11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það var ætlan mín að andmæla hér í upphafi 1. þm. Suðurl., Þorsteini Pálssyni, en rás atburðanna er á þann veg að það verða mín fyrstu verkefni að taka undir upphafsorð ræðu hans áðan. Þau voru eitthvað á þá leið að þegar svona deilur skyllu yfir væri mikilvægast að greina aðalatriðin frá aukaatriðum, halda ró sinni og halda sig við það hvort hægt væri að ná samningum eða ekki samningum, en ekki að láta teygja sig í hita dagsins frá því sem harðast væri um deilt. Eitthvað á þessa leið voru ummæli hans.

Ég held að það verði aldrei ofbrýnt og ekki síst fyrir ríkisstj. að þegar svona deilur geisa, upp koma hvers kyns ágreiningsmál, skiptar skoðanir um framkvæmd verkfalla, sé um að gera að halda ró sinni, halda óskertri skynsemi og reyna að halda sér við aðalatriðin. Það hefur leitað á mann stundum að ríkisstj. og einstaka valdsmenn, fleiri en einn og fleiri en tveir, væru í hálfgerðum bófahasar, eins og kallað var í minni bernsku, við verkfallsmenn. Það væri stundum meiri áhersla lögð á það að deila um einstök framkvæmdaatriði en ganga í að reyna að ná samningum. Mér virðist deilan hafa leiðst ákaflega mikið út á þessar brautir.

Það er ekki nóg að halda ró sinni. Þegar harðast er deilt og mest á gengur er um að gera að vera nógu yfirvegaður. Án þess að fara að segja af mér eða félögum mínum einhverjar frægðarsögur minnist ég þess að fyrir — ja, líklega meira en 20 árum geisaði hér geysilega harðvítugt verkfall, þetta er nú meinlaust á móti því, og við stóðum frammi fyrir því að Loftleiðir, sem þá voru hálfgert óskabarn þjóðarinnar, voru í samkeppni við SAS. Við gátum löglega stöðvað Loftleiðir, höfðum til þess öll óumdeilanleg lög.

Jú, við hugleiddum málið mikið. Flugvélar frá SAS biðu í Kaupmannahöfn, biðu í New York, voru búnar að raða sér þar upp á flugvelli. Mitt í hörkudeilu tókum við þá ákvörðun að við skyldum hleypa Loftleiðum í gegn. Að vísu kostaði þetta hörkudeilur og ég og Eðvarð heitinn Sigurðsson lentum í mikilli rimmu við okkar góðu félagsmenn. Rök okkar voru þau að ef Loftleiðir, þetta óskabarn þjóðarinnar sem þá var, mundu fara á hausinn mundi Verkamannafélagið Dagsbrún sennilega ekki rísa undir því að vera banamaður.

Svona þarf oft að taka á hlutum geðshræringalaust, æsingalaust og ekki alltaf með hótunum og sætleika valdsins. Á milli deiluaðila þarf að vera ákveðið samband. Nú ætla ég ekki að fara að taka að mér að kenna BSRB eða ríkisstj., en ég verð að segja að mér virðist þessi vika eða tíu dagar hafa allt of mikið snúist um þetta, minna um það að ganga í það að leysa hina raunverulegu deilu.

Ég minnist þess að í sumar þegar Verkamannasambandið samþykkti sínar kröfur var einn inngangspunktur sem ályktunin byrjaði á og endaði á: Verkamannasambandið mun meta verðlækkanir til jafns við kauphækkanir. — Þetta hefur ríkisstj. haft fyrir framan sig síðan í júní. Hún hefur vitað að einn helsti aðilinn á vinnumarkaðinum var reiðubúinn að meta verðlækkanir til jafns við kauphækkanir og henni hefði verið í lófa lagið að hefja viðræður þar um.

