21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

23. mál, skipulagsstjóri ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill., 23. máli Sþ. á þskj. 23, þar sem lagt er til að fela ríkisstj. að annast framkvæmd nauðsynlegra aðgerða til að leggja megi niður starfsemi skipulagsstjórna ríkisins.

Í skipulagslögum segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um stjórn skipulagsmála, í 3. málsgr. 1. gr.:

„Verkefni skipulagsstjórnar er að ganga frá skipulagsuppdráttum, er berast til staðfestingar, eiga frumkvæði að skipulagningu og endurskipulagningu, þar sem hún telur þess þörf, vera opinberum aðilum til ráðuneytis um allt, sem skipulagsmál varðar, og fara að öðru leyti með stjórn skipulagsmála eftir því, sem segir í lögum þessum. Ef ágreiningur verður á milli aðila, sem fara með stjórn skipulagsmála, þ.e. skipulagsstjórnar ríkisins og sveitarstjórna, sker ráðh. úr, nema öðruvísi sé sérstaklega ákveðið í lögum þessum.“

Lögin um stjórn skipulagsmála eru frá árinu 196a. Þá var, eins og um Húsnæðisstofnun og tæknideild hennar, ákveðin ástæða til að taka skipulagsmál það föstum tökum að miðstýra þeim frá einum stað því að skipulagsmál voru vægast sagt í mjög lausum reipum.

Er það reynsla manna að 20 árum liðnum að ýmsir þættir, sem gert var ráð fyrir að fullnægja þyrfti í lögunum, hafa reynst annaðhvort ónauðsynlegir eða jafnvel illframkvæmanlegir. Þá á ég einmitt við þetta mikilvæga hlutverk skipulagsstjórnar skv. lögunum að staðfesta skipulagsuppdrætti sem gefur þeim, þegar ráðh. hefur áritað þá, endanlega lagagildi. Örfáir aðalskipulagsuppdrættir — þeir eru örfáir og teljandi á fingrum annarrar handar — hafa verið staðfestir og undirritaðir af ráðh. Og aðeins örfá deiliskipulög hafa verið staðfest og undirrituð endanlega af ráðh. Ástæða þessa er sú að mjög fljótlega eftir að þessi festa komst á skipulagsstarf hér á landi áttuðu menn sig á þeirri viðblasandi staðreynd að skipulag er starfsemi sem tekur mið af þörfum nútíðarinnar og áætlunum um þarfir framtíðarinnar, það þarf því að vera mjög aðlögunarhæft. Breytileiki er nánast frumskilyrði fyrir góðu skipulagi, þ.e. aðlögunarhæfni að breyttum aðstæðum. Við vitum sjálfir, og þá sérstaklega við sem hér inni sitjum, hversu seinlegt er að breyta lögum. Að ætla sér þannig að gefa skipulagi lagagildi er góður ásetningur gagnvart þegnunum en illframkvæmanlegur eða óframkvæmanlegur þegar til lengdar lætur og beinlínis illa verjandi þegar maður hugsar til þess hlutverks sem skipulag á að hafa. Það hefur líka sýnt sig í áranna rás að þessu hlutverki skipulagsstjórnar er raunverulega ekki hægt að sinna eða beinlínis þarf ekki að sinna. Og þar með er mjög stórum þætti kippt undan rekstri þessa fyrirtækis, enda hefur stofnunin lengi vel sinnt aðallega öðrum verkefnum. Það er það sem segir í 2. gr.: „...gerð skipulagsuppdrátta og endurskoðun þeirra í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir“. Þetta var líka mjög eðlilegt á þeim tíma þegar skipulagsfróðir aðilar voru mjög fáir hér á landi. Það er ekki fyrr en einhvern tíma upp úr 1970 að skipulagsstjórn samþykkir í fyrsta sinn að öðrum aðila en þeim sem hjá henni starfar er falin gerð skipulagsuppdrátta. En í dag er þetta nánast orðin viðtekin venja að það eru allir aðrir aðilar en þeir sem starfa hjá skipulagsstjórn sem sinna gerð aðalskipulagsuppdrátta og deiliskipulagsuppdrátta.

Eftirlitshlutverk skipulagsstjórnar með þessari vinnu er algjörlega ónauðsynlegt. Við höfum ákveðin lög í landinu um það hvernig eigi að framfylgja skipulagi, bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi, og það er miklu nær að þegnarnir séu eftirlitsaðilar með skipulagsaðilunum en einhver og einhver stofnun sem er meira og minna í mjög litlum tengslum við þá hluti sem verið er að framkvæma á hverjum stað úti um hinar dreifðu byggðir landsins.

Þannig hagar líka til skv. lögunum að þessari skipulagsstjórn er ætlað ákveðið gerðardómshlutverk, þ.e. að til hennar skal leita með úrskurði um það hvort byggingarleyfi brjóti í bága við samþykkt eða fyrirhugað skipulag. Þessi lagagrein tengist þeim hugsunarhætti sem var í upprunalegu löggjöfinni að skipulagsstjórn bar ábyrgð á skipulaginu og þar af leiðandi átti hún umsagnaraðild að því hvort einstakar framkvæmdir brytu í bága við það. En ef við viðurkennum einfaldlega að hlutverki hennar sé lokið þá er ekkert eðlilegra en að mál sem þessi séu sótt fyrir dómstóli skv. lögum um skipulag og skv. byggingarlögum. Þar með er öllum þeim þáttum sem lúta að starfsemi þessarar stofnunar fundinn staður annars staðar en hjá stofnuninni sjálfri og í höfuðdráttum með þeim hætti að færa það eftirlitshlutverk sem þessi stofnun átti að gegna til þegnanna sjálfra sem standa í miklu nánari tengslum við þær framkvæmdir sem um er að ræða. Því er hér á ferðinni um leið ákveðin tillaga um valddreifingu.