21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2618)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hv. flm. sagði í fyrri ræðu sinni. Mér skildist á hans máli að hann teldi að sveitarstjórnir mundu í sumum tilvikum ekki vera því mótfallnar að þessi kostnaður vegna hlutdeildar ríkisins væri hár.

Það tilvik sem mér er minnisstæðast í sambandi við þessi mál var fyrst og fremst vanrækslusynd af þeirra hálfu, þ.e. að þeir athuguðu ekki þá teikningu af skólastjóraíbúð sem um var að ræða og það leiddi svo til þess að húsið varð að allra mati helmingi dýrara en það hefði þurft að vera. Ég hygg að það sé algengt að í sveitarstjórnum eða skólanefndum séu ekki menn sem hafi neina sérstaka þekkingu á þessum málum og það geti valdið þar einhverju um að frá þeirra hendi sé ekki nægilegt eftirlit með slíkum byggingum.

Svo er nú fyrirkomulagið þannig á þessu t.d. í sambandi við skólana að þó að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar sé með þessi mál að einhverju leyti, þá er menntmrn. líka með sína sérdeild. Og samt sem áður — og kannske vegna þess — koma þarna fyrir ýmis óhöpp og ekki gengið frá þessum málum eins og eðlilegt mætti teljast.

Ég sný ekki aftur með það að það verði að stokka þetta upp og aðilar frá ríkinu, hverjir sem það eiga að vera, séu fyrst og fremst til þess að hafa eftirlit með því að farið sé eftir ákveðnum reglum en hafi ekki vald til að tefja framkvæmdir ef á annað borð er fjármagn fyrir hendi. Ég gæti sagt ykkur ýmislegt frá minni reynslu á þeim tíma sem ég hef setið á Alþingi — að það hefur verið reynt að tefja slíkar framkvæmdir hvað eftir annað og hefur orðið að beita hörðu til að fá að hefjast handa þó að allt liggi fyrir, teikningar og fjármagn. Slíkt má bara ekki koma fyrir. Það er óþolandi fyrir þm. að búa undir slíku skipulagi. Þarna þarf að verða breyting á.

Hins vegar er það alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., að það verður að vera eftirlit með þessum byggingum. En ekki á þann veg sem nú er.