25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég tek hér til máls aðallega í tvennum tilgangi. Annars vegar til að fjalla um í aðalatriðum 1. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir og hins vegar til að upplýsa eilítið um hug þings og ríkisvalds til mála sem þessa.

Í fyrsta lagi vil ég lýsa því yfir að ég er ekki sammála 1. gr. þessa frv. og þar með frumvarpsdrögunum öllum að því leyti að ég tel ekki nauðsynlegt að löggjafinn samþykki að landshlutasamtökum sveitarfélaga sé heimilt að stofna iðnþróunarsjóði. Ég tel að þeim sé heimilt að gera slíkt ef þau svo kjósa og það tekst samkomulag milli þeirra um slíkt, eins og við höfum þegar ákveðinn vísi að.

Ég skil, eins og hv. flm. lýsti, að eitt aðalatriði þessa frv. er tekjuöflunin sem að öllu leyti er ætlast til að sveitarfélög og fyrirtæki innan sveitarfélaga standi undir nema að einu leyti og það eru nefndar álögur á raforkuver í hverjum landshluta sem greiða skuli til þessara iðnþróunarsjóða. Ég er sammála hæstv. iðnrh. um að raforkuverðið gefur ekki beinlínis tilefni til þess að tekið sé til við að skattleggja það.

Í öðru lagi held ég að hér sé farið inn á brautir í fjáröflun sem ekki leiði endanlega til árangurs. Ég held að við verðum að skilgreina vanda okkar betur en svo að telja að við getum leyst hann með gjaldtöku eða skattlagningu sem þessari.

Ég tel að við séum hér að tala um vanda sem flm. lýsti að nokkru leyti í sinni framsögu. Við búum við það ástand að hafa tvær frumatvinnugreinar sem skapa grundvöllinn undir allt annað atvinnulíf í þessu landi. Þessar frumatvinnugreinar hafa tekið miklum breytingum eftir fyrri heimsstyrjöld. Það má segja að ógöngur þessara atvinnugreina hafi, að því maður best fær séð, hafist upp úr fyrri heimsstyrjöldinni þegar ríkisvaldið fékk heimild til að standa að miðstýringu í atvinnulífi með þeim hætti sem við höfum upplifað síðan.

Við sífellt vaxandi miðstýringu í þessum atvinnugreinum, og þá á ég aðallega við miðstýringu fjárfestingar sem síðan hefur leitt til miðstýringar framleiðslu og verðlagningar og dreifingar og nánast alls sem viðkemur viðkomandi atvinnugreinum, hefur þjappast saman ábyrgðin á hendur þeim sem miðstýrir, þ.e. ríkisvaldinu, og áhrifin af sveiflum í þessum atvinnugreinum. Hverfum aftur fyrir fyrri heimsstyrjöldina og ímyndum okkur hvaða áhrif það hafði á atvinnulíf og efnahag þessa lands þó að eitt eða tvö býli færu í eyði á landinu eða einn eða tveir bátar hættu róðrum. Það hafði engin heildaráhrif á atvinnugreinina sem slíka vegna þess að valdi og ábyrgð var dreift. Ábyrgð á fjárfestingum og valdi til þess að stýra þeim var dreift um allt land. Það var ekki á einni hendi. Það var ekki tekið inn í meðaltöl til að jafna afkomuna og hafði þar af leiðandi ekki nándar nærri sömu áhrif á efnahags líf okkar í heild og nú. Það er þess vegna sem ég held að hættulegt sé að leiða þessa þróun inn á þær brautir að hún stefni til sömu áttar og gerst hefur í þeim tveimur atvinnugreinum sem við höfum byggt alla okkar afkomu á hingað til. (Gripið fram í.)

Við erum að tala um skort á fjármagni til að standa straum af heilbrigðu atvinnulífi úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Fjármagnið er fyrir hendi. Við vitum að það er til. Í þessari deild er t.d. til meðferðar þáltill. um breytingu á starfsemi Seðlabankans sem miðar að því að losa um mjög mikið af því fjármagni sem stýrt er af ríkisvaldinu þannig að það leiti þeirra leiða sem eðlilegt er að það leiti í samkeppnishæfu samfélagi. Ég tel að aðgerðir í þá veru séu miklu heppilegri aðgerðir til að stuðla að eðlilegri uppbyggingu atvinnulífs en margt annað.

