25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir að hafa fært umr. um iðnþróunarsjóði landshluta hér inn í Alþingi. Reyndar hefur mikið verið rætt um þessi efni og víða er svo komið að slíkir iðnþróunarsjóðir hafa þegar verið stofnaðir. Ég minnist þess að árið 1978 flutti ég tillögu í bæjarstjórn Keflavíkur um að bæjarstjórnin beitti sér fyrir því að á Suðurnesjum yrði slíkur sjóður stofnaður. Tildrögin að þeim tillöguflutningi voru það útlit sem var í atvinnumálum á Suðurnesjum á þeim tíma og er enn og þörf á sameiginlegu átaki sveitarfélaganna til að ýta undir ný atvinnutækifæri, nýjungar á sviði iðnaðar og annað sem að gagni gæti komið í atvinnumálum.

Þess er skemmst að minnast að mönnum þótti ekki mikið til koma þá, einkum voru stöku sjálfstæðismenn á móti þessu vegna þess að þeim fannst svo sósíalískt að samþykkja slíka sjóðsstofnun. En það gefur að mínu viti þessari hugmynd gildi að hér er einmitt á ferðinni svipuð hugmynd eða í ætt við það sem í Svíþjóð eru kallaðir launþegasjóðir, þ.e. safnað saman fjármagni til uppbyggingar atvinnulífs. Þetta er í öðru formi og rætt um aðra tekjustofna, en það er sama hugsunin á bak við þetta og þar: góður vilji til að nýta samvirkt átak heildarinnar.

Ég fagna því sérstaklega að þetta skuli vera fært inn á Alþingi af þm. Sjálfstfl. sem sýnir að í þeim flokki eru margar vistarverur og litskrúðugar skoðanir þar á ferðinni.

En svo er komið þar sem ég þekki til, og reyndar víðar að stofnaður hefur verið Iðnþróunarsjóður Suðurnesja. Sú andstaða sem þessi sjóðsstofnun varð fyrir á sínum tíma hefur alveg lognast út af. Menn hafa séð að þörf var á sterku átaki til atvinnuuppbyggingar og sameinast þrátt fyrir annan skoðanaágreining. Í grg. sem Iðnþróunarsjóður suðurnesja sendi frá sér segir um fjármögnunarmöguleika, sem eru á annan veg en hér er greint:

„Hugsanlegir fjármögnunaraðilar þróunarsjóðs Iðnþróunarfélags Suðurnesja eru sveitarfélögin á Suðurnesjum, verktakafyrirtækin á Keflavíkurflugvelli, orkuveitur, fagfélög á Suðurnesjum og opinberir aðilar, t.d. Byggðasjóður. Stefnt verður að því að sveitarfélög greiði árlega fasta prósentu af útsvari, aðstöðugjaldi og fasteignaskatti. Fyrsta árið verði þessi prósenta 0.5%, en síðar aukin.“

Frekar segir hér:

„Umræður eru í gangi við fagfélögin á Suðurnesjum um fastan tekjustofn til sjóðsins þar sem upphæðin miðist við fjölda meðlima félaganna eða heildartekjur.“ Þetta er sú hugsun sem ríkir þar.

Hvað varðar tilgang og starfshætti þess sjóðs segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk sjóðsins verður að styrkja umbótastarf í atvinnulífi Suðurnesja í þeim tilgangi að örva nýsköpun í átt til aukinnar og bættrar framleiðslu, að aukin framleiðni, að örva hugsmíðar og þróun hugmynda er leitt geta til framleiðslu nýrra vörutegunda. Þessum markmiðum leitast sjóðurinn við að ná með áhættulánum, styrkveitingum og framlögum.“

Enn fremur er gerð grein fyrir því hverjir geti notið aðstoðar, hver eru skilyrði fyrir stuðningi o.fl. Varðandi það frv. sem hér liggur fyrir verð ég að segja að ég held að 1. gr. sé óþörf. Það er þegar heimilt að stofna iðnþróunarsjóði og það hefur reyndar verið gert.

Það er annað sem ég hef við þetta frv. að athuga við fljóta athugun. Ég tel að sjálfstæði sveitarfélaga sé of takmarkað með slíkri lagasetningu. Ég tel að hér eigi að vera um sjálfstætt framtak sveitarfélaganna að ræða. Ég tel að ef svo verður vinnist málin betur og þeim fylgi betri hugur en verði þetta gert með lagasetningu þar sem öllum er skylt að gera þetta án tillits til þess hvort sveitarfélögin, sem hér er um að ræða, vilja það eða ekki. Þetta er almenn skoðun mín sem byggist á því, að ég tel að sveitarfélögin eigi að búa við meira sjálfstæði en tíðkast í dag. Þannig er flm. enn sósíalískari en ég og má vera að það megi samhæfa þetta. En ég má til með að segja frá þessari almennu skoðun minni.

Hvað varðar fjármögnun man ég eftir því að á sínum tíma vorum við flm. till., sem borin var fram í bæjarstjórn Keflavíkur, með hugmyndir um að hún yrði 1% af föstum tekjum sveitarfélagsins. Hér er talað um 2%. Ég get vel fallist á að hún gæti verið hærri. Þessari till. var vel tekið í bæjarstjórn Keflavíkur, en minni sveitarfélögin voru óhress. Þau töldu sig ekki hafa efni á að fara svona að. Hins vegar veit ég að bæjarstjórn Keflavíkur lagði til um skeið 1% af sínum tekjum til að ráðstafa til þeirra verkefna sem hér eru nefnd og er það mjög af því góða.

Varðandi 4. gr., þá er þar gert ráð fyrir að hækka rafmagnið. Það kemur vissulega til skoðunar að gera það. En ég held að hyggilegra sé að það verði heimamenn sem taki ákvörðun um slíkt, það verði ekki hönd ríkisins sem þar grípi inn í. Svo er háttað þar sem ég þekki til — það er sjálfsagt öðruvísi annars staðar — að sveitarfélögin eiga rafveiturnar og geta vissulega ákveðið að fara svona að, en ég er á móti því að 67% þessa gjalds skiptist milli iðnþróunarsjóða í landinu öllu eftir íbúatölu í hverjum landshluta 1. desember árið áður. Ég sé ekki alveg hvaða rök eru fyrir þessu. Það má vera að þau séu fyrir hendi, en þetta er það sem mér kemur fyrst í hug.

Ég er eins og að líkum lætur mjög sammála því að reynt verði að koma á löggjöf sem gæti orðið rammalöggjöf um þessa hluti ef þess er þörf og ef það getur orðið til þess að ýta undir slíka sjóðsstofnun til styrktar atvinnulífi á þeim stöðum sem við erfiðleika eiga að stríða. Ég er hins vegar, eins og ég gat um áðan, almennt þeirrar skoðunar að frumkvæðið eigi að koma að heiman, það eigi að vera pólitísk ákvörðun bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmanna hvort þeir vilja fara þessa leið eða aðra, hvað þeir vilji leggja mikið fé í þetta verkefni.

Ég lýk máli mínu með því að þakka flm. enn á ný fyrir að hafa hafið þessa umr. á Alþingi. Það getur orðið til þess að flýta fyrir og vekja meiri áhuga sveitarstjórna á því að fara svona að. Þetta er leið til að virkja átak fjöldans, átak heildarinnar til atvinnuuppbyggingar þar sem þess er þörf, og því fagna ég.