21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

168. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það þurfa ekki að vera mörg orð í framhaldi af þeirri ítarlegu framsöguræðu sem hér hefur verið flutt fyrir þessu máli. Ég vil þó ítreka það og taka undir að rannsóknir á þessu sviði hafa þrátt fyrir ýmis átök í því efni verið allt of litlar og fjármagn það sem Vegagerð ríkisins hefur haft á hverjum tíma til að sinna þessum verkefnum hefur vitanlega verið af ærið skornum skammti, allt of naumt til þess skammtað, kannske ekki einungis varðandi jarðgangagerð heldur almennt varðandi lausnir í vegamálum hinna einstöku byggðarlaga. Þar hefur það fjármagn, sem Vegagerðin hefur haft til ráðstöfunar til rannsókna og athugana, verið allt um of lítið.

Inn á hina nýju tækni í þessum málum hefur verið rækilega komið og hana þurfum við vitanlega að hagnýta okkur þar sem tök eru á. Ég man eftir því að þegar ráðist var í Oddsskarðsgöngin á sínum tíma álitu margir að ekki mundi það skipta sköpum þar, en engu að síður gerði það þó það. Þar var margt unnið þannig að af vanefnum var gert. Rannsóknir höfðu ekki verið nægar og annað því um líkt sem olli því að verkið fór býsna mikið fram úr áætlun og skerti vegáætlun okkar á Austurlandi um langan tíma af þeim ástæðum hversu það verkefni var fjárfrekt. Ástæðan fyrir því var vitanlega sú að Vegagerð ríkisins hafði ekki haft tök á því eða aðrir aðilar að gera nægilega vandaðar athuganir á þessu máli áður en í það var ráðist. En munurinn á samgöngum við þetta byggðarlag er vitanlega gífurlegur og ótrúlegur miðað við það hvað hæðarmunur á Oddsskarðsgöngunum og Oddsskarðinu sjálfu er lítill. Það er það undraverðasta. En það þekkjum við sem erum staðkunnugir eystra að þetta hefur gjörbreytt samgöngum við þetta byggðarlag yfir vetrartímann.

Áhugi á þessu máli eystra er virkilega mikill. Menn eru hins vegar jafnsammála því þar að málefni eins og jarðgöngin í Ólafsfirði eigi að hafa forgang, enda ekkert á okkar borðum þar eystra sem er komið neitt nálægt verkefni því sem þar um ræðir. Sumir hafa tekið það upp hjá sér nokkurn veginn sem heimaaðilar að láta kanna möguleika á jarðgöngum, svo sem þeir Fáskrúðsfirðingar hafa gert — að vísu með góðri aðstoð Vegagerðar ríkisins. Þeir hafa unnið vel að þessu og fengið til liðs við sig færa menn til að kanna hvaða möguleikar væru á því að stytta leiðina þaðan og til miðsvæðisins.

Á þinginu í fyrra var flutt till. af hv. 2. flm. þessarar till. nú, Sveini Jónssyni, till. um athugun á jarðgangagerðinni miklu, sem menn kalla svo fyrir austan, þ.e. þeirri áætlun sem löngum var kennd við þá bæjarstjórana á Seyðisfirði og Neskaupsstað, Jónas Hallgrímsson og Loga Kristjánsson, sem voru miklir áhugamenn um jarðgöng þar á milli sem tengdi það svæði. Sumir sögðu að sú áætlun hefði e.t.v. að megintilgangi að koma Mjóafirði og þar með þeim heiðursbónda sem þar býr nú í almennilegt vegasamband í ellinni. Hins vegar er nokkuð öruggt að framtíðin á eftir að sýna að þetta er alls ekki óraunhæfur möguleiki þó að hann komi seinna í röðina en menn, sem allra bjartsýnastir voru og allra framtakssamastir voru um þetta, vildu vera láta í upphafi.

Á Vopnafjarðarleiðina til Héraðs var minnst áðan. Þar er áhugi heimamanna vissulega mikill. Þar hefur þó fengist nokkurt rannsóknafé og verið unnið fyrir það.

Þar þarf vitanlega að huga að fleiri leiðum en jarðgangagerð, eins og reyndar var komið inn á áðan. Það er ekki endilega víst að það sé sú lausn sem byrjað verður á, en framtíðarlausn verður það eflaust með tímanum.

Ég vildi aðeins koma því hér á framfæri að þó að við höfum ekki, þm. Austurl., lagt áherslu á það í sambandi við langtímavegáætlunina að fá jarðgöng á Austurlandi viljum við láta athuga til langs tíma alla möguleika sem gætu orðið til að auðvelda samgöngur milli byggðarlagana þar og gera það svæði að einni samfélagslegri heild enn frekar en nú er.