21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

25. mál, tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefur verið látið að því liggja hér að ég gegni ákveðnu hlutverki í þessari umr., gegni hér varðstöðu fyrir valdið, sé eins og varðhundur valdsins og sé nú að reyna að glefsa í hv. flm. af því að hann sé að voga sér að ráðast til atlögu við valdakerfi þjóðfélagsins, eins og hann sjálfur kallar það. Ég hafði ekki sett þetta mál í svo stórkostlegt samhengi og sá reyndar ekki að sú tilviljun að ég er reyndar, ekki stjórnarmaður heldur varamaður, í stjórn Húsnæðisstofnunar skipti hér öllu máli, að öðru leyti en þá því að ég hefði eitthvað betri þekkingu fyrir vikið á því máli sem hér er til umfjöllunar. En það er kannske svo að mér renni blóðið til skyldunnar af því að ég hef komið þarna inn fyrir dyr og kannast við nokkur andlit sem þarna vinna.

Ég er að sjálfsögðu ekki réttur maður til að dæma um hvort þar með sé ég nánast úr leik í þessari umr., en ég ætla engu að síður að leyfa mér að koma hér upp aftur vegna ummæla sem féllu frá því að ég stóð hér síðast, herra forseti.

Í fyrsta lagi var það hv. 10. landsk. þm. sem vék að þjónustu tæknideildar við verkamannabústaðakerfið. Nú verð ég að hryggja hv. þm. með því, þó ég þakki honum fyrir þá tiltrú sem hann hefur á þekkingu minni, að ég er ekki nógu kunnugur því hvernig er háttað mati á endursöluíbúðum innan verkamannabústaðakerfisins og ég get því ekki skorið úr um hvort sá seinagangur, sem ugglaust er á því og þar mun rétt með farið hjá hv. þm., er tæknideildinni eða einhverjum öðrum að kenna. Um hitt veit ég, að tæknideild verður naumast sökuð um að íbúðir í verkamannabústöðum séu dýrar í verði því að þar er ekki við hana að sakast. Hún er ekki framkvæmdaaðili í því máli. Hún undirbýr útboðsgögn og leggur gjarnan til teikningar. En ég leyfi mér að fullyrða að það sem að henni snýr gefi fullt tilefni til þess að íbúðir í verkamannabústöðum séu ódýrar og það sem til hennar heyrir valdi í engu því að íbúðir í verkamannabústöðum séu dýrar. Hitt vil ég biðja hv. þm. að athuga, að ég hef hvergi séð fyllilega sambærilegar og marktækar upplýsingar um það hver raunverulegur verðmunur er. Ég hef að sönnu lesið dagblöð og séð þar uppsláttarfréttir um að íbúðir í verkamannabústöðum séu svo og svo miklu dýrari en einhver óskilgreind tala sem fengin er að láni án nánari rökstuðnings utan úr bæ. Ég vil a.m.k. fá að sjá það svart á hvítu, vel rökstutt, að á raunverulegu og sambærilegu verði, að öllum forsendum teknum til greina, sé svo mikill munur eins og menn hafa stundum viljað vera láta. Ég veit að vísu að framkvæmdaaðilum í þessu máli, þ.e. stjórnum verkamannabústaða á hinum mismunandi stöðum, hafa verið mislagðar hendur um að ná góðum kjörum og fá ódýrar íbúðir. Þar er mikill munur innan kerfisins. Menn standa sig misjafnlega vel þar eins og annars staðar. En ég endurtek að ég held að tæknideild Húsnæðisstofnunar eigi þar minnstan hlut að máli og ítreka það, sem ég hef áður sagt, að þær upplýsingar sem ég hef, þau viðtöl sem ég hef átt við þjónustuaðilana og þá sem þjónustu tæknideildar njóta, eru flest á þann veg að þeir telja sér þau viðskipti öll mjög hagstæð:

