25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

292. mál, tollskrá

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég þarf í rauninni ekki að hafa mörg orð um þetta frv. til l. um breyt. á tollskrá o.fl. sem við flytjum hv. 6. landsk. og sá er þetta mælir. Þetta frv. hefur áður verið flutt hér en ekki náð fram að ganga. Í grg. segir á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ljóst er að reglur þær, sem nú gilda um hlunnindi ráðherra í sambandi við bifreiðakaup, stangast á við réttarvitund almennings. Þess vegna ber nauðsyn til að breyta þeim reglum sem nú eru í gildi um þetta efni.“

Á 100. löggjafarþingi var flutt stjfrv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá sem miðaði að því að fella þessi fríðindi ráðh. niður, þ.e. að þeir gætu keypt bifreiðar án þess að greiða af þeim aðflutningsgjöld. Á sínum tíma var frv. samþykkt í Nd. Alþingis og nál. fjh.- og viðskn. þeirrar deildar er prentað með þessu frv. sem fskj. á bls. 2, en á vordögum 1979 dagaði frv. uppi einhverra hluta vegna í fjh.- og viðskn. Ed.

Þegar þetta stjfrv, var flutt á sínum tíma fylgdi því grg. þar sem m.a., með leyfi forseta, var vitnað til reglugerðar um bifreiðamál ríkisins, en þar segir:

„Hver ráðherra getur fengið til umráða ríkisbifreið, sem ríkissjóður ber allan kostnað af. Þessar bifreiðar skulu sérstaklega auðkenndar, og er óheimil notkun þeirra nema í embættisþágu.

Ráðherra, sem ekki óskar að fá til umráða ríkisbifreið, á þess kost að fá keypta bifreið, er hann tekur við embætti, með sömu kjörum og gilt hafa um bifreiðakaup ráðh., er lætur af embætti. Heimilt er að veita ráðh. í eitt skipti lán til slíkra kaupa með sömu kjörum og gilda um ríkisforstjóra, sem haft hafa ríkisbifreið til afnota.“

Enn fremur sagði í grg. stjfrv.:

Ríkisstj. telur óeðlilegt að ráðherrar fái bifreiðar, er verða einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu. Er því með frv. þessu lagt til að lagaheimild til veitingar slíkra fríðinda verði felld úr gildi.“

Hér er tekið upp þetta mál, sem ríkisstj. flutti 1978–1979, og þarf svo sem ekki að hafa um það fleiri orð. Oft hafa skapast um þetta miklar umræður. Það er ekki verið að leggja til að neinar þær breytingar aðrar séu gerðar en að ráðherrar verði að sæta sömu kjörum og almenningur þá er þeir kaupa sér bifreiðar til einkanota. Hér er ekki verið að amast við því að ráðherrar hafi góða bíla og bílstjóra til afnota í embættisins þágu. Það þykir sjálfsagt og er ekki nokkur aths. við það gerð. En ef ráðherrar kaupa sér hins vegar einkabifreiðar eiga þeir að kaupa þær með sömu kjörum og aðrir verða að sæta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að þessu sinni, en legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.