20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

230. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð hér að lokum í þessari umr. Ég vil taka undir þau orð hæstv. félmrh. hér áðan að það er eðlilegt að þetta mál verði skoðað af þeirri nefnd sem nú er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Það var alveg réttmæt ábending. Að því er varðaði ábendingu hans um könnun á heildartekjum sem þessi hlunnindaskattur hefur aflað sveitarfélögum þá er það því miður ekki svo að þær upplýsingar liggi á lausu eins og hann taldi, og þá hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það var sérstaklega kannað af flutningsmönnum þessa frv., bæði hjá skattayfirvöldum og hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, hver væri upphæð þessa skatts, því að eins og hann vék réttilega að þá er það mikilvæg efnisástæða í þessu máli. Svörin voru einfaldlega þau að engar upplýsingar væru fyrir hendi um upphæð þessa skatts.

Að því er varðar orð hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur þá get ég tekið undir margt sem fram kom í hennar máli. Hún flutti hér glögga og að mörgu leyti góða ræðu eins og hv. þm. var von og vísa. En ég vil þó aðeins undirstrika það, sem mér fannst kannske ekki koma alveg nóg fram í hennar máli, að tilgangur þessa frv. er ekki sá í sjálfu sér að minnka tekjur sveitarfélaga eða hreppa landsins. Ég undirstrika það, og gerði það í minni framsöguræðu, að það bæri frekar að finna leiðir til þess að auka tekjur sveitarfélaganna, ekki síst minni sveitarfélaga. Frv. miðar einfaldlega að því að koma í veg fyrir þá mismunun þegnanna sem í 3. gr. laganna felst. Það kæmi vel til mála að athuga það í þingnefnd hvort ekki bæri að gera þennan hlunnindaskatt, sem nú er mjög mismunandi skattur, að almennum skatti á alla hlunnindaeigendur. Þá væri ekki um neina mismunun þar að ræða og það mundi auka tekjur sveitarfélaganna. Ég hygg að flutningsmenn yrðu ekki andvígir slíku. Yfirfasteignamatsnefnd telur, og það var ágreiningslaust og engu sératkvæði skilað, að við það jaðraði að þetta ákvæði tekjustofnalaganna brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég held að við getum ekki afgreitt það álit eða þann úrskurð án þess að staðnæmast örlítið betur við hann. Hér er ekki um það að ræða, ætlun flutningsmanna er ekki sú, að draga almennt úr tekjum sveitarfélaga. Ég hygg að þeir mundu fúsir til þess að standa að auknum tekjum sveitarfélaga en þá í mynd skattlagningar sem kæmi jafnt og réttlátlega niður á alla þá skattþegna sem hér eiga hlut að máli.