25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. til l. um iðnþróunarsjóði landshluta. Ég vil eins og aðrir hv. ræðumenn þakka flm. fyrir að gera glögga grein fyrir þessu máli. Það er mála sannast að menn velta því mikið fyrir sér þessa dagana og vikurnar og hafa gert það lengi undanfarið með hvaða hætti væri eðlilegast að efla iðnþróun í landinu. En til iðnþróunar skortir fjármagn eins og annarra fjölmargra hluta og þá er spurningin: Hvernig er mögulegt að útvega það fjármagn sem þarf?

Í 3. gr. þessa frv. er vikið að árlegu framlagi þeirra sveitarfélaga sem að hverjum sjóði standa og skal það nema allt að 2% af föstum tekjum þeirra, þ.e. útsvari, fasteignagjöldum og aðstöðugjaldi. Ákveða má með reglugerð að tiltekinn hluti þessa framlags sé bundin inneign sveitarfélaga hjá sjóðunum og skal hún þá verðtryggð að fullu.

Ég ætla ekki að fetta fingur út í gjaldtöku sem þessa. Hitt hygg ég að flestum sé vel ljóst að fjárhagur margra sveitarfélaga er síður en svo góður og þá ekki síst hinna fámennari sveitarfélaga. Á þetta minntist hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, örfáum orðum, slíkt hefði borið á góma á Suðurnesjum vegna stofnunar iðnþróunarsjóðs þar.

Í 7. gr. þessa frv. stendur, með leyfi forseta: „Stjórnir iðnþróunarsjóða skulu kosnar á aðalfundi. Aðalfund sitja fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem greitt hafa framlag sitt til sjóðsins skv. a-lið 3. gr. fyrir næst liðið ár. Atkvæði á aðalfundi ráðast af bundinni inneign hvers sveitarfélags í sjóðnum eins og nánar skal kveðið á um í samþykktum sjóðsins, þó þannig að ekkert sveitarfélag fari með minna en 1% atkvæða né meira en 48% atkvæða þeirra sveitarfélaga sem rétt hafa til setu á aðalfundi.“

Hér er um það að ræða að fyrirtæki sem stofnuð eru og ekki hafa sveitfesti innan þess sveitarfélags sem lagt hefur til sjóðsins og öðlast rétt innan hans eiga það á hættu, vegna þess að inneign í sjóði og aðild gerir ráð fyrir myndugleika um stjórn hans, að fá ekki úthlutun, þ.e. fyrirtæki sem eru staðsett í þeim sveitarfélögum sem ekki hafa lagt til sjóðsins. Þetta er í beinu samhengi, að mínum dómi, við litla burði fjölmargra sveitarfélaga sem eiga raunar í erfiðleikum þrátt fyrir fulla álagningu með að standa undir þeim lögboðnu gjöldum, óumflýjanlegu gjöldum, sem þau þegar þurfa að standa straum af.

Þetta frv. mun að sjálfsögðu fá þinglega meðferð í nefnd. Að vísu táknar það stundum að mál verði sett í söltunarstöð, að það verði sett í salt. Ég er þó ekki viss um að svo verði um þetta frv. Ég á sæti í iðnn. og hef því aðstöðu til að skoða það nánar, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að eyða dýrmætum tíma deildarinnar til frekari umr. um þetta mál.

Varðandi atvinnurekstur, iðnrekstur og stofnun hans er það staðreynd að sum sveitarfélög hafa hliðrað til vegna fyrirhugaðrar stofnunar ýmissa fyrirtækja, m.a. iðnfyrirtækja, hvert á sínum stað. Mér er kunnugt um að slíkar tilhliðranir hafa orðið þungar í skauti í ýmsum sveitarfélögum, enda þótt beint hafi legið við að fyrirtækið yrði stofnað og starfrækt í því sveitarfélagi sem lagði á sig beinar og óbeinar fjárskuldbindingar vegna viðkomandi fyrirtækis.

Virðulegi forseti. Ég vil eigi að síður taka undir margt af því sem hv. flm. kom að í sinni framsögu. Hitt er það að auðvitað er æskilegast, þegar á allt er litið, að hverjum atvinnuvegi séu búin þau rekstrar- og starfsskilyrði að honum sé fært einum og sér að standa undir vexti sínum og viðgangi og þróun framvegis.