26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

263. mál, ullariðnaðurinn

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í fjarveru minni á þingi nú fyrir skemmstu bar varamaður minn fram nokkrar fsp. til iðnrh. um afkomu og verðmætishlutdeild fyrirtækja í ullariðnaði. Varamaður minn, Þórður Skúlason, er nú farinn af þingi. Ég vil því leyfa mér að bera upp þessar fsp. fyrir hann.

Tilefni þeirra er að í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem gerð var á s.l. hausti að tilhlutan landssamtaka prjóna- og saumastofa, um afkomu og verðmætishlutdeild einstakra greina ullariðnaðarins, kom það fram að verulega hallar á framleiðendur miðað við það sem verið hefur meðan útflytjendur hafa aukið hlut sinn. Niðurstaðan er sú að útflytjendur eru taldir hafa í hreinan hagnað tæp 10% af tekjum sínum á haustmánuðum s.l. árs, eða nánar tiltekið 9.6%, meðan aftur á móti tapið hjá saumastofunum er tæp 3% og tapið hjá prjónastofunum er rúmt 1%. Ef niðurstöður þessar eru bornar saman við niðurstöður fyrri könnunar, sem gerð var árið 1981, er ljóst, eins og ég hef þegar sagt, að verulega hefur hallað á framleiðendur á þessu tímabili.

Í stórum dráttum má segja að árið 1981 hafi framleiðendur fengið í sinn hlut um 50% af andvirði útflutningsvörunnar en hlutdeild þeirra af andvirðinu var komin niður í 38% á árinu 1984. Hún hafði m.ö.o. lækkað um 1/4 hluta. Þó er á það að líta að verð vörunnar í erlendri mynt hefur lækkað til framleiðenda. Jafnframt hefur það að sjálfsögðu aukið á vanda framleiðenda að nú eru greiddir raunvextir af flestum lánum, en áður voru t.d. vextir af skuldabréfum í mörgum tilvikum neikvæðir.

Ég vil leggja á það áherslu hér að mál þetta er ákaflega þýðingarmikið fyrir stóran hóp fólks, því að hér er um að ræða fjöldann allan af fyrirtækjum sem staðsett eru hringinn í kringum landið. Enginn vafi er á því að ef þessi fyrirtæki verða að hætta starfsemi sinni og hún leggst niður vegna stanslauss taprekstrar, á sama tíma og útflytjendur virðast hafa þeim mun meiri hagnað, hlýtur það að hafa veruleg neikvæð áhrif á byggðaþróun í landinu og verða til að veikja mjög mörg byggðarlög, sem sannarlega standa ekki allt of vel að vígi um þessar mundir undir núverandi stjórnarstefnu.

Á hitt ber einnig að líta að ríkisvaldið ber hér býsna þunga ábyrgð því að stærsta fyrirtækið meðal útflytjenda í þessari grein er ríkisfyrirtæki. Það er fyrirtækið Álafoss, sem hefur til skamms tíma verið að öllu leyti í eigu Framkvæmdasjóðs og er að sjálfsögðu eign ríkisins þótt í seinni tíð hafi nokkuð verið rætt um að starfsmenn fyrirtækisins eignuðust hlutdeild í því. Ég veit nú ekki gjörla hversu langt það mál er komið, en það skiptir ekki máli I þessu sambandi, því að hér er ríkið úrslitaaðili við stjórnun á langsamlega stærsta fyrirtækinu meðal útflytjenda í þessari grein. Og því er spurt:

Hefur iðnrn. tekið til athugunar skýrslu Þjóðhagsstofnunar o.fl., er gerð var á s.l. hausti að tilhlutan landssamtaka prjóna- og saumastofa, um afkomu og verðmætishlutdeild einstakra greina ullariðnaðarins?“

Í öðru lagi er spurt: „Telur rn. eðlilega þá breytingu sem orðið hefur á afkomu og verðmætahlutdeild fyrirtækjanna frá árinu 1981?“

Í þriðja lagi er spurt: „Má vænta þess að rn. láti þessi mál á einhvern hátt til sín taka til að koma í veg fyrir að þýðingarmikill framleiðsluatvinnuvegur á landsbyggðinni leggist niður?“

Og í fjórða lagi er spurt: „Mun rn. taka þátt í hagræðingarátaki á prjóna- og saumastofum sem nú er verið að hrinda af stað á vegum landssamtaka prjóna- og saumastofa?“

Þetta eru þær fjórar spurningar sem Þórður Skúlason bar hér fram á þingi fyrir nokkrum vikum síðan.