25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3153 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Mér barst fyrir skömmu erindi frá stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi þar sem þeir sendu drög að frv. því sem hér er flutt. Ég leit þann veg á að stjórnin óskaði eftir umsögnum stjórnvalda um frv. Fyrir því var það að ég sendi það stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga til umsagnar þar sem frv. og innihald þess hlýtur mjög að snerta hagsmuni sveitarfélaganna. Á ég von á svari innan tíðar. Ég hef að sjálfsögðu fyrirvara um ýmsa þætti þessa frv. þótt við getum allir verið sammála um nauðsyn þess að efla iðnþróun í landinu. Ég hlýt að hafa sérstakan fyrirvara um tekjur hinna fyrirhuguðu sjóða. Til að mynda af hálfu sveitarfélaganna vil ég fá að heyra þeirra viðhorf til þess, vegna þess að hér er um engar smáfjárhæðir að ræða, eða 94–100 millj. kr., eins og upplýst var að þetta gjald mundi vera, framlag sveitarfélaganna til hinna áformuðu sjóða.

Ég hef mjög sterkan fyrirvara á um skattlagningu á raforkuver. Það háttar því miður ekki þann veg til um þau fyrirtæki að mér þyki líklegt að á næstunni megi gera þeim að borga meiri skatta en tíðkast. Að raforkan verði skattlögð meira en nú tíðkast getur ekki orðið að mínum vilja, heldur þarf að stórdraga úr því, þegar við búum við allt of hátt raforkuverð til allra almennra nota, að ég tali ekki um húshitunar — og ýmissa smáiðnaðarnota líka, álit of hátt raforkuverð, af ástæðum sem mönnum eru nú ljósar, og er enda verið af stjórnskipaðri nefnd og skv. ályktun Alþingis að gera sérstaka úttekt á ástæðum hins háa raforkuverðs.

Þetta vildi ég að fram kæmi nú við 1. umr. þessa máls. Auðvitað er það mjög svo góðra gjalda vert að menn finni til þess ráð að efla íslenskan iðnað og þróun hans. Á hitt ber þó að líta að menn seilast oft og tíðum mjög um hurð til lokunnar þegar þeir eru að finna tekjustofna til styrktar þeim framförum sem menn gjarnan æskja. Er enda fátt eitt orðið óskattlagt, nema þá kannske súrefnið í loftinu, en á hverju kann maður ekki að eiga von þar sem sveitarfélögin skattleggja með þungum álögum eignir sem einstaklingurinn á ekkert í, svo sem eins og leigulóðir og annað þess háttar. En raforkan í landinu getur því miður ekkert borið af frekari álögum heldur verðum við að kappkosta að minnka þær álögur svo sem eins og með því, sem nú er ákveðið, að fella niður verðjöfnunargjald af raforku í áföngum.