26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

261. mál, lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, skýr og greinargóð, og glögga dagsetningu, þá dagsetningu sem fólk hefur beðið eftir í lengri tíma og ekki fengið um nein svör. Ég vek athygli á því að þó að skammt sé undan að þessi lán fáist sem betur fer afgreidd, þá hefðu þau að öllu eðlilegu átt að afgreiðast í desember s.l. í síðasta lagi. Það er auðvitað mergurinn málsins að næstum þrjá mánuði hefur fólk beðið eftir þessum lánum og miðað skuldbindingar sínar við það í bönkum og annars staðar að þessi lán fengjust fyrir áramótin síðustu.

Húsnæðismálaumræða almennt fer hér fram í þinginu og því skal ekki farið út í hana hér. Spurningin er eins og fyrr í hvað féð á að fara í þjóðfélaginu og hversu samfélagið vill búa að þessum málum í heild sinni. Við sjáum risabyggingar í verslun og viðskiptum hér á höfuðborgarsvæðinu og glæsihallir gjörblankra olíufélaga rísa, ekki bara hér í Reykjavík heldur úti um land því að það eru einu byggingarnar sem rísa úti um land núna. Glæsihallir þessara skítblönku olíufélaga og umsvif ýmissa milliliða sýna hvar féð í þjóðfélaginu er að finna og víðar má þau dæmi sjá. Ég held að brýnt verkefni sé að sækja þetta fé og flytja það til húsbyggjenda og húskaupenda fyrst og síðast, til þeirra sem eru að eignast þak yfir höfuðið.

Þær ráðstafanir, sem nú hafa verið boðaðar til hjálpar þeim verst stöddu, koma eflaust einhverjum að gagni. Hjá sumum er og verður eflaust um gálgafrest að ræða, því miður. En aðrir, og ég óttast að sá hópur sé allt of stór, fá ekki þá úrlausn sem dugar. Lögbirtingur mun því að öllum líkindum, því miður, enn blómstra miðað við þau dæmi sem maður sér hvarvetna í kringum sig.

Hinu ber að fagna að óvissuástandi um greiðslu lána er létt af stórum hópi fólks og er það vel þótt það sé trúa mín að það verði staða viðskiptabankanna en ekki fólksins sem fyrst og fremst skánar við þessa úrlausn og greiðslu þessara lána.