23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þetta eru orðnar æðilangar umr. og ég ætla einungis að gera tvö atriði að umtalsefni. Annars vegar ætla ég að tala um þá staðhæfingu hæstv. forsrh. að sú leið sem ríkisstj. er að fara í sambandi við samninga núna sé sú að hafa ekki afskipti af samningum. Ég er algerlega á öðru máli. Ég tel að einmitt með því að leggja ekki fram ákveðnar tillögur sé stjórnin að gera sig ómissandi í öllum samningaumleitunum, hvort sem er á frjálsum markaði eða opinberum, vegna þess að með þessu fyrirkomulagi geta samningsaðilar ekki fótað sig. Þeir vita í raun og veru ekkert um hvað þeir hafa að semja nema standa í stöðugu sambandi við ríkisstj. Með þessu fyrirkomulagi er ríkisstj. að hafa afskipti af samningum upp á hvern einasta dag. Hún er orðin órjúfanlegur þáttur af samningaumleitunum. Það er staðföst skoðun mín.

Í öðru lagi ætla ég að gera að umtalsefni að ég tel það mjög miður að nú skuli sjálfsagðar aðgerðir í skatta- og húsnæðismálum vera orðnar innlegg inn í kjaradeilur. Það hefur oftsinnis komið fram, bæði á þinginu nú, á síðasta þingi og á mörgum undanförnum þingum, að samstaða er um það meðal allra stjórnmálaflokka að einhverjar mestu uppsprettur óréttlætis í landinu eru skatta- og húsnæðismál. Það er sama hvorum megin menn hafa verið við stjórnarborðið, hvort menn hafa verið í stjórn eða utan stjórnar. Menn hafa annaðhvort lofað úrbótum í húsnæðis- og skattamálum eða gagnrýnt aðgerðarleysi hins aðilans. Augljóst er af öllum þessum umr. að óumflýjanlegar eru ákveðnar almennar aðgerðir í sambandi við skattamál og húsnæðismál. Þingið og stjórnin eiga að hafa vit á því að hafa sjálf skoðun á því og eigið frumkvæði til að gera það sem gera þarf en láta ekki draga það upp úr sér með töngum sem skiptimynt til þess að ná fram einhverjum markmiðum í sambandi við launapólitík. Ég tel að þetta sé mjög miður.

Það var löngu ljóst, bæði af umr. á þingi s.l. vor og af því hvernig markmið ríkisstj. setti sér í launamálapólitík, að skattamál og húsnæðismál hlytu að verða stórmál hérna í haust. Það urðu líklega meiri umr. um niðurfellingu tekjuskatts á s.l. þingi en nokkru sinni áður. Þá urðu líklega meiri umr. s.l. vor en nokkru sinni áður um fjármál húsnæðislánakerfisins og það hvernig að húsbyggjendum þessa lands væri búið. Það hlýtur þess vegna að hafa legið fyrir hjá ríkisstj. að það kæmi að því að hún yrði krafin skoðana og krafin aðgerða í þeim málum. Hins vegar kemur fram í ræðum hér að það hafi verið fyrst um miðjan sept. sem hún kallaði menn fyrir sig og þá til þess að gefa einhverja almenna umræðupunkta. Þetta kallast alls ekki sú fyrirhyggja og er ekki sú stjórn sem maður skyldi halda að ríkisstj. vildi hafa á málum. Mér sýnist því, eins og málið stendur í dag, að það sé stórkostlegt dæmi um algera vanhæfni ríkisstj. þegar menn eru í þriðju viku verkfalls opinberra starfsmanna að velta fyrir sér almennum umræðupunktum um hvernig hægt sé að breyta skattheimtu hérna um kannske 1000 milljónir. Það ber því allt að sama brunni með þessi atriði.

Svo ég taki þessi atriði saman tel ég í fyrsta lagi að afskipti stjórnarinnar af samningamálum eins og þau eru núna, þ.e. að gefa ekki upp neinar ákveðnar línur, hafi þau áhrif að hún verður ómissandi í samningastarfinu og hefur þar með bein afskipti af samningunum.

Í öðru lagi tel ég alls ekki við hæfi að úrbætur í þessum stórkostlegu réttlætismálum í íslenskri pólitík, þ.e. úrbætur í skatta- og húsnæðismálum, séu innlegg inn í samningaþref á þessum haustdögum.

Í þriðja lagi tel ég óviðunandi að ríkisstj. skuli vera gripin í bólinu á þann hátt að í þriðju viku verkfalls(Gripið fram í: Fjórðu.) eða jafnvel fjórðu viku verkfalls þurfi menn að setjast niður og fara að spekúlera í því hvernig þeir geti minnkað skattheimtu um 1400 millj. Það er gersamlega óviðunandi. Það mætti af þessari ástæðu einni hafa hérna vantraustsumræðu, en ég geri ráð fyrir að væntanleg vantraustsumræða muni fjalla um fleiri mál.

Ég vil að síðustu segja að það er skoðun okkar Bandalagsmanna að ríkisstj. eigi ekki að hafa afskipti af samningum. Það er þó orðið svo vegna skatta- og húsnæðismála og vegna þess að verkfallið dregst á langinn og málið er komið í sjálfheldu að óumflýjanlegt virðist að ríkisstj. leggi fram almennar tillögur um hvað hún og hennar þingflokkar hyggist og vilji og muni gera í þessum efnum. Við eðlilega stjórnarhætti hefðu þessir hlutir átt að liggja fyrir s.l. vor í síðasta lagi, þannig að aðilar vinnumarkaðarins hefðu getað gengið út frá þeim almennu aðgerðum í þessum réttlætismálum og gert frjálsa samninga eins og frjálsir menn í sumar.