25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Flm. (Óli Þ. Guðbjartsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um iðnþróunarsjóði landshluta sem ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 512. Frv. þetta er samið að tilhlutan sveitarstjórnarmanna og raunar flutt að þeirra beiðni. Það þarf í sjálfu sér ekki að gegna furðu þó að frv. af þessu tagi komi einmitt úr þeirri átt. Fáum ætti að vera ljósari en sveitarstjórnarfólki sá margháttaði vandi sem nú steðjar að víða um land um framvinduna í atvinnuþróun þessarar þjóðar. Sá vandi er margþættur.

Ég á hér vitaskuld ekki við hið hefðbundna og nær árstíðabundna hlutskipti stjórnmálamanna, Alþingis og ríkisstjórnar auk forustufólks í atvinnulífinu: að finna höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar rekstrargrundvöll. Nei, ég á miklu fremur við þau þáttaskil sem að flestra dómi eru að verða í skiptingu mannafla á milli aðalatvinnuveganna, þeirra sem skapa hin raunverulegu þjóðarverðmæti og þjónustugreinarnar hvíla í rauninni á, og þjónustugreinanna.

Vitaskuld er og verður mikill vaxtarbroddur í þjónustugreinunum í þjóðfélagi sem verður æ margslungnara með degi hverjum. En sá vöxtur á sér þó ætíð þau takmörk sem felast í grósku grunngreinanna, þaðan sem þjóðarauðurinn er sprottinn. Það skiptir því ekkert litlu máli að menn sameinist um það meginverkefni í atvinnumálum Íslendinga á næstu árum og áratugum að stuðla að hagstæðari iðnþróun, enn hagstæðari en er í dag um allt land, sameinist um það á þann veg í fyrsta lagi að beina fjármagni inn á þær brautir að leiði til hagkvæmrar iðnþróunar og í annan stað að hið takmarkaða fjármagn nýtist sem best í því að virkja hugvit og haga hönd með sem bestum árangri. Í þeim tilgangi er frv. þetta flutt, til þess að verða lóð á vogarskál og einn af vegvísum á braut farsællar iðnþróunar.

Í fremur stuttri greinargerð sem frv. fylgir segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Fjöldamörg verkefni líðandi stundar einkennast af þeirri staðreynd að frumatvinnugreinarnar tvær, sjávarútvegur og landbúnaður, taka tæpast við meiri mannafla að tiltölu í náinni framtíð. Þegar haft er í huga hve umskipti þessi verða í rauninni snögg og nær samtímis í frumgreinunum báðum er ekki að undra þó að margháttaður vandi fylgi sem erfitt reynist að bregðast við.“

Hér er vitaskuld átt við þá staðreynd að það er nokkurn veginn jafnsnemma tekin upp að verulegu leyti skipulögð veiðistjórn í sjávarútvegi sem aftur þýðir takmörkun mannafla og tækja sem áður tæpast þekktist. En svo til samtímis verða kröfur æ háværari um að miða landbúnaðarframleiðsluna við innanlandsmarkað einvörðungu.

Hér er í sjálfu sér um svo róttækar breytingar að ræða, sem að vísu verða ekki frekar krufnar til mergjar hér, en eru það afdrifaríkar um velferð og afkomu almennings, að óhjákvæmilegt er að bregðast við þeim á fjöldamörgum öðrum sviðum á tiltölulega skömmum tíma. Þar er iðnþróun eina raunhæfa lausnarorðið og á því sviði er margt hægara sagt en gert. Og þau mál öll hafa á sér margar hliðar, eins og raunar er drepið á í fyrrnefndri greinargerð.

Í samanburði við búskap og sjósókn er iðnaður hér á landi fremur ung atvinnugrein. Með flestum þjóðum, sem fram úr hafa skarað á sviði iðnaðar, hefur slík þróun tekið áratugi og hvílt á hefð margra kynslóða. Það er sem sagt erfitt að stökkva alskapaður inn á þennan vettvang. Svo virðist að auki sem Íslendingum sé oft ýmislegt betur gefið en að tileinka sér markaðstækni og þá alúð í starfi sem yfirleitt alltaf er lykillinn að árangri á þessum sviðum. Þó ber vissulega að viðurkenna að stundum hefur mjög vel til tekist, svo sem um sölu ýmissa sjávarafurða okkar. Því má þó síst gleyma að vöruþróun og markaðstækni er enn þá mikilvægari þáttur þegar um raunverulega iðnþróun er að ræða.

Sveitarfélög um allt land finna nú æ betur hvar skórinn kreppir í þessu efni. Þess vegna hefur á nokkrum stöðum verið stofnað til sjóðsmyndunar til að létta undir í þeirri sókn sem framundan er. Flest hefur það þó verið af vanefnum gert, því ekki þurfa sveitarfélög eða samtök þeirra hér á landi að kvarta undan verkefnaskorti, öðru nær. Þær tilraunir sem þegar eru komnar á flot á þessu sviði eru einkum á Austfjörðum, Vestur- og Suðurlandi. Víðar er nú unnið að þessum málum, m.a. á Vestfjörðum og Suðurnesjum.

