21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3122 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

287. mál, könnun á launum og lífskjörum

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 467 sem fjallar um könnun á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum. Þessa till. flytjum við Pétur Sigurðsson alþm. Ég les till., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd fulltrúa stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að kanna hvort og að hvaða leyti laun og lífskjör eru lakari á Íslandi en í nálægum löndum og hverjar eru orsakir þess.

Nefndin skili athugun sinni fyrir árslok 1985.“

Svo sem fram kemur í þessum tillögutexta er það meginatriði þessarar till. að kanna hvernig á því stendur að þótt Íslendingar séu með þeim þjóðum sem einna hæstar þjóðartekjur hafa á mann í veröldinni, sjöttu í röðinni eins og að undanförnu eða jafnvel ofar á þeim lista, hvernig á því stendur að slík þjóð býr þó ekki við betri lífskjör en raun ber vitni. Þurfum við þó ekki að standa undir neinum herkostnaði svo sem aðrar þjóðir, en til slíkra hluta fer allverulegur hluti ríkisútgjalda flestra þjóða.

Það hefur vafist nokkuð fyrir mönnum að komast að niðurstöðu um það hver sé orsökin. Umræður um það hafa verið ákaflega pólitískar oft og tíðum og mótast af því hverjir hafa tekið þátt í umræðunni. Það er skoðun okkar flm. að það sé hins vegar kominn tími til að gerð verði hlutlæg athugun í þessum efnum á orsökum þess sem hér um ræðir og á grundvelli þeirrar rannsóknar og þeirra ábendinga um orsakirnar sem hér er kallað eftir, þá geti stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins, stjórnmálaflokkar, Alþingi og aðrir aðilar sem mál þetta varðar í verulegum mæli gert ráðstafanir sem eru í samræmi við þær niðurstöður sem við væntum að muni þá liggja fyrir.

Það fer ekki á milli mála að lífskjör hér á landi hafa versnað á undanförnum árum. Það þekkja allir og þarf ekki að fara mörgum orðum um. Kaupmáttur kauptaxta hefur minnkað um fimmtung á síðustu þremur árum og er nú svipaður og hann var árið 1971. Töflu um þessa þróun er að finna í grg. þeirri sem fylgir með þessari þáltill.

Nú er það svo að kaupmáttur kauptaxta er vitaskuld ekki algildur mælikvarði á lífskjör launafólks þó að hann sé þýðingarmikill. Oft er bent á að nær væri að líta fyrst og fremst á ráðstöfunartekjurnar frekar en taxtana. En aðrir mælikvarðar sýna einnig alldökka mynd þó mismunandi sé eftir því hvaða stærðir eru skoðaðar.

Ef við lítum á þjóðartekjurnar er það alkunna að þær hafa minnkað verulega á síðustu þremur árum, eitt árið um 5.5%. Þjóðartekjurnar í dag eru á svipuðu stigi og árið 1973 eða fyrir tæpum 12 árum og þær hafa dregist saman þrjú ár í röð. Það má einnig nefna ráðstöfunartekjurnar sem ég gat um. Þær voru svipaðar árið 1984 og þær voru upp úr miðjum síðasta áratug.

Þetta er alvarleg þróun, ég held að engum blandist hugur um það, ekki síst með hliðsjón af því að þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við hafa nú komist út úr þeirri kreppu sem einkennt hefur alþjóðaefnahagsstarfsemi og efnahagslíf á árunum 1979–1982. Við erum meðlimir í OECD-bandalaginu, Efnahagssamvinnustofnun Evrópuþjóða, þó að fleiri séu þar aðildarríkin. Þess vegna er nærtækt að bera þróun mála í þessum efnum hér á landi saman við þróun hjá OECD-ríkjunum í heild.