Hvað gerði ríkisstj.? Verðlag héli áfram að stíga. Svo talar hæstv. sjútvrh. um að kaupmáttarskerðing á árinu 1983 hafi verið 12%. Hverjum ætlar hæstv. sjútvrh. að trúa þessu? Það er óumdeilt að skerðing á kaupmætti kauptaxta var milli 25 og 30%. Þetta er kannske dæmi um hvernig komið er nú fyrir ríkisstj. Í upphafi, eins og margoft er búið að taka fram í þessum umr., hafði hún blásandi byr. Ég efast um að nokkur ríkisstj. hafi nokkru sinni getað leikið það að fara í jafngrófar og miklar skerðingar og hún komst upp með. Ég skal alveg fúslega viðurkenna að það var við töluvert mikinn vanda að eiga. En þessi vandi var leystur ákaflega einhliða. Hann var leystur fyrst og fremst á kostnað launafólks og að nokkru leyti var hann leystur líka á kostnað sjávarútvegs.

En ríkisstj. virðist ekkert hafa áttað sig. Hún virðist hafa lifað í sínum hugarheimi. Ráðh. hafa talið hver öðrum trú um að allt væri í stakasta lagi, verðbólgan væri á niðurleið á sama tíma og kaupmáttur fólks minnkaði, á sama tíma og vextir hækkuðu, á sama tíma og fólk, almenningur, og ekkert síður úr Sjálfstfl., gat ekki staðið undir þeim fjárskuldbindingum sem dundu yfir það. Og þegar þeir standa núna frammi fyrir verkfallsfólki, og það er kannske dæmi um hvað þetta er allt vanmetið, þá eru það kommúnistar sem stjórna þessu öllu.

Ég verð að segja að ég vildi að satt væri. Ég er ákaflega hræddur um að meðal þessa ágæta og indæla fólks sem nú er í verkfalli sé hlutfallslegt fylgi Sjálfstfl. kannske ekki ósvipað fylgi Sjálfstfl. í landinu öllu. Og ef þið ætlið að berjast við þessa fylgismenn ykkar undir þeim vígorðum að þetta séu kommúnistar — (Gripið fram í: Þetta eru kennarar.) Ég tala nú ekki um kennara. — þá bara í guðs bænum haldið áfram.

Svona er ekki hægt að líta á þessi mál. Ríkisstj. má ekki afneita einföldustu staðreyndum og hún má ekki einangra sig frá þjóðfélaginu eins og hún gerir á þennan hátt. Sannleikurinn er sá að ég held að það skipti engu máli hvar viðkomandi maður er í flokki. Ég held að menn eigi alls staðar við sömu erfiðleikana að etja. Og slíkt verkfall er ekki hægt að drífa upp af einhverjum samsærishóp. Það er særð réttlætiskennd og jafnframt er þrengt á þann hátt að fólki, sem sér auð allt í kringum sig, að það rís upp til þessara aðgerða. Þess vegna er tími til kominn að takast á við þessi vandamál.

Ég held að það sé rétt, sem Þorsteinn Pálsson var að segja efnislega, að það sé eðli slíkra deilna að þær stigmagnast. Ef ekki er reynt að leysa þær í tíma harðna þær, verða illvígari og illleysanlegri. Þess vegna held ég að ríkisstj. ætti nú að fara að gefa sig að því.

Aðeins örfá orð áður en lengra er haldið og ætla ég þá að bregða mér út fyrir landsteinana.

Ég var spurður að því af greindum manni fyrir tæplega ári hvernig í ósköpunum á því stæði að þjóðartekjur Íslendinga á mann væru ekki ósvipaðar og á Norðurlöndum, Danmörku, Noregi, Svíþjóð. Noregur hefur nokkra sérstöðu vegna olíuauðs á seinni árum. Verkamannakaup t.d. í Danmörku er litlu lægra í krónutölu en á Íslandi, en þó er danska krónan reiknuð á um 3 krónur. Í Noregi meira og í Svíþjóð heldur meira en í Danmörku-Noregur er að vísu þarna með nokkra sérstöðu — og Finnar eru nokkru neðar. Ég ætla ekki að fara að skilgreina það hér í stuttri ræðu.

Hvernig stendur á því að verðlag skuli vera svipað og síst lægra hér en á öðrum Norðurlöndum, kaup a.m.k. helmingi lægra, skattar að vísu hærri á Norðurlöndum? Hvað er það í íslensku þjóðfélagi sem hirðir þennan gífurlega mun ef þjóðartekjur á mann eru þarna nokkuð svipaðar? — Það er að vísu meira hlaup í íslenskum þjóðartekjum.

