21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3126 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill., 26. máli Sþ. á þskj. 26. Hún fjallar um það að leggja niður starfsemi framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins. Það liggja að mörgu leyti sömu rök og ástæður til þess að ég mælist til þess að þessi starfsemi verði lögð niður eins og um hið fyrra embætti sem ég ræddi hér um áðan.

Embættið er að verða bráðum 14 eða 15 ára gamalt og það hefur ekki skilað því hlutverki sem því var ætlað. Og það sem það hefur skilað er ekki eins gott og það gæti verið og í sumum tilvikum beinlínis mjög skaðsamlegt.

Ég skal tína til hér örfá dæmi og reyna að stytta mál mitt eins og hægt er og benda hér á helstu atriði sem ég tel vera ámælisverð í starfsemi þessarar stofnunar.

Afgreiðsla mála er mjög treg og tafir eru afskaplega algengar. Afleiðing þessa er sú að fjárveitingar nýtast mjög illa. Þetta er mjög bagalegt á verðbólgutímum. Byggingar verða seint arðbærar fyrir þessa sök.

Það er hægt að hugsa sér að orsök þessa seinagangs hafi t.d. verið of mikil verkefni miðað við mannafla eða þá, og það tel ég miklu frekar vera ástæðuna, skipulagsleysi í vinnubrögðum og hreint og beint kunnáttuleysi í stjórnun.

Það má nefna sem dæmi að vestur á Ísafirði dróst um sjö mánuði að auglýsa útboð III. áfanga sjúkrahússins og heilsugæslunnar eingöngu vegna samskiptaörðugleika, eins og það var kalláð, milli einstaklinga í kerfinu. Það tók þar tvö ár að taka ákvörðun um gerð varmadælu og loftræstikerfis fyrir þessa sömu byggingu. Það varð á endanum að taka þessa þætti út úr útboðinu til þess yfir höfuð að menn gætu komist áfram við verkið.

Það lítur oft og tíðum út fyrir að starfsmenn framkvæmdadeildarinnar hafi ekki aðgang að þeirri tækniþekkingu sem krafist er af stofnuninni. Sem dæmi má nefna að í þessari fyrrnefndu byggingu, sjúkrahúsinu á Ísafirði, eru ýmsir hönnunargallar sem framkvæmda deildin, sem verkið er falið, hefði átt að geta fyrirbyggt ef tækniþekking hefði verið fyrir hendi. Þetta eru tiltölulega einföld atriði eins og það að innkeyrsla sjúkravagna er ónothæf í þessu húsi — eða var. Það eru atriði eins og það að húsið er byggt á stað þar sem útsýni er þó nokkuð gott, en útsýnið er síðan byrgt með steinhandriði. Það eru mistök í gerð og uppsetningu raflagna og svo mætti lengi telja.

Þetta eru alls kyns einstök atriði sem ég á nokkurn sæg upplýsinga um. Menn hafa verið afskaplega ötulir að hafa samband við mig og benda mér á ýmsa annmarka sem þeir hafa orðið fyrir í samneyti sínu við þessa stofnun. Og þess eru dæmi að fyrirtæki hafi beinlínis reynt að komast hjá því að skipta við þessa stofnun ef mögulegt var. Ég get nefnt að Orkubú Suðurnesja átti í svo miklum örðugleikum í samskiptum sínum við þetta fyrirtæki að forráðamenn þess enduðu með því að sniðganga hreinlega fyrirtækið við öflun efnis og þjónustu til uppbyggingarinnar.

Það sem ég tel þó kannske enn alvarlegra er það að stofnunin hefur ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum. Það alvarlegasta er það að þessu fyrirtæki var ætlað að gefa heildaryfirsýn yfir fjárfestingar á vegum hins opinbera til þess að menn gætu gert sér grein fyrir því a) hvað miklir peningar höfðu farið í fjárfestingarnar, b) hverju þeir höfðu skilað, c) hvaða árangur hafði náðst í útboðum, d) var hægt að hugsa sér með endurbótum á útboðum að ná betri árangri? o.s.frv. Allt þetta átti að skila sér í því fyrirbæri sem kallað var skilamat. Um það segir svo í lögum um opinberar framkvæmdir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir, sem þegar hafa verið metnar.

Ríkisendurskoðun setur nánari reglur um fyrirkomulag skilamats og sér um það, að greinargerðir um skilamat séu lagðar fyrir fjvn. Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.“

Á þessum 14 árum, sem þessi stofnun hefur starfað, hefur þessu skilamati aldrei verið skilað. Fjvn. Alþingis hefur aldrei séð stafkrók um þetta skilamat frá þessu embætti. Ef horft er á þetta mál í réttu ljósi má hreint og beint halda því fram að þessi stofnun hafi staðið að lögbrotum í 14 ár. Auðvitað koma þar aðrir aðilar til sem ábyrgð bera á þessu eins og ríkisendurskoðun.

Það eru fersk í minni ummæli háskólarektors þar sem hann lýsti samskiptum sínum við þetta fyrirtæki. Hann hélt því fram að framkvæmdadeildin væri hreint og beint ábyrg fyrir því að opinberar byggingar væru yfirleitt lekar, ónýtar og héldu hvorki vatni eða vindi. Þetta kann að vera fullsterkt í árinni tekið en við vitum það að Háskólinn hefur eftir harða og skorinorða baráttu fengið því framgengt að hann hefur nú orðið framkvæmdasjálfstæði án þess að þurfa að skipta við framkvæmdadeild Innkaupastofnunar.

Það hefur orðið að samkomulagi milli mín og hæstv. forseta að í þeim tilgangi að reyna að flýta afgreiðslu þessara mála til nefndar reyni ég eftir bestu getu að stytta mál mitt sem hægt er. Þess vegna læt ég það vera að tína fleira til. En í heild má segja að áhrifin af starfsemi þessa fyrirtækis séu þau að framkvæmdir á vegum hins opinbera fara fram með þeim hætti að enginn aðili hefur í raun nokkra yfirsýn yfir það hvaða peningar fara í hvað og með hvaða hætti þeir skila sér. Ef maður ætti að nota eitt lýsingarorð yfir þessa starfsemi þá held ég að kalla mætti hana í hæsta máta subbulega.