Menn gætu e.t.v. álitið að frv.-flutningur, af því tagi sem hér er uppi hafður, væri óþarfur þar sem þegar væru nægilegir möguleikar að ná árangri á þessum sviðum án slíkrar lagasetningar. Svo er þó ekki, vegna þess að tekjuöflun til þessa verkefnis er því nær óhugsandi nema einungis frá sveitarfélögunum sjálfum sem fyrir eru yfirhlaðin verkefnum. Auk þess sem samræmdar aðgerðir með löggjöf eins og hér er lögð til munu reynast hvati í sjálfu sér til raunhæfrar iðnþróunar.

Skv. 1. gr. þessa frv. er lagt til að landshlutasamtökum sveitarfélaga verði heimilt að stofna iðnþróunarsjóði í landshlutum er vera skuli sjálfstæðir sjóðir í eign sveitarfélaganna. Megintilgangi iðnþróunarsjóða landshluta er lýst í 2. gr. frv., sem er að efla atvinnu í landshlutunum. Tilgangi sínum skulu sjóðirnir leitast við að ná á eftirfarandi hátt:

„a. með lánveitingum til nýrra framkvæmda einstaklinga, fyrirtækja og stofnana til langs eða skamms tíma,

b. með lánveitingum til sveitarfélaga til framkvæmda

sem beint eða óbeint gætu stuðlað að betri þjónustu við uppbyggingu atvinnulífs,

c. með því að kosta, styrkja eða veita áhættulán til sérstakra athugana og áætlanagerða í sambandi við nýjar atvinnugreinar sem hugsanlega kynnu að þrífast á svæðinu,

d. með styrkveitingum til hagnýtra athugana á atvinnulífi svæðisins og möguleikum til atvinnuþróunar,

e. með því að veita lán eða styrk til vöruþróunar, nýsköpunar, náms o. fl.

f. með því að verja fé til hlutafjárkaupa í fyrirtækjum í landshlutunum skv. samþykkt aðalfundar landshlutasamtaka hverju sinni.

Í þessari seinustu grein væri í raun opnaður möguleiki á að þessir sjóðir kæmu einnig inn á svið fjárfestingarfélaga.

Skv. 3. gr. frv. er lagt til að tekjur iðnþróunarsjóða landshluta verði:

„a. árlegt framlag þeirra sveitarfélaga sem að hverjum sjóði standa og skal það nema allt að 2% af föstum tekjum þeirra, þ.e. útsvari, fasteignagjöldum og aðstöðugjaldi; ákveða má með reglugerð að tiltekinn hluti þessa framlags sé bundin inneign sveitarfélaga hjá sjóðunum og skal hún þá verðtryggð að fullu.“

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að hér er lagt til að 2% markið sé hámark. Vitaskuld yrði á valdi viðkomandi aðila að hafa þessi mörk neðar. Þeir sjóðir sem þegar hafa verið myndaðir hafa árlegt framlag 0.6–1% af föstum tekjum þeirra sveitarfélaga sem sjóðina mynda.

Þá er og rétt að geta þess sérstaklega að vitaskuld er það á valdi hverrar sveitarstjórnar fyrir sig hvort hún kýs að viðkomandi sveitarfélag verði aðili að iðnþróunarsjóði. Enn fremur gerir 3. gr. frv. ráð fyrir þeim möguleika að sveitarfélag geti gengið úr iðnþróunarsjóði landshluta. En þá skulu þau tilkynna það með árs fyrirvara og endurgreiðsla framlaga þeirra skal þá fara fram á tvöföldum þeim árafjölda sem greiðslur í sjóðinn hafa átt sér stað.

Ef mönnum leikur hugur á að vita hversu háar upphæðir hér væri um að ræða, skv. þessari grein, þá námu heildartekjur sveitarfélaganna í landinu á s.l. ári tæpum 4700 millj. kr., þannig að 2% þeirrar upphæðar mundu losa 90 millj. á ári. Jafnvel helmingur þeirrar upphæðar hefði þýðingu enda þótt verkefnið sé gífurlegt.

Aðrar tekjur iðnþróunarsjóða landshluta yrðu, skv. þessu frv., arður og einstakir tekjuliðir þeirra fyrirtækja sem sjóðirnir yrðu hluthafar í, fjármagnstekjur af útlánum, lántökugjöld og aðrar slíkar tekjur. Ótalinn er þó sá tekjuliður sem er einn megintilgangur þessa frv., en um hann er sérstaklega fjallað í 4. gr. þess. Þar er gert ráð fyrir að raforkuver í hverjum landshluta greiði iðnþróunargjald sem nema á 1% af heildsöluverði orku. 33% þessa gjalds renni óskipt til iðnþróunarsjóðs landshlutans en 67% skiptist milli iðnþróunarsjóða í öllu landinu eftir íbúafölu í hverjum landshluta 1. des. árið áður. Sérstaka athygli ber að vekja á því að ekki er gert ráð fyrir sérstökum tekjum úr ríkissjóði skv. þessu frv. En 1% iðnþróunargjaldið á raforkuheildsöluna er hins vegar ekki óeðlilegur grunnur, m.a. af eftirtöldum ástæðum.