Það er mjög slæmt ef ég hef gagnrýnt hv. flm. ómaklega fyrir vasklega stéttabaráttu og ekki ætla ég að lá honum það þó hann vilji berjast fyrir kjörum þeirrar stéttar sem hann er þarna að fjalla um, þ.e. arkitektastéttarinnar. En það er nú illa komið, — og er slæmt að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér til að taka þátt í umr., og værum við þá átta, — ef það er virkilega orðin vænlegasta leiðin í kjarabaráttu fyrir hverja stétt að útrýma öllum mönnum í stéttinni sem vinna hjá því opinbera þannig að hinn óhagstæði samanburður við láglaunafólkið sem vinnur hjá ríkinu sé ekki fyrir hendi. En ég verð að benda á að í sama mund og hv. þm. væri að vinna sinni stétt vel með því að koma í veg fyrir að nokkur arkitekt ynni á sultarlaununum hjá hinu opinbera gæti hann einmitt verið að hækka verð á þjónustu við húsbyggjendur. Þarna verðum við að finna einhvern meðalveg, þannig að arkitektar fái sæmileg laun, geti verið fullsæmdir af því að lifa á þeim, en þeir sem standa í húsbyggingum eigi kost á ódýrri þjónustu. Ég vil leyfa mér að fullyrða að tilvera tæknideildar og þeirrar þjónustu sem þaðan hefur komið hafi stuðlað að hinu síðarnefnda, þ.e. að menn hafi átt þarna val og komist í ódýrar teikningar og getað notið ódýrrar þjónustu einmitt vegna tilvistar þessarar stofnunar.

Annars gefur öll þessi umr., herra forseti, af því að við höfum nógan tíma, tilefni til að hugleiða svolítið þær umræður um sölu eða niðurlagningu ríkisfyrirtækja sem tröllríða nú húsum, bæði hér á hv. Alþingi og annars staðar. Það er eiginlega komið svo að þetta einstaklingshyggjukjaftæði — fyrirgefið orðbragðið — veldur því að það þorir varla nokkur sála að halda uppi vörnum fyrir það sem vel er gert hjá hinu opinbera. Menn eru orðnir svo niðurbeygðir og kengbognir undan því að það er ráðist á allt sem hið opinbera hefur með höndum — ýmist á að leggja það niður eða selja það og því er fundið flest til foráttu — að það má yfirleitt ekki orðið taka upp hanskann fyrir nokkurn hlut sem opinberir aðilar, ríki eða sveitarfélög standa fyrir, það skal allt vera af hinu illa. Ég er ekki í þessum hópi, herra forseti, og ég skal hvar og hvenær sem er taka upp hanskann fyrir það sem vel er gert hjá hinu opinbera. Það er sem betur fer ýmislegt sem þar er vel rekið og þar er innt af hendi mikilvæg þjónusta sem ég held að þýði ekki að ræða um að fela öðrum í hendur. Eðli margrar starfsemi er slíkt að það fer best á því að hún sé í höndunum á opinberum aðilum og undir almannastjórn. Hvað sem allri einstaklingshyggju og einstaklingsfrelsi líður höfum við samið um það í okkar þjóðfélagi að beita félagslegum ráðstöfunum í ýmsum málum og málaflokkum og láta samtök almennings í þessu landi, hvort sem það eru sveitarfélög eða löggjafarvald og ríkisstj., annast ýmis verk. Auðvitað verða þeir aðilar þá að hafa starfsfólk og tæki í sínum höndum til að inna það af hendi. Ég lít svo á að tæknideild sé eitt slíkt og það sé margt í starfsemi opinberra aðila sem frekar bæri að hyggja að að breyta eða leggja niður en einmitt sú deild.

Aldrei hef ég botnað í þeirri aðferð í þessum efnum að byrja gjarnan á því að tala um þau fyrirtæki sem ganga best hjá hinu opinbera. Helst vilja menn selja mjólkurkýrnar, reyta þær af sér eins og hæstv. iðnrh. er manna frægastur fyrir. Alltaf skal byrjað á því að selja eða leggja niður það sem vel gengur þá stundina. Ríkið situr hins vegar uppi með hitt, eðlilega, sem enginn annar vill taka að sér og enginn annar vill reka. Ég held að við þurfum að hugsa um hag ríkisins í þessum efnum. Það gerir enginn góðbóndi að byrja á því að láta frá sér bestu mjólkurkýrnar sínar eða selja bestu kynbótahrútana. Þetta vita bændur og aðrir þeir sem fróðir eru um búskap. — Nú, eru einhverjir hér inni?

Ég held sem sagt að tæknideildin sé ágætis búpeningur í hjörð hins opinbera og það sé með öllu ástæðulaust að vísa henni út á gaddinn.