26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3193 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

261. mál, lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég tel ekki efni standa til að fara að hefja almennar umræður í fyrirspurnatíma um húsnæðislánin almennt, en ég vil geta þess, út af því sem hér hefur komið fram, að núna eru til afgreiðslu hjá Húsnæðisstofnuninni, sem er gert ráð fyrir að veðdeildin greiði úr til marsloka, 1621 lán. Ég hef ekki hér í höndum nákvæma skiptingu á því fé. Sumt af þessum lánum hefur verið tilkynnt opinberlega um, 1230 lán. Það kom í fjölmiðlum. Viðbótin hefur ekki verið sett í fjölmiðla. En það er unnið að því að raða upp næstu lánveitingum, sem væntanlega verða þá í apríl-maí, og verður tilkynnt formlega um þær þannig að ekki sé um neinar getsakir að ræða þegar ljóst er hvernig fjármagn verður til til þeirrar afgreiðslu.

Ég sé ekki ástæðu til að svara þessu öðruvísi en þannig að reynt verður að vinna þessi mál eftirleiðis þannig að fólk fái að vita um það fyrir fram hvenær það á von á afgreiðslu lána. Verða send bréf til hvers einstaklings um það mál.