25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

293. mál, sala Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta langt mál, en vildi aðeins koma að örfáum ábendingum í sambandi við þetta mál.

Ég fagna orðum hv. flm., hv. 4. þm. Norðurl. v., að allir séu sammála um að hjálpa bændum í þeim vanda sem breyttar markaðsaðstæður valda nú. Þá vil ég koma því á framfæri að það er ekkert síður þörf að huga þar að kartöflubændum en öðrum. Nýlega var ég á fundi með bændum í Þykkvabæ, þar sem kartöfluframleiðslan er langstærstur þáttur í búrekstri, og þeir létu í ljós mikinn ugg ef ekki yrði unnt að halda áfram skipulegri verslun með kartöflur, töldu að ef þeir þyrftu hver og einn að keyra sínar kartöflur til kaupandans væri um svo ótryggan atvinnuveg að ræða að ekki væri lengur á hann að treysta. Því yrðu þeir að leita annarra leiða með annarri búvöruframleiðslu sem er lítið svigrúm fyrir á markaðinum. Þetta er því mjög mikið áhyggjuefni, ekki aðeins fyrir þá heldur einnig fyrir þjóðfélagið allt. Það er sem sagt spurningin um hvort hér á að vera hægt að halda uppi kartöflurækt sem fullnægir þörfum þjóðarinnar eins og kostur er.

Sem dæmi um það tjón, sem af því hlytist ef þarna yrði frá að hverfa, má nefna að fjárfestingarkostnaður vegna þessa atvinnuvegar í þessum eina hreppi er áætlaður 400–500 millj. kr. Það er því vissulega dýrt fyrir þjóðfélagið ef hann yrði allur til einskis. Ég held því að það verði að fara mjög með gát að öllum breytingum á þessu sviði, breytingum sem kynnu að stefna þessum atvinnurekstri í hættu.

Um Áburðarverksmiðjuna get ég verið fáorður. Eins og kunnugt er var það ákvörðun Sjálfstfl. að breyta henni úr hlutafélagi í ríkisfyrirtæki. Ég þekki ekki þá sögu svo að ég viti hver ástæðan var fyrir því. Hins vegar hefur það komið fram hjá núv. iðnrh. að hann telji að þó að rekstrarformið sé breytt sé ekki rétt að ríkið afhendi meiri hluta sinn í fyrirtækjum sem hafa slíka einkaaðstöðu á markaðinum eins og Áburðarverksmiðjan hefur hér á landi. En ég vil ekki loka fyrir að það geti ekki verið heppilegra að breyta um rekstrarform, þ.e. gera verksmiðjuna að hlutafélagi þannig að fleiri aðilar komi að rekstrinum eins og var í upphafi þegar Áburðarverksmiðjunni var komið af stað.