Ég held að menn verði að átta sig á hvað Íslendingar ná þessu að nokkru leyti með óheyrilegri yfirvinnu. Þeir vinna þetta 10, 12 og 14 tíma, ótrúlega margir. Síðan kemur annað: Það var álitið lengi vel að í Danmörku væru flestar giftar konur sem ynnu utan heimilis eða um 60%. Á Íslandi eru þetta 75%. 75% giftra kvenna vinna utan heimilis. Og hvað vinna þessar konur? 75–80% er vinnuaflið í frystihúsunum. Ef þessar konur gengju af vinnumarkaðnum — sama er að segja um iðnaðinn eru allar höfuðatvinnugreinar þjóðfélagsins stöðvaðar. Þessar konur, margar hverjar, vinna í kaupaukakerfi, bónus, í kannske 8–10 tíma. Spurningin er sú hvort þarna sé ekki allt of langt gengið, vinnuþrældómurinn sé þarna ekki allt of mikill. Við í Verkamannasambandinu erum að deila um þessar konur m.a. og ég held að það sé nú algjör óþarfi að telja eftir kaupið þeirra.

Þetta þýðir að við höfum miklu fleira af fólki úti á vinnumarkaðinum, í vinnu. Síðan kemur skólafólkið sem vinnur, að vísu ekki jafnalmennt og áður var en þó yfirgnæfandi meiri hluti. Kringum allt land eru frystihúsin rekin á vinnuafli skólafólks yfir sumarið. Hverfandi atvinnuleysi er á móti því sem er á Norðurlöndum.

Þegar svona gífurleg þátttaka er í atvinnulífinu og þjóðartekjur á mann eru jafnmiklar og í nágrannalöndum okkar, hvað verður þá um mismuninn? Fjárfestingar, segir einhver. — Ja, fjárfestingar treysti ég mér hreinlega ekki út í því að það er að hleypa sér út í ófærur og dý. Ég held þó að það sé einn þátturinn. En ég held að það þurfi að gera þarna verulega úttekt á íslensku þjóðfélagi. Ég held að almenn laun séu það lág miðað við framleiðslu, miðað við vinnu, að það sé hreinlega ekki eðlilegt.

Ef við förum örstutta hringferð um landið og drepum niður fæti á einstaka stað, hvað er það þá sem einkennir þjóðfélagið að undanförnu? Það sem einkennir þetta þjóðfélag að undanförnu er það að víða úti á landsbyggðinni og víða í hinum gróskumestu sjávarplássum á landsbyggðinni er farið að kalla þessa staði — ég var dálítið undrandi þegar ég heyrði þetta fyrst — gámapláss. Mér varð að orði: Hvað er gámapláss? Jú, það eru gámar við áttunda hvert hús vegna þess að fjölskyldan er að flytja suður. Ég er hræddur um að þau séu að flytja „suður“ af Akranesi þar sem að staðaldri eru um eða yfir 100 manns á atvinnuleysisskrá. Það hefur fækkað um upp undir 100 manns í Borgarnesi, en þar var mjög erfitt að fá íbúðir. Ég held að það séu þar um 40 íbúðir til sölu. Förum austur á land. (Gripið fram í: Þú sleppir Stykkishólmi?) Ég sleppi Stykkishólmi, ég held að það sé nokkuð í lagi þar. En ef við förum austur á land, þá er mér sagt að á Eskifirði, — þar sem hefur verið gróska, mikil framleiðsla, gífurleg vinna, — sé hlegið að manni nokkrum í byggðarlaginu það er indæll og sómakær maður, því að hann átti sig ekki á tímunum og sé að byggja hús, aumingja maðurinn, en það séu bara 30 íbúðir til sölu og það geti enginn selt.

