25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

324. mál, alþjóðasamningar um örugga gáma

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir að heimila ráðh. þeim sem fer með siglingamál að setja reglur til að framfylgja alþjóðasamningum, sem Ísland er aðili að, um örugga gáma. Alþjóðasamningur um örugga gáma, International Convention for Safe Containers, var gerður á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunar FMO í Genf, 2. desember 1972 og gekk í gildi 6. september 1977. Breytingar voru gerðar á samningnum 1981 og 1983 en það eru ekki ráðgerðar fleiri breytingar á honum næstu fimm árin.

Samningur þessi skiptist í þrjá meginhluta, þ.e. aðalsamning, viðauka I með fskj. og viðauka II. Báðir viðaukarnir ásamt fskj. eru fullgildir hlutar samningsins.

Tilgangur þessa samnings er að auka öryggi við meðhöndlun, hleðslu og flutning á gámum. Aðilar samningsins viðurkenna hagræði þess að reglubinda almennar alþjóðlegar öryggiskröfur. Hlutaðeigandi stjórnvöld skuldbinda sig því til að setja samhæfðar starfsreglur um prófun, skoðun og viðurkenningu á gámum. Slíkar reglur munu auðvelda mjög flutninga á gámum á milli landa. Viðauki I hefur að geyma reglur um prófun, skoðun, viðurkenningu og viðhald á gámum, en viðauki II fjallar um smíðaöryggiskröfur og prófanir.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.