21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

171. mál, skattbyrði hjóna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál., 171. máli, en 1. flm. þeirrar till. var Magnús H. Magnússon varaþm. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að undirbúa breytingu á lögum og tekju- og eignarskatt sem feli í sér að skattbyrði hjóna verði jöfn hvort sem annað þeirra eða þau bæði vinna fyrir tekjum. Taka skal sérstakt tillit til þess ef verulegur kostnaður hlýst af því að hjónin vinna bæði utan heimilis.“

Í grg. með þessari till. til þál. segir svo:

„Það er óverjandi að hjón, þar sem annar makinn treystir sér ekki til að vinna utan heimilis, t.d. vegna fjölda barna, vegna veikinda eða vegna umönnunar aldraðs fólks eða sjúks, skuli greiða mun hærri skatta af sömu tekjum og hjón sem vinna bæði utan heimilis.

Í þessum tilvikum sparar heimavinnandi makinn því opinbera oft mikið fé í stofn- og rekstrarkostnaði barnaheimila, heilbrigðisstofnana og dvalarheimila aldraðra. Í stað þess að meta þetta starf að verðleikum er fólkinu refsað með hækkun tekjuskatts. Þessu má breyta t.d. með því að hafa sérstakan skattstiga fyrir einstaklinga og annan fyrir hjón og sambýlisfólk eins svo víða er erlendis og var hér á landi til skamms tíma.

Á hinn bóginn er eðlilegt að tekið sé sérstakt tillit til þess að veruleg aukaútgjöld, t.d. vegna gæslu tveggja eða fleiri barna, hljótast af því að bæði hjónin vinna utan heimilis. Þetta má gera á ýmsan hátt, t.d. með hækkun barnabóta eða með viðauka við heimildarákvæði 66. gr. laga um tekju- og eignarskatt.“

Með grg. er birtur samanburður í töfluformi á tekjuskattsgreiðslum hjóna eftir því hvort annað hjóna vinnur fyrir öllum tekjunum eða annað hjóna vinnur fyrir 2/3 hluta tekna, en hitt fyrir 1/3 hluta eða ef tekjur skiptast til helminga milli hjóna. Á þessari töflu sést að fyrir 300 þús. kr. tekjustofn munar hér 11 700 kr, ef tekjur skiptast jafnt milli hjóna eða ef annað hjóna vinnur fyrir öllu. Ef tekjurnar eru hærri eykst bilið þannig að það fer upp í 49 100, miðað við tekjuskattsstofn sem er 600 þús., og upp í 65 500 ef tekjuskattsstofninn er 800 þús. Munurinn er nokkru minni ef tekjurnar skiptast ekki jafnt milli hjóna, heldur þannig að annað hjóna vinni fyrir 2/3 hlutum teknanna en hitt fyrir 1/3.

Í sambandi við afgreiðslu á skattalögum nýverið komu þessi mál til umræðu. Það var uppi viðleitni af hálfu ríkisstj. til þess að minnka þetta bil með því að leyfa tilflutning á ónýttum persónuafslætti. Sú aðferð sætti ákveðinni gagnrýni af hálfu ýmissa aðila í þjóðfélaginu, m.a. þeirra sem halda uppi merki jafnréttis milli kynjanna. Þó kom fram á nefndarfundi þar sem þessir aðilar fluttu mál sitt að þeir töldu ekki að sá mismunur á skattbyrði sem í gildi væri væri að öllu leyti réttlátur, heldur gagnrýndu þeir beinlínis þá aðferð sem ríkisstj. hefði valið við að jafna þetta bil.

Þessi till. til þál. kom fram áður en það frv. til l. um breytingar á skattstigum o.fl., sem ég vitnaði til áðan, var lagt fram á Alþingi. En engu að síður þykir okkur meðflm. Magnúsar H. Magnússonar ástæða til þess að þessi mál verði tekin til frekari skoðunar og þá m.a. í ljósi þeirrar gagnrýni sem kom fram þegar umrædd breyting var gerð á tekjuskattslögunum skömmu fyrir áramót. Þess vegna leggjum við til að þáltill. verði tekin til meðferðar í n. og fái þar gaumgæfilega skoðun og væntum þess að hún verði síðan samþykkt í þessu formi eða einhverju því öðru formi sem menn koma sér saman um og svarar þeim markmiðum sem hér eru lögð fram um það að leita eftir því að hafa sanngirni og réttlæti í þessu kerfi eftir því sem auðið er.

Herra forseti. Ég held að ég sjái ekki ástæðu til að fjölyrða öllu frekar um þetta, en legg til að að loknum fyrri hluta þessarar umr. verði þáltill. vísað til allshn.