Áttar ríkisstjórnin sig á hvað raunverulega er að ske? Það má deila um landsbyggðarstefnu. Við getum deilt um hvort það eigi að byggja höfn í Bakkafirði fyrir 80 millj. sem verði kannske farin árið eftir o.s.frv., hvort togari eigi að vera á þessum stað eða hinum, en ég held að við getum ekki deilt um að það verður engin gæfa fyrir þetta þjóðfélag að þar sem framleiðslan er ótrúlega mikil og fólk hefur unnið myrkranna á milli séu byggðarlög yfirgefin og að fólk flýi frá framleiðslunni og flytjist á stór-Reykjavíkursvæðið. Þetta er að vísu mjög misjafnt. Sums staðar er atvinnan sæmilega góð. Annars staðar er hún mjög óörugg og yfirleitt er það einkenni að trú fólks á byggðarlagið og framtíðina fer þverrandi og það heldur að gæfan sé hér fyrir sunnan.

En þó ekki sé nú aldeilis allt í lagi í Reykjavík, þar sé mikið af fólki með lág laun, óhóflega lág laun, er þó hitt staðreynd að einhverjir dularfullir hlutir hafa gerst. Ekki einungis að það eru 10–15 stórhallir sem rísa upp, opinberar byggingar, hálfopinberar og í einkafyrirtækjum. Verslun og þjónusta hafa aldrei grætt meira. Út af fyrir sig er alrangt að verið sé að brigsla hverjum kaupmanni um að hann sé einhver glæpamaður. En mikið óhemju er arðvænlegra að stunda verslun og þjónustu á einhverju sviði á Reykjavíkursvæðinu en í kjördæmi Þorsteins Pálssonar með atvinnuleysi á Selfossi yfir 100 manns árið um kring. Maður talar nú ekki um þegar farið er nær sjónum þar í sveit.

Við skulum ekki halda okkur við einhvern einn stað eða eitt kjördæmi. Í Reykjavík hafa aldrei risið upp fleiri byggingar. Þetta er ákaflega gott í sjálfu sér. En það er eitt sem er einkennandi. Það er að það hafa aldrei verið byggð stærri eða fleiri einbýlishús. Nú er ekkert við það að athuga að byggð séu einbýlishús og fjöldinn allur af því fólki sem það er að gera er sómakært heiðursfólk. En það undarlega er að ótrúlega mikið af þessu fólki, sem er að byggja 200, 300–400 fermetra, er skattlausir öreigar. Og hvað segir hinn almenni maður sem fær skattana sína? Ef dráttarvextir eru ekki borgaðir á réttum tíma eru uppi hótanir um lögtök eins og landslög kveða á um, eins og tíska er að segja í dag, en margir hverjir sem eru að byggja þessar stóru milljónahallir hér, stóru einbýlishúsin, hluta af þeim, eru skattfrjálsir. Þetta var klaufaskapur með stigahlíðina. Það var dregið augnablik frá tjaldið og þá sást í nokkra bláfátæka aumingja, en ef því væri nú svipt frá, tjaldinu, mundi margur verða hissa.

Opinberir starfsmenn horfa á þetta. Þeir horfa á mörg af þessum fyrirtækjum í verslun og þjónustu. Þorsteinn Pálsson kom inn á það — við erum farnir að verða ískyggilega sammála — að það væri misgengi á milli atvinnugreina. Þetta er rétt. Í fjölmörgum atvinnugreinum og fjölmörgum fyrirtækjum eru yfirborganir þetta 10, 20, 30, 40–50%. Í sumum tilfellum undir borðið. Vitanlega særir þetta réttlætistilfinningu þeirra sem verða og eiga að gefa upp alla sína peninga til skatts og haldið er niðri, eins og sagt er í daglegu máli, á strípuðum töxtunum. Þarna er komið þvílíkt ósamræmi á milli sem vekur þvílíka gremju.

Ég ætla að segja eitt örlítið dæmi. Mér var kunnugt um að auglýst var eftir deildarstjóra hjá einkafyrirtæki. Það var reyndar ekki einkafyrirtæki, en það var ekki opinbert fyrirtæki heldur. 23 sóttu um þetta deildarstjórastarf. Þar af voru 22 kennarar. Er þetta algjör tilviljun? Þarf nú ekki eitthvað að kíkja á þessa hluti? Er nóg að kalla: kommúnistar, kommúnistar? Ég held ekki.

