herðum þessa eina starfskrafts.

Hér hefur að vísu verið lofsvert starf unnið og ég vil geta þess alveg sérstaklega hér. Skóli fatlaðra hefur verið í gangi, eins og menn þekkja, og þar haf bæði Öryrkjabandalagið og Rauði krossinn unnið umtalsvert starf og Rauði krossinn m.a. alveg sérstaklega tekið þátt í því að styrkja tölvunámskeið fyrir fatlaða, tölvunámskeið sem hafa verið alveg sérstaklega vel sótt. Þess ber einnig að geta að Skóli fatlaðra hefur verið styrktur af hinu opinbera, en það hefur verið undir hælinn lagt hverju sinni hversu mikill sá styrkur hefur verið og hversu vel hefur verið þar að verki staðið.

Við flm. teljum hins vegar að stjórnvöld eigi hér skyldu að gegna og þeim beri að sinna þeirri skyldu og rækja hana, ekki bara til framtíðarheilla fyrir á einstaklinga sem hér gætu öðlast nýja lífssýn, ef svo mætti að orði kveða, heldur ekki síður þjóðfélaginu því að það kom fram á þessari ráðstefnu að í beinhörðum tölum talið er þjóðhagsleg hagkvæmni þess að útvega fötluðum vinnu við hæfi ótvíræð og þarf reyndar engan hagfræðispeking til að segja sér þá einföldu hluti.

Réttur fatlaðra er betur lagatryggður nú en áður með löggjöfinni um málefni fatlaðra. Það er aðeins í svo mörgu, eins og í fleiri greinum, sem á skortir um framkvæmd. Hér er vissulega ein brotalömin, kannske ein sú alvarlegasta, sem úr þarf að bæta. Mikilvægi starfsins fyrir hvern og einn er ótvírætt og ekki síður fyrir þá fötluðu sem oft hafa ekkert að gera og eru auk þess í of mikilli einangrun. Hin nýja tækni á að skapa þeim möguleika. Þá möguleika þarf að nýta til fullnustu. Þar kemur tölvan sem tæki hinna fötluðu til þess að hasla sér völl á vinnumarkaðnum. Því þarf hér aðgerðir sem duga. Því er till. þessi flutt.

Ég legg svo til, herra forseti, að að loknum þessum hluta umr. verði þessari till. vísað til hv. allshn.