Ég bendi hv. flm. á að fjórir þm. BJ fluttu þáltill. í fyrra um þróunarstofur landshluta. Þar gerðum við m.a. ráð fyrir að þessar þróunarstofur hefðu forgöngu um mótun byggðastefnu í landshlutum og veittu alhliða ráðgjöf á öllum sviðum atvinnulífs, að stjórnir þessara þróunarstofa væru skipaðar fulltrúum lýðræðiskjörinna landshlutasamtaka, sem ég tel mjög mikið atriði í þessu máli, þ.e. að kosningu til landshlutasamtaka verði breytt með lögum þannig að kjör til þeirra sé lýðræðislegt, þar sé ekki fulltrúasamkunda eins og núna tíðkast. Þróunarstofurnar hafi sjálfsforræði til áætlanagerðar, ákvarðanatöku og fjármagnsútvegunar, þ.e. að ríkisvaldið sé ekki með puttana ofan í ákvörðunum þessara þróunarstofa. Þróunarstofurnar starfi í tengslum við byggða- og áætlanadeild núverandi Framkvæmdastofnunar, en verði sjálfstæðar stofnanir sjálfar og byggðadeildin sé sjálfstæð stofnun undir umsjón félmrn. Síðan sögðum við í 5. lið að þróunarstofurnar skyldu sjá um gerð og framkvæmd byggðaáætlana og leituðu þær til Alþingis eftir fjármagni til stuðnings byggðaáætlunum. Ef það fjármagn væri samþykkt á fjárlögum skyldu þróunarstofurnar bera ábyrgð á veitingu fjárins í samræmi við áætlanir og varðveita iðnþróunarsjóði landshlutasamtaka. Það eru þegar til fordæmi að þessum iðnþróunarsjóðum víðs vegar um landið, á örfáum stöðum. Ég sé ekki annað en að sveitarfélög eða samtök þeirra geti staðið að stofnun slíkra sjóða og þá hugsanlega sótt fé til fjárveitingavaldsins, (Gripið fram í.) en þá eftir beinum leiðum. Ég verð að hryggja hv. 4. þm. Vesturl. Ég hef það ekki á takteinum, en ég skal reyna að verða mér úti um þær upplýsingar og útvega honum þær við fyrstu hentugleika, eins og hæstv. fjmrh. segir alltaf.

Ég tel ekki vera tilefni til að vera bjartsýnn í þessum málum núna á þessum síðustu og verstu tímum. Ég get upplýst hv. flm. um að við fjórir þm. Bandalags jafnaðarmanna lögðum fram brtt. við gerð fjárlagafrv. núna fyrir áramót, við 6. gr. frv., þar sem við lögðum til að nýr liður yrði tekinn inn í fjárveitingaheimildir sem hljóðaði á þessa leið:

„Að greiða iðnþróunarsjóðum í landshlutum upphæð sem svarar framlagi sveitarfélaga til hvers sjóðs.“ Þetta átti að verka sem hvatning fyrir sveitarfélögin til að leggja fé í þessa sjóði, vitandi að ríkið legði annað eins á móti. Enn fremur skyldi framlag ríkissjóðs til Byggðasjóðs skerðast sem þessari heildarupphæð næmi.

Reyndar vorum við með annan lið líka sem hljóðaði þannig, að ríkið tæki að sér að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs, þ.e. fjmrh., áhættulán til nýrra fyrirtækja í iðnaði og ábyrgðir þessar næmu allt að 80% af lánsupphæðum, en iðnrn. setti nánari reglur um ábyrgðir þessar. Þessu voru þm. ekki meira opnir fyrir en það að þeir héldu hreint og beint að við værum að tala um að draga fé úr einhverjum öðrum sjóðum til að leggja fram í þessu tilefni. Hér var þó eingöngu verið að tala um ríkisábyrgðir á lán innanlands með sama hætti og menn hafa stundað ríkisábyrgðir á lán utanlands frá.

Ég á sæti í iðnn. þessarar deildar og mun þar af leiðandi fjalla um þetta frv. Ég mun þar reyna að koma, að svo miklu leyti sem mér er mögulegt, mínum skoðunum á framfæri og styðja þessa viðleitni eins og mér er framast unnt því að mér er ljóst að hv. flm. gengur gott eitt til í sínum málflutningi.