20.02.1985
Efri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

281. mál, hagnýting Seðlabankahúss

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég er flm. og stuðningsmaður þessarar till. — Ég vil líka bæta við orð síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Austurl. Menn byggðu þá ekki fyrir ágóða af verðbólgu. Menn byggðu fyrir raunverulega peninga.

Hv. 5. þm. Vesturl. fræddi okkur um notkun þessarar byggingar. Til allrar hamingju er ég búinn að átta mig á því að það hefur ekkert breyst frá upphaflegum ásetningi. Áfram verður 1/3 byggingarinnar bílageymsla, 1/3 þessarar byggingar, ef rúmlega er áætlað getur kallast skrifstofa Seðlabankans og 1/3 er rými til annarra nota.

Ég er þeirrar skoðunar, sem hv. frsm. þessarar till. Eyjólfur Konráð Jónsson lýsti, að hlutverk Seðlabankans beri að takmarka frá því sem nú er. Hv. 5. þm. Vesturl. saknaði þess að lýst væri skoðun á hlutverki Seðlabankans. Einkum virtist hann hafa áhyggjur af því að Seðlabankinn og starfsemi hans væru notuð sem einhvers konar blóraböggull í pólitískri umræðu. Ég er ekki þeirrar skoðunar að Seðlabankinn beri í einu eða öðru ábyrgð á hlutverki sínu. Það eru stjórnmálamenn sem gera það. Það eru ríkisvald og Alþingi sem bera ábyrgð á gerðum Seðlabankans. Og ég vil andmæla því, sem kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl., að forstöðumaður þessarar stofnunar hafi náð til sín völdum. Það er alls ekki rétt. Völdin hafa verið honum gefin og rétt að honum af stjórnmálamönnum. Hann hefur ekki sölsað þau undir sig. Þeim hefur beinlínis verið troðið upp á hann. Og ég er ekkert viss um að hann hafi ýkjamikið sóst eftir þeim.

Ég tel að þeirri tilraun sem þetta tæki þjónar, þ.e. Seðlabankinn, sé lokið. Hún var okkur gífurlega dýr og kostnaðarsöm. Við verðum lengi að ná okkur eftir þessa tilraun. En tækið hefur sýnt að það dugar ekki. Ofstjórn er sama sem óstjórn og árangur sama sem núll. Það er ekki rétt, sem hv. 5. þm. Vesturl. vildi halda fram, að þetta tæki hafi þjónað tilgangi. Ef horft er til þeirra undirstöðugreina sem þessi banki hefur ekki hvað síst þjónað í gegnum afurðalánakerfið og gegnum þjónustu sína við fjárfestingarlánasjóði, þá blasir við sú staðreynd að tveir af aðalatvinnuvegum Íslendinga eru á heljarþröm. Það er ekki vegna þess að varan, sem framleidd er, seljist ekki. Hún selst. Það er markaður fyrir hana. Það er vegna þess að þær fjárfestingar sem í þessari atvinnugrein liggja skila ekki þeim arði sem til er ætlast. Við fáum ekki hærra verð fyrir varninginn en raun ber vitni og þá hljótum við að verða að taka tillit til þess í okkar fjárfestingarmarkmiðum og fjárfestingarvinnu. Það hefur ekki verið gert. Það er ekki Seðlabankanum sem slíkum að kenna. Það er alveg hárrétt. Hann er bara tækið. Menn mega eiga þrjár tilgátur að því hverjum það er að kenna. Það getur verið í fyrsta lagi stjórnmálamönnum að kenna, í öðru lagi stjórnmálamönnum að kenna og í þriðja lagi stjórnmálamönnum að kenna. Ég gef ekki aðra möguleika. Það sem flm. þessarar till. eru að leggja til er að þetta tæki, þessi freisting nánast, verði tekin frá stjórnmálamönnum, kaleikurinn hverfi.