20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

230. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þetta frv. nú við 1. umr. enda fer það að sjálfsögðu til nefndar og verður skoðað þar vandlega.

Hér er um að ræða frv. til l. um breyting á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Það er áhugamál hv. flm. að fá fellda úr lögunum síðustu málsgr. 3. gr. Þessi málsgr. mun hafa komið inn í lögin á árinu 1972 svo að það er þegar hægt að benda á nokkra reynslu af þeirri löggjöf.

Gegn þeim rökum, sem hv. fim. færði fram er hann hélt framsöguræðu sína hér áðan, vil ég þó aðeins minnast á það að ég held að það hljóti að vera frumregla eða grundvallarregla þegar rætt er um fasteignaskatta að á allar fasteignir, sem metnar eru í fasteignamati, skuli leggja skatt til sveitarfélags þar sem fasteignin er. Sjálfsagt er að hafa þessa meginreglu í huga.

Hv. flm. gat þess og að því er vikið í grg. að þessi skattur verði óbærilega hár í framkvæmd. Ég hef ekki heyrt miklar sögur fara af því, enda ber að hafa í huga að ákvæði um fasteignaskatta og álagningu eru mörg í heimildarformi þannig að þeir sem leggja skattinn á og innheimta geta haft það nokkuð í hendi sér hvað hann verður hár og hversu hann er innheimtur. Enda geri ég ekki ráð fyrir því að það sé höfuðviðfangsefni og leiðarljós þeirra aðila sem við þessi störf fást að féfletta þann aðila sem á þessi hlunnindi. Ég hef ekki þá reynslu a.m.k., hún er mér ekki handbær eða hugstæð, að það hafi verið farið illa með skattgreiðendur í þessu falli. Hins vegar ber náttúrlega að geta þess að varast ber alla tvísköttun í þessum efnum sem öðrum.

En það er ekki hægt annað en að benda á að þetta er mál sem varðar sum sveitarfélög landsins mjög miklu og verður þess vegna að halda á því með gætni. Og ég tel fara mjög vel á því að sú nefnd sem athugar þessa löggjöf í heild skoði þetta mál vandlega.

Að því er varðar þau rök að þessi álagning á þessi hlunnindi kunni að draga úr áhuga manna á fiskirækt þá kannast ég ekki við það. Ég þekki marga mikla áhugamenn um fiskeldi og fiskirækt sem hafa lifað og starfað síðan þessi lagagrein kom í gildi árið 1972. Og áhugi þeirra er mikill enn í dag. Ég læt svo þessi orð nægja um málið að sinni.