Hagvöxtur í OECD-ríkjunum var árið 1983 að meðaltali 2.6%, tæplega 5% 1984 og gert er ráð fyrir að í ár verði hann milli 3 og 4%. Samfara þessum hagvexti fara lífskjör batnandi í flestum nálægum löndum meðan lífskjörum hefur farið hrakandi hér á landi. Tölurnar sem birtar eru í nákvæmari og ítarlegri útgáfu með grg. gefa allgóða vísbendingu um lífskjörin hér á landi í samanburði við aðrar þjóðir og þó ýmislegt þurfi að athuga nánar, m.a. áhrif örra breytinga á gengi gjaldmiðla, einkum á síðari árum, bera þær þó með sér að lífskjör á þennan mælikvarða hafa verið almennt góð í OECD-ríkjunum og yfir meðaltali í löndum eins og Danmörku, en lélegri þó þar en í Svíþjóð og Noregi.

Fram til 1982 er samanburður við OECD-ríkin á margan hátt ekki óhagstæður okkur Íslendingum, en sama verður ekki sagt um framhaldið. Þjóðartekjur á mann hér á landi eru nú einungis um 9 þús. dollarar eða um 84% af því sem þær voru 1982 og um 70% af þjóðartekjunum 1981. Að vísu veldur hér allmiklu um hve staða dollarans hefur styrkst mjög á undanförnum árum, en þessar tölur tala engu að síður sínu máli. Það virðist liggja fyrir svo ekki þurfi um það að fara í grafgötur hver launaþróunin hefur verið á undanförnum árum miðað við þann stóra hóp þjóða sem ég gat um. Þær staðreyndir liggja allljóslega fyrir.

Það eru þó fleiri atriði sem hér þarf að kanna en þjóðartekjur á mann á Íslandi í sambandi við önnur lönd. Sú nefnd, sem fær það verkefni að fylgja fram þessari þáltill. sem hér er á ferðinni, mun að sjálfsögðu leggja mat á hvaða þættir skipta mestu máli í þessu sambandi.

En það er rétt að nefna nokkur mikilvæg atriði sem könnunin þarf augljóslega að ná til. Eitt þeirra er hlutur launþega í þjóðartekjunum. Það er mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi. Í öðru lagi breyting á kauptaxta og launaþróun, bæði almenn og eftir atvinnugreinum. Það þarf að líta á atvinnutekjur, heildartekjur og ráðstöfunartekjur, og enn fremur vægi annarra tekna en launa, t.d. tilfærslutekjur og eignatekjur. Það þarf að líta á vinnutíma og atvinnuöryggi, á óbeina skatta og beina og opinbera þjónustu, í hve ríkum mæli hún er veitt. Það þarf að líta á greiðslubyrði og skuldastöðu gagnvart öðrum löndum, fjárfestingarþróun, gengisþróun, ekki síst gagnvart dollaranum, og hagsveiflur í einstökum löndum.

Eftir að þetta liggur fyrir er komið að kjarna málsins, því sem þessari nefnd er ætlað að vinna að. Nefndinni er ætlað að gera þessa launakönnun, en henni er einnig ætlað að skýra niðurstöður sínar að því er varðar lífskjaraþróun hér á landi í samanburði við þau lönd sem ég nefndi. Hverjar eru orsakir þessarar þróunar? Og þá má spyrja: Hafa ytri ástæður ráðið mestu um þessa þróun, aflabrögðin, sem hafa verið misjöfn,-að vísu var þriðja besta aflaárið á síðasta ári — eða er það staða alþjóðlegra efnahagsmála sem hér ræður mestu eða er skýringanna e.t.v. að leita í okkar eigin efnahagslífi, skipan þess og stjórn?

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að draga lærdóm af reynslunni í þeirri stöðu sem við blasir. Ef mistök hafa orðið ber vissulega að viðurkenna þau og einbeita kröftunum að því að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Við eigum m. ö. o. að læra af sögunni í þessum efnum.

Það er skoðun flm. að þessari till. að það verkefni sem hér liggur fyrir sé afar brýnt með tilliti til þess að hætt er við að Íslendingar fari í vaxandi mæli að setjast að þar sem betri kjör bjóðast ef bilið heldur áfram að breikka milli lífskjara hér á landi og í nágrannalöndunum. Því fyrr sem við getum greint þær orsakir sem liggja til grundvallar þeirri þróun sem ég hef gert hér að umtalsefni því betra.