Ég ætta að segja örfá orð um skatta sem eru hálfgert dýnamít þessa dagana. Ég ætla ekki að byrja á því að sýkna núverandi ríkisstj., heldur segja að meinið hefur grafið um sig miklu lengur og hún fann það ekki upp illu heilli. Það voru aðrir búnir að finna það upp á undan henni.

Um áratuga skeið hafa beinir skattar á Íslandi verið í hreinu ófremdarástandi. Þeir hafa yfirleitt verið að hækka og skattstigarnir hafa alltaf verið að verða almennu launafólki óhagstæðari. Þetta hefur yfirleitt gilt um allar ríkisstjórnir í um það bil 30 ár. Hæsti skattstiginn var upphaflega hugsaður fyrir einhverja Rockefellera, 200 manns eða svo. Þetta lendir meira og minna á launafólki sem leggur og neyðist til þess að leggja á sig of mikla vinnu. Það er komið í 45–50% tekjuskatta. Slíkt var aldrei hugsunin með löggjöfinni á sínum tíma, en þetta hefur verið látið dragast aftur úr. Fólk sem leggur á sig mikla yfirvinnu lendir í þessum hátekjusköttum. Jafnvel þó að það sé ekki eru skattar háir. Ef það leggur á sig mikla vinnu er það komið í algeran vítahring. Á sama tíma hafa ríkisstjórnir ár eftir ár horft upp á ákveðnar starfsgreinar. — Ég tek það nú fram, til að ráðherrar verði kyrrir og stilltir í sætum sínum, að þetta á líka við fyrri ríkisstjórnir. -Þeir hafa horft upp á ákveðnar starfsgreinar dansa meira og minna fram hjá öllum sköttum án þess að gera nokkurn skapaðan hlut í því. Hversu oft sem hefur verið bent á það, þá virðist visna hver sú hendi sem eitthvað ætlar að reyna að gera í þessum málum, hvað sem veldur. Ég held að fólk sé orðið ákaflega þreytt og fullt af gremju því að allir þekkja slíka menn sem hljóta að hafa tekjur sem skipta hundruðum þúsunda, en eru meira og minna skattlausir meðan það sjálft er að stritast við að borga. Þetta held ég að sé ein ástæðan fyrir mótmælum almennings.

Síðan kemur söluskatturinn. Það gildir nú ekkert um þessa ríkisstj. Ég er orðinn helsti málsvari hennar hér. — Þetta er aðaltekjulind ríkisins. Menn eru að deila um hvort fjórðungurinn af söluskatti renni fram hjá ríkissjóði, hvort fimmtungurinn renni fram hjá honum eða sjötti partur. Eitt stig söluskatts gefur 350 millj. og söluskatturinn er 23.5 stig. E.t.v. rennur fimmtungur fram hjá. Það skal að vísu viðurkennt að nú er verið að ráða fólk til að ganga í þetta. Ég held að fyrirtæki mörg hver gangi bókstaflega á því að stinga söluskattinum í sinn vasa. Í sumum tilfellum verður þetta til þess að halda niðri eðlilegum atvinnurekstri í landinu. Fyrirtæki sem eru búin að kaupa sér tæki og útbúnað og borga söluskatt, hversu mega þau gegn hinum söluskattslausu fyrirtækjum? Þetta er eitt af vandamálunum sem þyrfti að ganga í og ákaflega væri fróðlegt að vita hvað ríkisstj. hafi raunverulega gert til þess að auka framleiðsluna í landinu. Ég fylgist með því að vinur minn, Eyjólfur K. Jónsson, berst um á hæl og hnakka í laxarækt og gengur nokkuð vel, enda maðurinn ötull. Ég held að hann fái ansi lítinn stuðning. Sjálfsagt er hann ekki að biðja um neina styrki. Mikið óttalega er þetta eitthvað seint hjá ríkinu. Menn halda að þetta verði eins og í Kína, laxarækt verði í einhverjum polli fyrir utan bóndabæ, en þetta er stóriðja.

Svona mætti tína þetta endalaust upp. Það er kvartað, það er suðað, heimtufrekja í hinum almenna manni, misrétti í sköttum, misrétti í kaupi, atvinnuleysi á einum staðnum, yfirframboð á öðrum og allt í hringlandi vitleysu. Ég held að menn hljóti að sjá að svona geta mál ekki gengið.