Raforka er nær hvarvetna grundvallaratriði við hvers konar iðnþróun. Þess vegna eru framfarir á sviði iðnaðar, og þá allt eins smáiðnaðar sem iðnaðar sem væri stærri í sniðum, nátengdar stækkun raforkumarkaðarins. Í annan stað gilda sömu lögmál um verðmyndun raforku sem annarrar þjónustu til handa atvinnulífi og almenningi að stærð markaðar hefur veruleg áhrif á möguleikana á lækkun verðsins. Þess vegna gæti iðnþróunargjaldið beinlínis stuðlað að lækkun raforkuverðs með aukinni raforkunotkun í innlendum iðnaði. Og enn fremur gæti gjald af þessu tagi stuðlað að sparnaði og hagkvæmni í rekstri raforkuveranna.

Skipting þessa gjaldstofns hefði og sérstaka þýðingu. Annars vegar væru 2/3 hlutar þess sem dreifðust á milli allra iðnþróunarsjóða í landinu eftir íbúatölu hvers svæðis og hins vegar þriðjungurinn sem rynni til iðnþróunar í þeim landshluta þar sem orkan væri framleidd. Þessi þriðjungur væri eins konar aðstöðugjald fyrir þá sérstöku aðstöðu sem viðkomandi raforkuveri væri búin á viðkomandi svæði.

Svo var um hnúta búið er álverinu í Straumsvík var komið á fót, að álíka staðbundinn ávinningur var bæjarsjóði Hafnarfjarðar til hags með sérstöku gjaldi sem í hann rann til viðbótar þeim óbeina hag sem hann hafði auðvitað af staðsetningu iðjuversins á því svæði. Annars má í þessu sambandi minna á að sú hugsun er býsna gömul með Íslendingum að tiltekin heild geti átt sameiginlega eign og þá væntanlega haft af henni not. Ætla ég þó að persónulegur eignarréttur eigi sér óvíða lengri hefð en hér. Ég á hér við það forna lagaákvæði Jónsbókar, allt frá 1281, að almenningar séu eign fjórðungsmanna og enn eru lagaákvæði um almenninga í gildi úr hinum aldna stofni Jónsbókar. sérstök gjaldtaka, sem rynni til iðnþróunar í landshlutanum, gæti verið reist á slíkum grunni. Meginhluti iðnþróunargjaldsins eða 2/3 hlutar skiptust hins vegar eftir íbúatölu um allt land, enda verður að telja þetta sanngjarna millileið, því hvarvetna er þörfin brýn.

Ef spurt er um hvaða fjárhæðir væri hér um að ræða er því til að svara að árið 1984 var heildarraforkusalan 3666 gígawattstundir að söluverðmæti 2 milljarðar 194 millj. kr. og 1% ið næmi því tæpum 22 millj. kr.

Ég hef lokið við að geta þeirra helstu atriða sem áhersla er lögð á í þessu frv. til l. um iðnþróunarsjóði landshluta. Það er flutt í fullvissu þess að iðnaður hafi tekið sér stöðu sem einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, en þess þó sérstaklega að hann muni í vaxandi mæli taka við því hlutverki að vera vaxtarbroddur atvinnulífsins og ein helsta undirstaða aukinnar atvinnu og batnandi lífskjara allrar alþýðu manna. Fyrir aðra undirstöðuatvinnuvegi landsins hefur sterkur iðnaður ómetanlega þýðingu, hvort sem litið er til mannvirkja og vélaframleiðslu, þjónustu eða daglegra nauðsynja. Framleiðsla til útflutnings hefur aukist. Framleiðsla ullar- og skinnavöru er nú ein sér orðin mikilvægur þáttur í þjóðarbúskapnum og veitir mikla atvinnu á fjölmörgum stöðum á landinu. Stóraukin nýting jarðhita og vatnsorku hefur opnað nýja markaði innanlands sem aftur stuðlar að aukinni iðnþróun. Uppbyggingu stóriðju til útflutnings munu á sama hátt fylgja fjölbreytt iðnaðarverkefni í öllum landshlutum.

Virðulegi forseti. Megintilgangur með flutningi þessa frv. er einmitt sá að stuðla að hagkvæmri iðnþróun um allt land. Á það legg ég áherslu í lok máls míns. Ég vona að mál þetta fái þinglega meðferð og að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og iðnn. þessarar hv. deildar.