25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

293. mál, sala Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Þessi till. er einföld í sniðum. Hún var raunar flutt hér á síðasta þingi, þá í Sþ. að vísu og nokkru víðtækari en hún er nú. Það flytja hana auk mín hv. þm. Eiður Guðnason og Stefán Benediktsson.

Í fyrra urðu allmiklar umr. um störf Grænmetisverslunar landbúnaðarins og í þeim umr. var það upplýst að ríkissjóður ætti Gullaugað svonefnda, húsnæði það sem Grænmetisverslunin notar eða leigir út, geysiglæsilegt hús eins og menn vita og auðvitað allt of stórt fyrir rekstur þess fyrirtækis þó að honum yrði haldið áfram í einhverju formi, en væntanlega dregur þó eitthvað úr þeirri starfsemi þar sem menn eru almennt orðnir þeirrar skoðunar að meira frjálsræði eigi að ríkja um verslun með grænmeti en verið hefur. En ég er ekkert að amast við því að fyrirtækin séu allmörg sem með þessa vöru versla þannig að eðlileg samkeppni verði. Þess vegna er sjálfsagt að Grænmetisverslun landbúnaðarins haldi áfram störfum ef bændasamtök eða aðrir æskja þess. En húsnæði þetta hefur hún ekkert við að gera nema þá að mjög litlu leyti og á þá auðvitað að borga fyrir það leigu.

En það er lagt til að hagnaður af söluandvirði eignarinnar mundi renna með einhverjum hætti til styrktar landbúnaði. Vissulega er mikil þörf á því að hjálpa bændum til að aðlaga sig nýjum aðstæðum því að svo mikið er nú um það rætt og allir vita hvaða erfiðleikar eru í landbúnaðinum að því er varðar þessar hefðbundnu búgreinar eins og það er orðað. Það þarf mikið til að koma til að bjarga sveitunum og styrkja atvinnulífið um land allt. Um það eru allir sammála, hygg ég.

Þá er einnig lagt til að breyta Áburðarverksmiðjunni í almenningshlutafélag og að söluhagnaði yrði einnig þar varið til styrktar landbúnaðinum. Í grg. er um það getið að æskilegt gæfi verið og eðlilegt að breyta verksmiðjunni í almenningshlutafélag, eins og ég sagði áðan, og hjálpa bændum þá til að eignast hana og öðrum ef þeir hefðu á því áhuga. Um þetta annars ágæta fyrirtæki er það að segja að það hefur verið í gífurlegum fjárhagserfiðleikum á undangengnum árum. Menn þekkja það hér í hv. deild einkum og sér í lagi þó nm. í hv. fjh.- og viðskn. hvernig hag þessa fyrirtækis var komið þegar á s.l. ári. Þá var safnað saman allviðamiklum upplýsingum um afkomu verksmiðjunnar í sambandi við frv. til l. um staðfestingu á ríkisábyrgð sem fyrirtækið hafði fengið fyrir 80 millj. kr., að mig minnir. Þá kom í ljós að halli fyrirtækisins var geigvænlegur, m.a. sprottinn af því að rekstrarlán höfðu verið tekin í dollurum og dollaragengið hækkaði mikið eins og menn vita. Fyrirtækið lenti mjög illa út úr því öllu saman. Hins vegar var varan seld með langtíma gjaldfresti með takmörkuðum vöxtum og engum fyrst í stað. Ég hygg að þarna sé enn um að ræða mjög mikla fjárhagslega erfiðleika.

Það er skoðun okkar flm. að heppilegra sé að þetta fyrirtæki sé rekið á venjulegum viðskiptagrundvelli og þess vegna eigi ríkið að losa sig við starfrækslu þessa fyrirtækis.

Ég þarf ekki, hæstv. forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Þetta skýrir sig sjálft. Málið gengur væntanlega til hv. fjh.- og viðskn., og það legg ég til, og síðan til framhaldsumræðu.