Ég skal nú draga mál mitt saman. Ég vildi aðeins segja að ég held að ekki sé hægt að fresta því að bæta kjör þessa fólks. Víst geta verið ýmsir erfiðleikar þar á, en þetta fólk er sannarlega í erfiðleikum. Það er margt hvert í hreinni angist yfir því hvernig það kemst af, hvort það missir íbúðina sína eða hvort það hafi nokkra möguleika á að koma upp yfir sig íbúð, yngra fólk. Það er ekki mikil bjartsýni í þessu fólki. Það slæma í því er að þetta unga fólk er ekki kommúnistar frekar en gengur og gerist. Það er bara ríkisstj. sem segir að það sé kommúnistar af því að það er óþægilegt að eiga við það. Ég held að ríkisstj. verði að fara að átta sig á þessum málum og taka öðruvísi á þeim.

Um þetta strögl fram og aftur um framkvæmd verkfalls, hvað sé lögbrot og hvað sé ekki lögbrot, skal ég ekki dæma, enda geng ég ekki með lögbækur undir hendinni daglega. En ég veit að í mörgum tilfellum gildir fyrst og fremst að halda ró sinni og eins og Þorsteinn Pálsson hv. 1. þm. Suðurl., sagði í upphafi sinnar ræðu, að halda r6 sinni á þann veg að greina aðalatriði frá aukaatriðum.

Ég vil segja, og held að ég tali þar fyrir t.d. þorrann af félagsmönnum Verkamannasambandsins, að við viljum með opnum huga ræða um skattalækkun á launafólki sem hluta af launahækkun. En við samþykkjum að sjálfsögðu ekki að það verði gert með hækkun á einhverjum öðrum sköttum eingöngu eða fundnir upp aðrir skattar með nýjum nöfnum. Við erum ekki tilbúnir að samþykkja að skorin verði niður ein brýnasta þjónusta við almenning, eins og heilbrigðisþjónusta, menntakerfi o.s.frv. og umfram alla muni, til að hægt sé að ná samkomulagi er óhjákvæmilegt að gefa launafólki einhverja tryggingu fyrir því að það verði ekki allt af því tekið þegar í stað þegar búið er að undirrita samning. Svo að ég vitni nú enn og aftur í Þorstein Pálsson: Fyrst ekki er hægt að greiða vísitölur á laun, af hverju vísitölur á flestar aðrar greiðslur? Þarf ekki að athuga hvort hægt er að fella þetta niður? Ég held að þarna sé hægt að ná samkomulagi og ég held að okkur beri að athuga þetta. Við þurfum að vísu að vera á verði gegn því að þetta leiði til atvinnuleysis, framkvæmdir verði skornar niður. En ég held að ríkisstj. verði að gera sér það ljóst að nútímafólk sættir sig ekki við fátækt og eignamissi meðan það horfir á öll þessi auðæfi allt í kringum sig. Það vill ábyggilega leggja ýmislegt á sig ef það sér að það gengur jafnt yfir alla. En það þolir ekki misréttið. Ég held að ríkisstj. verði nú að fara að reyna að skilja það. Það er misrétti í launamálum, það er misrétti í skattamálum, það er misrétti í húsnæðismálum sem verður að linna.

Ég vil nú biðja ríkisstj. að athuga alvarlega sinn gang. Í svona samningaumleitunum þýðir ekki, ef menn ætla að ná samningum, að vera með hótanir. Ríkisstj. gæti kannske sagt gagnkvæmt, en sleppum því. Ég held að það þurfi að hætta hótunum. Nú verða þeir að setjast niður. Við verðum að setjast niður róleg og yfirveguð og semja við þetta fólk.

Ég vil að endingu ítreka að ég hef trú á því að ef tekið er yfirvegað á þessum málum sé hægt að ná samningum og það jafnvel fyrr en margan grunar. En ef ríkisstj. heldur þessum leik áfram getur hún tuldrað fyrir munni sér, þó að henni sé orðið stirt um stef, eina ljóðlínu frá Bólu-Hjálmari og snúið upp á sjálfa sig: „Gröfin móti gapir köld.“