25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

293. mál, sala Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstvirtur forseti. Það er einkum tvennt sem ég vil víkja að.

Í fyrsta lagi eru það engin rök fyrir því að viðhalda þurfi framleiðslu á garðávöxtum hér á landi að þá þurfi endilega að selja innanlands í einokun. Það er alveg út í bláinn. Og að 400–500 millj. fjárfesting í Þykkvabænum sé glötuð ef ekki væri einokun á innanlandsverslun með kartöflur eru líka rök sem ég skil ekki satt að segja að menn þar um slóðir vilji bera fyrir sig. Aðalatriðið er að markaður sé innanlands fyrir þessa framleiðslu. Ég hef ekki heyrt hér í sölum Alþingis að menn hafi viljað heimila innflutning á kartöflum á meðan góðar íslenskar kartöflur eru á boðstólum. Hvort þær eru á boðstólum á einum stað eða fleirum það segir ekkert til um það hvort kartöflurækt verður áfram í Þykkvabænum eða ekki.

Auðvitað verða þeir, sem geta framleitt kartöflurnar bestar og ódýrastar, samkeppnishæfastar á markaðinum. Einhverjir heltast þá úr lestinni, en aðrir auka við sína framleiðslu. En aðalatriðið er að það hlýtur að hvetja alla bændur til að standa vel að sínum rekstri ef einhver samkeppni er um markaðinn. Þess vegna held ég að við þurfum ekkert að deila um þetta. Kartöflur verða framleiddar áfram á Íslandi og væntanlega betri og ódýrari en nú er ef frjáls samkeppni fær þar að ríkja. Skal ég ekki hafa um það fleiri orð.

Að því er varðar Áburðarverksmiðjuna og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þjóðnýtt hana er það út af fyrir sig rétt að það fyrirtæki var þjóðnýtt. Það voru þó ekki allir sjálfstæðismenn sem því voru sammála. Ég greiddi a.m.k. atkvæði á móti því hér í Alþingi sem varaþingmaður. Ég var víst einn um það af þingheimi þá, en engu að síður var þó til einn andvígur. Þeir eru mun fleiri núna, sem betur fer, í öllum eða flestum flokkum sem sjá að ríkiseinokun á svona atvinnufyrirtækjum er ekki eðlileg.

Bændur þurfa að fá áburð. Ég minnist þess ekki að í því sambandi hafi hæstv. iðnrh. haldið því fram að þar sem um aðeins eitt fyrirtæki væri að ræða á einhverju sviði þyrfti ríkið að eiga meiri hluta. Það kann að vera að hann hafi einhvern tíma sagt það, en mér finnst það ólíkt honum.

Að því er Áburðarverksmiðjuna t.d. varðar er ekki nokkur minnsti vandi að skapa því fyrirtæki eðlilegt aðhald. Það þarf ekki endilega að framleiða allan áburðinn sem á landinu verður notaður í þessu fyrirtæki. Það er víst áreiðanlega nægileg samkeppni í framleiðslu áburðar til þess að veita fyrirtækinu ekki meiri tollvernd en svo að það framleiði á nokkurn veginn því verði sem hægt er að fá áburðinn fyrir annars staðar að viðbættum flutningskostnaði. Það má segja það sama um sementið. Einmitt í svona þungavöru vegur flutningskostnaður mjög mikið. Það er talsvert mikil vernd fólgin í kostnaðinum við flutninga til landsins. Ef mönnum sýnist svo má veita þessum fyrirtækjum einhverja frekari tollvernd ef það þá ekki brýtur í bága við samninga okkar um fríverslun, samninga við Fríverslunarbandalagið og líka Efnahagsbandalag Evrópu. En það er engin ástæða til þess að hafa ekki slík fyrirtæki í hlutafélagsformi og í einkaeigu. Það er hægt að veita þeim algjörlega fullkomið aðhald. Þar að auki höfum við í lögum ákvæði til að hindra einokunarmyndun og samkeppnishömlur sem er hægt að beita ef stofnað er til óhófsgróða í skjóli einokunar.

Síðasti ræðumaður, hv. þm: Stefán Benediktsson, vék hér nokkuð að almenningshlutafélögum og ég er honum þakklátur fyrir að ræða það mál. Það er alveg rétt að eignamyndun hjá einstaklingum á Íslandi hefur orðið mest í íbúðarhúsnæði og það er vel. Það má vel vera að við Íslendingar séum eitthvað ákveðnari í því en aðrir að vilja eiga okkar eigin reit og eiga hann einir. Vafalaust hefur bændaþjóðfélagið, þar sem eignarrétturinn var helgur og allir vildu eitthvað eignast sem þeir einir áttu, stuðlað að því að menn vilja hér fyrst og fremst eiga sínar íbúðir. En það á ekki að hindra að menn geti líka orðið þátttakendur í atvinnulífinu með hlutabréfakaupum.

Einmitt þeir, sem eru komnir á miðjan aldur eða þar yfir og margir hverjir eru búnir að eignast sínar íbúðir og búa þess vegna við lítinn húsnæðiskostnað, ættu að geta varið fjármunum til að efla atvinnuvegina. Ef fjármagn er til í þjóðfélaginu til að koma fyrirtækjum á legg mættu einstaklingarnir alveg eins hafa eignarréttinn en ekki ríkið. Þessir peningar eru íslenskir peningar. Hvers vegna ekki að dreifa þeim meðal fólksins þannig að fólkið geti notið þess öryggis sem því er samfara að eiga einhverja eign í atvinnuvegunum? Öll þjóðin nyti þess aðhalds sem þar með skapaðist í stað þess að einhverjar klíkur á vegum ríkisins rækju fyrirtækin og væri hér um bil sama hvernig þau gengju.

Gátan er því ekki torleyst. Það þarf aðeins að hafa það pólitíska vald sem auðveldar mönnum að eignast fjármunina í stað þess að þeir renni í stöðugt ríkara mæli í ríkishítina og til margháttaðra ríkisstofnana sem byggja yfir sig óhófsbyggingar og hafa kannske ekki aðhald til þess að reka fyrirtækið með mestri hagkvæmni. Mín skoðun er sú að á Íslandi gætu menn vel átt sínar hóflegu íbúðir, gætu kannske átt hlutabréf eða skuldabréf sem svaraði til íbúðareignar, oft og tíðum af því að það er mikil auðlegð til í þessu þjóðfélagi. Það sem hefur á skort er að menn fengju að gefa ávísanir á þessa auðlegð sína eins og áður hefur verið rætt hér og verður rætt hér áður en langt um líður í sambandi við þessa peningamagnskenningu sem við höfum búið við. Það er bara röng hugsun að ekki megi dreifa auðnum meðal þjóðarinnar. Það er ekki hægt að tryggja virkt lýðræði með öðrum hætti en að menn séu sæmilega fjárhagslega sjálfstæðir, geti sagt það sem þeim sýnist og gert það sem þeim sýnist án íhlutunar opinbers valds. Auðvitað verður auðlegðin miklu meiri ef einstaklingurinn og kraftur hans fá að njóta sín. Ég held að okkur hv. þm. greini ekkert á um þetta. Ég vildi aðeins benda á þetta í framhaldi af hugleiðingum hv. þm.